08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Jörundur Brynjólfsson:

Hv. 6. þm. Reykv. vék að því seinast í sinni ræðu, að hann mundi geyma sér frekari umr., þangað til þáltill., sem snerta landsreikninginn, kæmu til umr. hér í deildinni, og lét þess getið, að ég hefði haft orð á, að mér þætti eðlilegt, að umr. um landsreikninginn yfirleitt færu þá fram. Þetta er rétt hermt. En ef umr. í dag snúast svo mjög í almenna átt um landsreikninginn sem horfur eru á, — og finn ég ekki að því —, þá skilst mér, að þar með geti þeim umr. að mestu leyti verið lokið, menn hafi hvorki gagn eða gaman af að endurtaka þær í sambandi við þáltill. Annars skilst mér samkomulag um það, að þennan landsreikning megi samþ. nú, hvað sem þáltill. líður.

Ég get ekki látið umr. framhjá mér fara að því er snertir endurskoðun landsreikninganna. Ég mun ekki fara út í annað en máli skiptir. Fyrst er það, að samstarf okkar endurskoðenda var mjög gott. Það get ég ekki síður borið hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) en hann bar okkur Sigurjóni Á. Ólafssyni, 2. landsk. þm. Hann sagði, að það væri eðlilegt, að við hefðum ekki gert eins margar aths. og hann, því að við hefðum verið bundnir af fylgi okkar við þá stjórn, sem sat að völdum 1937, og haft ólíka aðstöðu eða hann sem stjórnarandstæðingur. En þetta er misskilningur. Það á vitanlega ekki að skipta máli fyrir endurskoðendur, hvort þeir eru í stjórnarandstöðu eða fylgjandi stjórninni. Þeir eiga að athuga, hvort ríkisreikningurinn er réttur og færður á réttan hátt. Tímafrekust er athugunin á greiðslum, sem fram hafa farið, og gagnrýni á því, hvort þær hafi verið réttmætar samkv. lögum. Eftir mínum kunnugleika, sem nær yfir 10–20 ár, hafa þetta stöðugt verið aðalatriði endurskoðunarinnar, og á þeim grundvelli hefir starfið farið fram, einnig að þessu sinni.

Hitt er annað mál, að menn kunna, án þess að bundið sé við afstöðu þeirra til stj., að líta misjöfnum augum á ýmsar greiðslur, hve mikla stoð þær eigi í fyrirmælum Alþingis. Við höfum sameiginlega gert allmargar aths., eins og hv. þm. hafa séð, og fengið svör við þeim. Af till. okkar í tilefni af þeim svörum eru aðeins tvær, sem við SÁÓ höfum vísað til aðgerða Alþingis. Við teljum, að á öðru þessara atriða séu nú ákveðnar þær umbætur, sem duga muni til að girða fyrir misnotkun, og álítum það fullnægjandi svo langt sem það nær, því að sem yfirskoðunarmenn getum við ekki krafizt meira en loforðanna. Seinni tíminn verður svo að leiða í ljós, hvort þau verða haldin. Mér skilst það þýði ekki að gera fyrirspurnir og fá svör, ef maður leggur svo ekkert upp úr svörunum eða örvæntir um, að ríkisstj. hafi myndugleika til að halda þessu í réttu horfi.

Um hitt atriðið, sem við vísuðum til aðgerða þingsins, hefir nokkuð sýnzt sitt hverjum, og meiri hl. fjhn. lítur það öðrum augum en við yfirskoðunarmenn, en það er rekstur ríkisbúanna og hallinn á þeim. Við reyndum að setja okkur inn í ástæður þess. Tilkostnaður reynist meiri þar en annarstaðar, og valda því einkum launagreiðslur. Þær eru að vísu ekki hærri en laun, sem hið opinbera greiðir starfsmönnum sínum. En þær eru hærri en gerist við samskonar vinnu við landbúnaðarframleiðslu. Ég vil ekki segja, að opinberu störfin séu neitt virðulegri. En það hefir tíðkazt annar greiðslumáti fyrir þau hvarvetna á landinu. Í sjálfu sér væri ekkert við það að athuga, ef Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu, að tekjur manna við landbúnað á Íslandi ættu að vera jafnar og tekjur manna í opinberum stöðum. En það má ekki taka fáein ríkisbú út úr og greiða þar, og einungis þar, þau laun, sem skapa algert ósamræmi innan starfsgreinarinnar. Það er hvorki eðlilegt né ráðlegt. Ég álít, að fólk, sem þarna vinnur, verði að sætta sig við sömu kjör og aðrir, sem að landbúnaði vinna, og vænti ég þó, að Alþingi telji þá atvinnugrein fullkomlega nytsamlega.

