08.12.1939
Neðri deild: 78. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Hv. þm. A.-Húnv. lætur sér ekki bregða við að segja það ósatt, sem hann hefir sjálfur sagt fyrir stuttu, eða bera á móti því, sem stendur skrifað, undirritað af honum sjálfum. Hann segir það ósatt, að starfandi hafi verið skrifstofa sú, sem hér hefir verið minnzt á. Ég skal nú lesa upp klausu úr Morgunblaðinu 28. nóv. 1939. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Um þessa 5 manna skrifstofu, sem ég á að hafa stofnað fyrir hönd fjvn., er það að segja, að allt, sem hann tilgreinir um það efni, er þvættingur og ósannindi .

Nú erum við hv. þm. N.-Ísf. búnir að upplýsa, að borgaðar hafa verið 4000 krónur til þessarar skrifstofu. Er hægt að standa berstrípaðri gagnvart sínum eigin yfirlýsingum en hv. þm. A.Húnv. gerir?

Í öðru lagi segir hann það ósatt hjá mér, að flausturslega hafi verið teknar upp launagreiðslur í stjórnarráðinu. Ég vitna til hv. fjvn., hvort ekki hafi komið fram á fundi einu sinni staðfesting á því, sem ég hefi sagt um þetta, en hv. þm. kallar haugalygi. Hlutaðeigandi skrifstofustjórar í stjórnarráðinu gáfu þetta sjálfir upp í síma greiðlega og hiklaust, en þegar þetta kemur fram, verður hv. þm. A.-Húnv. svo mikið um, að hann labbar af fundi, sem von er, því að það er ekki sitjandi undir slíku. Ég hefi því ekki minnsta traust til skýrslna, sem svona maður hefir farið með. Og þegar hann auk þess klígjar ekki við að segja önnur atriði lygi, sem birt eru á prenti með hans eigin nafni undir, þá verð ég að álíta slíkt svo ósæmilega framkomu í sölum Alþingis, að ekki sé talandi við slíkan mann lengur. Hann ætti að fá ekki ósvipaðan dóm þeim, sem fyrir fáum dögum var kveðinn upp af þingheimi yfir nokkrum þm., sem gerzt höfðu brotlegir um að misbjóða virðingu Alþingis. væri skynsamlegt að taka nú einn þeirra fjórmenninganna inn aftur, en láta þennan hv. þm. í skúmaskotið í staðinn.