08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason); Herra forseti! Það hafa að vonum orðið nokkrar umr. um þetta mál, fyrst hv. þm. A.-Húnv. gat ekki haft þolinmæði til að bíða með að ræða um þær till. til þál., sem fyrir liggja frá báðum hlutum fjhn.

Um það, sem fram hefir komið nýtt í umr. nú, er í raun og veru fátt eitt að segja. Ég get þó ekki varizt þess að benda á örfá atriði, sem fram hafa komið í umr., sem sýna það glögglega, hversu réttmætar aðfinnslur þær, sem ég kom með hér í gær, eru og sem virðast hafa valdið óróleika í liðinu á aðra hliðina og vakið sektarkennd, einnig þessa hv. þm., sem síðast talaði, og það jafnvel svo, að enda þótt hann telji sig lausan við allan hroka, hvað þá heldur að hann sé gikkur, þá tapar hann sér nú svo hér á fundi, að hann viðhefir orðbragð, sem forseti verður að vita. Mér þykir það ekki nema eðlilegt, að orð mín hafi komið við hv. þm. Það er ekki nema eðlilegt, að menn kveinki sér, þegar menn hafa hlaupið jafnátakanlega á sig og þessi hv. þm. hefir gert. Og mér þykir vænt um þetta. Til þess voru mín orð sögð, að þau skyldu vekja tilfinningu hv. þm. fyrir því, hvað sé sæmilegt og réttmætt í þessu efni. Þess vegna er ég mjög ánægður yfir því hvað snertir hv. 6. þm. Reykv., og þó sérstaklega hv. þm. A.-Húnv., að samvizka þeirra skuli hafa vaknað. og skal ég nú koma að þessu nokkru nánar. Hv. 6. þm. Reykv. talaði um þá miklu heiftúð, sem kæmi fram hjá okkur meiri hl. fjhn., að mér skildist í því, að við skyldum koma fram með sérstaka till. til þál. vegna ríkisreikningsins. Við höfum nú ekki gert annað eða meira en við höfum borið fram till. til þál., sem er byggð á aths. hv. þm. A.-Húnv. við ríkisreikninginn. Hv. þm. A.-Húnv. hefir sjálfur látið prenta þessar aths. með ríkisreikningnum. En svo mikið svíður hv. 6. þm. Reykv. undan því, að við skulum stilla þessum aths. upp í okkar till., að hann telur það hreina og beina ósvífni. Hv. 6. þm. Reykv. sagðist vilja kveða það niður, að verið væri að ráðast að yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna, þessum trúnaðarmönnum þingsins, hér á Alþ. Hann segir, að það eigi ekki að eiga sér stað, að það sé fundið að þeirra vinnubrögðum. Ég hefi nú aldrei haldið, að Alþ. ætlaði að gera þetta að heilögum mönnum, sem ekki mætti ræða við. Og ef það er í þingsköpum Alþ., að ekki megi hreyfa við þessum mönnum, hvernig sem þeir haga sér, þá verð ég að biðja hv. d. afsökunar á því, að ég skuli ekki hafa vitað þetta og að ég skuli hafa leyft mér að hreyfa við svo háttsettum persónum. Standi það hinsvegar ekki þar og sé gengið út frá því, að í þetta starf geti komið misjafn sauður, eins og annarstaðar, þá þarf ég ekki að biðja afsökunar á því, heldur segja, að yfirskoðunarmennirnir muni því aðeins vinna sitt verk með sanngirni, að þeir hafi aðhald frá þeim, sem fela þeim þetta trúnaðarstarf. Og þegar þeir báðir, hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. A.-Húnv., tala um það, að einn yfirskoðunarmaðurinn, Jón Pálmason, hafi aðra aðstöðu til endurskoðunarinnar, kemur það þá ekki játað fram, sem ég hefi haldið fram, að litið hafi verið á þetta af hans hálfu eftir pólitískri afstöðu? Hvernig er hægt að fá skýrari játningu á þessu? Það hefir kostað nokkur fúkyrði að fá þessa játningu fram, en það er ekki annað en tíðkast hjá sakborningum þegar þeir komast í hann krappan.

Ég skal rétt skjóta því hér inn í viðvíkjandi því, sem hv. 4. landsk. sagði, að æskilegt væri að fá sem flest nöfn fram í þessu sambandi. Mér finnst það mjög skiljanlegt, að þessi hv. þm. og hans flokkur vilji fá sem flest nöfn fram í þessu sambandi. Það væri auðvitað mjög æskilegt fyrir þann flokk að geta beint athygli manna sem allra mest að nokkrum hundruðum króna, sem borgaðar hafi verið fyrir eitt eða unnað, til að fá fólk til að gleyma því, sem komið hefir á daginn um þennan flokk undanfarna daga. Þessi hv. þm. og hans félagar taka ekki við nokkrum hundruðum króna, heldur láta greiða sér frá árásarríki og einvaldsríki á annað hundrað þúsund krónur fyrir skeytasendingar um það, sem þeir væntanlega ætla að taka að sér að koma í framkvæmd hjá okkur. Það er því ekki nema eðlilegt, að þessir menn óski eftir að fá einhverja ákveðna upphæð til að fá fólkið til að hugsa um, svo það geti gleymt þessum syndum. Og ef til vill gæti hv. þm. fengið hv. þm. A.-Húnv. til að hjálpa sér við þetta, því hann hugsar meira um það, hvernig hægt muni vera með nokkrum krónum að vekja tortryggni og úlfúð meðal manna, heldur en það, hvernig hægt myndi að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar fjárhagslega.