Við gátum ekki verið allir saman, endurskoðendur, þegar við afgreiddum að síðustu aths. okkar til ríkisstj. Það gat ráðið nokkru um það, að við gátum ekki orðið sammála um allar aths., og er mikið af þeim ágreiningi aukaatriði. Ég ætlaði ekki að tala í neinum ádeilutón eða blanda mér inn í deiluatriði. Þegar við gerðum okkar sameiginlegu aths., lét Jón Pálmason þess getið, að hann vildi gera ýmsar fyllri aths., án þess að orða þær nánar. Við hinir lásum þær svo síðar ásamt svörum stjórnarráðsins, og ég get sagt, að þær hefðu ekki breytt neinum höfuðatriðum hjá okkur, þó að við hefðum séð þær fyrr. Ætla má, að hann hafi þó stungið þar niður, sem honum þótti mest við þurfa. Hann hefir sitthvað að athuga við starfrækslu í stjórnarráðinu, og eru þar í fyrsta lagi utanfarir nokkurra fulltrúa á ýmiskonar mót. Hv. þm. verða sjálfir að gera sér grein fyrir því, hvort þetta skiptir máli fyrir afkomu ríkissjóðs og hverja þýðingu þessar utanfarir geta haft. Ef niðurskurður á slíku á að ganga yfir alla línuna, þá fer ekki að verða eftirsóknarvert fyrir þá, sem ráða yfir góðum hæfileikum, að vinna opinber störf, — ef þeir eiga að fá í uppbót á launin að vera hálfbrennimerktir. Þó að fyrir Jóni Pálmasyni hafi e. t. v. ekki vakað neitt slíkt með þeim nafnalista, sem hann hefir útbúið í hendur öðrum til áróðurs, veit hann ekki nema það o. fl., sem hann hefir birt, verði misnotað. Það á að vera regla að finna að greiðslum, en ekki mönnum, — ganga ekki inn á persónulega sviðið. Það er hægt að ná sama marki án þess. Þessar utanfarir hafa nú tíðkazt lengi, og menn hafa verið styrktir til þess að koma fram sem fulltrúar, einkum þar sem menn af öllum Norðurlöndum hafa komið saman. Ég held, að yfirleitt hafi heldur þótt verða gagn að því og sómi að þátttöku í slíkum mótum. En fæstir, sem farið hafa, eru það vel fjáðir, að þeir gætu það styrklaust.

Óvissar greiðslur, sem Jón Pálmason gerir aths. við, held ég, að hann hafi séð, að voru yfirleitt óhjákvæmilegar, og orðið þar sammála okkur SÁÓ. Þar sem vafi kynni að leika á, eru það greiðslur, sem ekki geta á nokkurn hátt skipt verulegu máli.

En í sambandi við þennan máta á þessum aths., sem ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um, vil ég geta þess, að þegar gengið er inn á þetta persónulega svið, sem ég býst við. að hafi verið af óvilja hjá hv. þm. A.-Húnv., þá kemur margt til greina, og verður það þá álitamál, hverju eigi að sleppa og hvað eigi að taka. Ég hygg, að menn myndu þá komast út í hreina ófæru, ef ætti að fara að greina það, hvaða greiðslur menn fá fyrir öll mál. Það myndi verða sæmilegt registur, ef út í það væri farið.

Það hefir frá fyrstu tíð verið þannig, að ríkið hefir orðið að kveðja til ýmissa starfa ýmsa menn umfram það, sem launalögin tilskilja, og þegar farið er að birta einhver nöfn af handahófi, þá býður það því heim, að heil syrpa komi á eftir.

Ég tala nú ekki um að prenta fskj. með ríkisreikningnum, sem engin ástæða virðist vera til að prenta, önnur en sú, að þar er öðruvísi orðað bréf til hins opinbera en venja er til. Sama má segja um nokkur önnur skjöl, sem drepið hefir verið á, því það er alveg óhugsandi, ef tekin yrði upp sú regla að birta öll nöfn og fskj., annað en þetta yrðu mörg bindi, ef allt væri dregið fram. Ég hygg þá, þó að þingið vildi gjarnan fylgjast sem bezt með, að þá þætti nóg á borð borið, og menn myndu telja sig hafa lítinn tíma til þess að kynna sér það allt og setja sig inn í það.

Þetta yfirskoðunarstarf hlýtur að verða á þann veg, að dregin séu fram þau atriði, sem tálin eru mest aðfinnsluverð, og er þeim þá sumpart beint til ríkisstj., sem með völdin fer, og sumpart til Alþ., ef eitthvað það fer fram í starfrækslu ríkisins, sem betur mætti fara og stendur í valdi þingsins að ráða bót á.

Ég held, að ég blandi mér svo ekki frekar inn í þessar umr. Ég vildi gjarnan, að það kæmi fram, hver venjan hefir verið, eftir því sem ég þekki til og eftir því, sem mér hefir virzt, að yfirskoðun ríkisreikninganna hafi verið frá fyrstu tíð. Þeirri reglu finnst mér að eigi að fylgja, þangað til önnur fyrirmæli eru gefin af hálfu Alþ. um það verk.

Mér dettur ekki í hug að veitast á nokkurn hátt að hv. þm. A.-Húnv., sem ég veit, að hefir viljað rækja sitt starf vel og talið, að með þess um máta væri hægt að upplýsa ýms atriði. Ég er heldur alls ekki að lasta það, sem fram hefir komið. En ég vil aðeins endurtaka það, að ef það á að gerast á þennan hátt, sem þarna er ofurlitið byrjað á, þá býður það heim miklu meira í þessu efni. Ég held, að það sé hægt að ná því, sem vakir fyrir hv. þm. A.-Húnv., en það er full aðgæzla á meðferð á opinberu fé, án þess að fara þessa leið. Engum dettur í hug, að dregin sé fjöður yfir það, ef sérstök dæmi finnast um óhæfilegan fjáraustur. En hinu almenna viðhorfi, þegar um ekkert slíkt er að ræða, hygg ég, að megi ná og sé auðvelt að ná með þeirri venju, sem tíðkazt hefir um endurskoðunarstarfið, heldur en að farið yrði langt á þeirri braut að taka eitthvað meira eða minna persónulegt.