08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Ísleifur Högnason:

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að málið lægi ljóst fyrir, og vissulega liggur það ljóst fyrir. Hann var að tala um, að hann hefði lista í fórum sínum, og okkur langar mjög til að fá þann lista fram. Hví reiðir hv. þm. sverðið svo hátt, en slíðrar það jafnóðum? Ætli það sé ekki vegna stjórnarsamvinnunnar, sem hefir þann tilgang að þagga niður allar umr. um ávirðingarnar og skapa þögn um rekstur ríkisbúsins. Ég tók eftir, að á hv. síðasta ræðumanni var að heyra, að betra væri, að öll endurskoðun félli niður og ekki kæmu fram tilraunir til gagnrýni. Allar raddir, sem fram koma og heimta gagnrýni á ríkisreikningunum, á að þagga niður.

Hv. 1. þm. Rang. sagðist skilja mína afstöðu, er ég sagðist óska þess, að þjóðin fengi að vita hið sanna í þessum málum. En ég óskaði þess, að hv. þm. A.-Húnv. krefðist útvarpsumr. um málið. Hann sagði, að það væri eðlilegt, að ég vildi fá þetta mál rætt opinberlega, því að ég vildi draga athygli frá því, að Þjóðviljinn hefði fengið skeyti frá Moskva. Ég er alveg hissa. Ég er vanur því, þegar ég fæ skeyti, að ég borgi fyrir þau sjálfur, en ég veit ekki, hvernig þessu er háttað með hv. þm. En viðvíkjandi þessum skeytum er annars það að segja, að síðan Sovjetríkin voru stofnuð hefir hér á landi aldrei verið flutt annað af flestum blöðunum og útvarpinu en níðfréttir gegn þeim. Hér um daginn skýrði fréttaþulur útvarpsins frá því, að þeir fengju þær fréttir frá flestum höfuðborgum heims, New York, París, London, Stokkhólmi o. s. frv., en frá einu ríki aðeins vilja þeir engar fréttir hafa, frá Sovjetríkjunum, því að þjóðstj. er nauðsynlegt að hafa öll blöð og útvarpið í gangi til að ljúga óhróðri á þau. (Forseti hringir). Þetta er sannleikur, þótt hann sé beiskur. Hv. 1. þm. Rang. var áðan að segja, að Sovjetríkin væru árásarríki. (SvbH: Á því er víst enginn vafi). Nei, á því er enginn vafi eftir þeim fregnum, sem útvarpið og blöðin eru látin flytja. (Forseti: Þetta mál er ekki til umr. Ég vil biðja hv. ræðumann að halda sér við efnið, en fara ekki út í utanríkispólitík).

Hæstv. forseti hefði átt að biðja síðasta ræðumann um það. Það er óhæfa af hæstv. forseta, ef hann ætlar að neita mér um að svara, þegar á mig er ráðizt. — Það er engin ný bóla, að menn séu hér sakaðir um landráð. Í fyrra, þegar Þýzkaland var að leggja undir sig Tjekkóslóvakíu, voru það lýst landráð að fordæma árásarríkið Þýzkaland. Annars er það kunnugt, að flestir þeir, sem taka einhvern þátt í stjórnmálum, eru ósjaldan sakaðir um landráð. Flestir ráðh. hér, ef til vill að undanteknum Stefáni Jóh. Stefánssyni, hafa verið úthrópaðir sem landráðamenn. — Síðar í umr. mun mér gefast tækifæri til að skýra þá staðhæfingu mína, að Sovjetríkin séu ekki árásarríki, og allur fréttaburður, sem um það hefir verið útbásúnaður, sé rangur, og það vísvitandi rangur. Læt ég svo útrætt um það mál að sinni.