Hv. þm. A.-Húnv. hrósar sér af því, að hann muni vera harðari í till. sínum um fjármál heldur en flestir aðrir hv. þm. Þetta er víst enginn gorgeir eða þess háttar. Þetta er náttúrlega heilagleikinn sjálfur hjá þessum ágætismanni, sem telur sig geta leiðbeint í fjármálum þjóðarinnar, sem telur sig eiga fjvn. aðalnefnd þingsins. Hann er náttúrlega ekki að upphefja sjálfan sig með þessu, heldur er þetta auðvitað til að sýna lítillæti sitt í þessu starfi fyrir fósturlandið. Ég býst við, að það eigi að skilja þetta á þann veg. En ég verð að segja, að ég hefi nú ekki séð nein afrek, hvorki till. né annað frá þessum hv. þm. Og ef um einhver fjárframlög hefir verið að ræða, sem hafa snert þennan hv. þm. persónulega eða hans nánustu, þá hefi ég ekki orðið var við neina sérstaka sparsemdartilhneigingu hjá honum. Það er ákaflega gott út af fyrir sig að reyna að gera sig að dýrlingi fyrir fósturland sitt, til að reyna að bjarga ættjörðinni á meðan það snertir ekki þennan hv. þm. sjálfan.

Þá talaði hv. þm. um það, að ég hefði deilt á hann fyrir að taka borgun fyrir aukastörf, sem unnin hefðu verið í fullkomnu heimildarleysi. Það var þetta síðara, sem ég deildi á. Það er svo fjarri mér að deila á menn fyrir að taka borgun fyrir aukastörf. Það er sjálfsagður hlutur, að mínu áliti, að menn vinni ekki aukastörf fyrir ekki neitt. Og mér finnst ekkert óeðlilegt, að hv. þm. A.-Húnv. fái greitt fyrir aukastörf eins og aðrir, en að hann eigi að vera sá eini, sem fái greitt fyrir sín aukastörf, það er ekki mín skoðun. Ég álít, að það séu margir menn, sem vinna miklu nytsamari störf í aukavinnu en hv. þm., sem líka eigi að fá greiðslu fyrir það. En það, sem hv. þm. A.-Húnv. hefir sagt um greiðslur til sín og þá skrifstofu, sem hann hefir staðið fyrir og fengið greiddar til 4000 kr., bendir ekki á neitt sérstaklega vandaða meðferð á sannleikanum. Ég leyfi mér að halda því fram, að peningar til þessarar skrifstofu hans hafi verið greiddir í fullkomnu heimildarleysi. Svo að dæmi sé tekið um starfshæfni þessa hv. þm., þá má geta þess, að nákvæmnin í starfi hans fyrir þessa skrifstofu er nú ekki meiri en svo, að þegar tekin var til reynslu ein stétt manna, skrifstofustjórar stjórnarráðsins, og gerður samanburður á launum þeirra, samkvæmt upplýsingum skrifstofu Jóns Pálmasonar, þá kom það í ljós, að réttar upplýsingar lágu fyrir aðeins um laun eins skrifstofustjórans, en það var um leið sá af þeim, sem ætla má, að sé mestur andstæðingur hv. þm. í stjórnmálum. Hjá hinum 3 var fellt svo samvizkusamlega undan af þeirra kaupi, að það munaði hátt á 9. þúsund kr. Hvað er svo Alþingi nær, þótt það fái slíkar skýrslur? Og hver halda menn að tilgangurinn sé með svona vinnubrögðum? Annað eins og þetta er engin tilviljun. Það er auðsætt, að þetta starf er unnið með sama hugarfari og endurskoðun ríkisreikningsins, því, að reyna að ná í sem mest af því, sem til hnekkis má verða pólitískum andstæðingum, en breiða yfir hjá þeim, sem sýna sama pólitíska lit og hv. þm. A.-Húnv. Ég held það væri bezt fyrir Alþingi að losna sem allra fyrst við slíka starfsmenn.

