27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

120. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

Bergur Jónsson:

Ég skal ekki blanda mér inn í, hvernig hæstv. forseti vill snúast við því, ef álitið verður, að ekki hafi verið fengin réttilega afbrigði á fundinum á Þorláksmessu. En ég vil benda á annað atriði. Þáverandi forseti, 1. varaforseti þessarar d., lýsti yfir, að eitt mál, sem var þá til 3. umr., frv. til l. um stríðstryggingafélag íslenzkra skipshafna, væri samþ. sem l. með 16 shlj. atkv. Það er mjög alvarlegt atriði, ef álíta verður, að eigi hafi verið næg þátttaka í þeirri atkvgr., því málið hefir þá eigi hlotið fullnaðarsamþykkt við 3. umr., því að vel má hugsa sér, að hæstv. stj. sjái sér ekki fært að mæla með því við konung, að hann staðfesti frv. sem l., og verði þá að grípa til bráðabirgðalaga eða eiga það á hættu, að einhverjir, sem eiga að greiða eitthvað samkv. þessum ákvæðum, leggi það fyrir dómstólana, hvort þetta séu gildandi l. Ég fyrir mitt leyti tel rétt að fylgja þeim skilningi, sem alltaf, að því er ég veit bezt, hefir komið fram við stjórn hæstv. aðalforseta d., samkv. 44. gr. þingskapa og 48. gr. stjórnarskrárinnar, að óhjákvæmilega verði að krefjast eftir orðum þessara ákvæða, að meira en helmingur þeirra þm., sem eiga að skipa d., taki þátt í atkvgr. Þetta er í fullkomnu samræmi við þá venju, sem fylgt hefir verið í d. síðan 1935, að óhjákvæmilegt væri, til þess að d. væri ályktunarfær, að 17 þm. tækju þátt í atkvgr. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta, að ef ekki er hægt að fá tryggilega um það búið í framtíðinni, að fylgt sé fastri venju um þetta atriði, þá kveði hann upp úrskurð um þetta, því að óvissa um annað eins atriði og þétta, hvenær þd. er ályktunarfær, má alls ekki eiga sér stað í þinginu, því að það er eitt höfuðatriðið viðvíkjandi því, hvernig á að afgr. mál.

Ég vil geta þess, út af því, sem fram kom í ræðu hv. þm. V.-Sk., að þar sem hann vildi telja þá menn, sem hafa tilkynnt forföll, sem forseti telur lögmæt, algerlega utan d., þannig, að ekki þurfi meiri hl. allra þdm., þá væri það regla, sem ekki væri hægt að stöðva sig á. Ef við hugsuðum okkur, að 28 þdm. væru fjarverandi, en 5 viðstaddir, þá gæti meiri hl. þeirra, eða 3 þdm., gert löglega ályktun í d., en ég býst við, að flestir hljóti að sjá, að slíkt er fjarstæða ein.