13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

120. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Eins og ég gat um við 2. umr. málsins, átti fjhn. von á því að fá umsögn um þetta frv. frá stjórn stríðstryggingafélags íslenzkra skipshafna og einnig nokkrar brtt. Þær brtt. hafa nú verið bornar fram á þskj. 413, og hefir n. tekið þær til athugunar og samþ. að mæla með því við d., að þær yrðu samþ. Fjhn. hefir engar aðrar till. fram að færa en þær, sem eru á þskj. 413. Um einstakar brtt. er þetta helzt að segja. Viðvíkjandi 2. gr. er það fram tekið, að það áhættufé, sem fram hefir verið lagt, er svo lítið, að það vantar nokkuð á, að félagið geti á eigin áhættu tekið allar tryggingar flutningaskipa. Hinsvegar verður það að teljast bezt, að sem minnst þurfi að endurtryggja hjá erlendum félögum. Það er einnig hagur skipaeigenda, þar sem þeir hafa lagt fram 10% af áhættufénu, að sem minnst þurfi að endurtryggja. Er því lagt til, að þeim sé gefinn kostur á að hækka áhættuframlög sín síðar. Ef skip, sem ekki var tryggingarskylt þegar félagið var stofnað, verður það síðar, þykir rétt að gefa eigendum þess kost á að leggja fram áhættufé á svipaðan hátt og þeim, sem voru tryggingarskyldir, þegar félagið var stofnað. Þá hefir ennfremur verið talið rétt að setja ákvæði um það, að endurgreiða megi skipaeigendum áhættufé, sem þeir hafa lagt fram, ef skip ferst, en mannbjörg verður, eða ef skip er selt út úr landinu. Þó sé þetta því aðeins gert, að fjárbag félagsins verði ekki af þeim ástæðum stofnað í hættu.

Þá er brtt. við 4. gr. Í frv. er gert ráð fyrir, að áhættuféð ætti fyrst og fremst að miðast við þá tryggingarupphæð, sem skipið væri tryggt fyrir. Frv. gerir þannig ráð fyrir, að áhættuféð verði fastákveðið. Stríðsslysahættan getur hinsvegar breytzt verulega, bæði minnkað og aukizt. Hefir því þótt rétt, að þetta yrði ákveðið í reglugerð.

Brtt. við 5. gr. þarfnast ekki skýringar.

Þá er brtt. við 6. gr., um iðgjöldin. Ákvæði 6. gr. um, að iðgjöld megi ekki vera yfir 50%, er fellt burt. Það virðist óhjákvæmilegt að gefa stjórn tryggingafélagsins nokkuð frjálsar hendur um ákvörðun iðgjalda, einmitt af sömu ástæðu, sem ég nefndi áðan, að stríðsáhættan getur verið svo breytileg. Tryggjendur krefjast hinsvegar ódýrra trygginga. Bezta fyrirkomulagið virðist því það, eins og bent er á í till., að ákveða iðgjöldin nokkuð há, svo hægt sé að gera ráð fyrir nokkrum hagnaði af rekstri félagsins, en hinsvegar verður að tryggja, að sá hluti hagnaðarins, sem umfram verður rekstrarkostnaðinn, renni að verulegu leyti til útgerðarinnar aftur. Að þessu miða brtt. við 6. gr. og sömuleiðis brtt. við 8. gr.

Ég hygg, að það sé ekki fleira, sem fram þarf að taka, en vil vænta þess, að d. geti samþ. þessar brtt.