Hv. þm. talaði um, að það hefði verið rangt hjá mér, sem ég sagði í gær, að skattanefndirnar hefðu farið meira fram úr áætlun fjárlaga en ríkisskattanefndin, sem hann hefði . tekið upp aths. um. Í þessu sambandi benti hv. þm. á, að skattanefndaliðurinn væri aðeins áætlun, en það væri hinn ekki. Ég er sannast bezt að segja alveg hissa á að heyra annað eins og þetta koma frá fjvnm. Veit ekki þessi hv. þm., sem þykist eiga fjvn., að allar fjárlagaupphæðirnar til opinberrar starfsemi eru aðeins áætlanir?

Viðvíkjandi því, sem ég sagði um vegamálastjórann, þá svaraði hv. þm. A.-Húnv. því, að það stafaði allt af því, hversu mikið hefði bætzt á þennan embættismann. Þetta er vitanlega svo með alla hina. Þetta eru flest vaxandi störf, eins og t. d. pósturinn og síminn. Og ég er sannfærður um það, að ef hv. þm. A.-Húnv. hefði rekizt á það hjá andstæðingi sínum, að hann hefði greitt utanfararkostnað til manns, sem aldrei sigldi, þá hefði það orðið meiri en lítil hneykslunarhella hjá hv. þm.

Það mætti náttúrlega enn taka margt til athugunar, en ég tel óþarft að eyða tíma í það. Málið liggur orðið svo ljóst fyrir. Og ég hygg, að eftir það, sem fram hefir komið í þessu máli, þá muni það hér eftir óstætt fyrir nokkum endurskoðanda ríkisreikninganna að beita þvílíkum aðferðum, sem hér hefir átt sér stað í þetta skipti.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði — og það þykir mér einna merkilegast af yfirlýsingum hans í þessu máli —, að ef athugasemdum sínum hefði aðeins verið svarað hógværlega, þá hefði ekkert orðið úr þessu og enginn hefði tekið eftir því. Þess vegna vildi hann þakka mér fyrir að vera að vekja athygli á athugasemdunum. Ég þakka honum fyrir það traust, sem hann hefir á mér. Hann heldur auðsjáanlega, að ef hann hefði verið einn um að vekja athygli á þessu, þá hefði enginn tekið eftir því. Mér skilst líka, að það hafi verið meining hans, að hann hefði mátt í friði leika sér að því að baknaga náungann, en meiningin hefði ekki verið að gera neitt veður út af þessu. Enda verð ég að segja, að ég held, að fyrir þennan hv. þm. hefði það sjálfsagt verið bezt, að þetta hefði fallið í gleymsku sem fljótast, sá þáttur, sem hann hefir átt í þessu máli.

Ég vil svo aðeins minnast á eitt atriði enn í ræðu hv. þm. A.-Húnv. Hann sagði, að fiskimálanefnd ætti engan tilverurétt, og mér skildist helzt, að hann vildi fela S. Í. F. hennar starfsemi. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm. að því, hvort honum hefði fundizt rétt að láta Samband ísl. samvinnufélaga hafa með höndum úthlutun á öllum styrkjum til handa landbúnaðinum. Um þetta þætti mér vænt um að fá svar. — Hv. þm. svarar ekki spurningu minni, og mér finnst það ósköp skiljanlegt, að hann vilji ekki svara, en þetta er alveg hliðstætt dæmi við það, sem hann leggur til um fiskimálanefnd. En ég skil ekki, hvers vegna hv. þm. er svo illa við fiskimálanefnd, sem alltaf er að vinna sér meiri og meiri viðurkenningu og flytur nú út vörur, sem áður voru óseljanlegar, fyrir upp undir 4 millj. kr. og gerir sennilega meira en að standast kostnað við starfsemi sína í ár. Störf þessarar nefndar hafa farið vaxandi ár frá ári, og hún hefir einkanlega mikið hlutverk að vinna, þegar um jafnmikla markaðserfiðleika er að ræða eins og við eigum nú við að etja. Ég fyrir mitt leyti tel, að þessi nefnd hafi unnið mikið nytjastarf, og ef hún fær að starfa áfram, þá mun fátt líklegra til að ýta undir sjávarútveginn. Og ég fyrir mitt leyti vil hvetja hv. þm. A.-Húnv. til að spyrjast fyrir um það hjá frystihúsunum, hvort þau óski eftir því, að þetta sé tekið aftur úr höndum fiskimálan. og fengið S. Í. F. Ég held einmitt, að þau óski, með tilliti til þeirrar reynslu, er fengizt hefir, að n. hafi þetta áfram í höndum.

Ég skal svo að sinni láta staðar numið. Ég tel, að ýmislegt hafi komið fram í þessu máli, sem sannað hafi það, sem ég hefi haldið fram um endurskoðun ríkisreikninganna. Og þótt mörg dæmi mætti enn nefna, og þó að ég gæti lesið upp lista til frekari sönnunar máli mínu um misskilning hv. þm., tel ég ekki þörf á að tilfæra fleira, enda hefir hann séð þann kost vænstan að játa margt af því, sem fram hefir verið borið af andmælendum hans.