29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

120. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

*Forseti (JörB) :

Ég vil vona, eftir þeim umr., sem hafa orðið um þessi atriði, að hv. þdm. geti látið sér lynda þá afgreiðslu á þeim, sem þau hafa nú þegar fengið og munu fá hér í þinginu, og að það gerist ekki ástæða til þess að fjölyrða öllu frekar um það heldur en orðið er. Sú atkvgr., sem fram fór um þessi mál og hv. 5. þm. Reykv. hefir minnzt á hér, var aðeins um afbrigði. Og þó að menn kynnu að hafa skiptar skoðanir um atkvgr. um þessi afbrigði hvað atkvæðatölu snertir, þá er það mál allt annars eðlis heldur en atkvgr. sú, sem hér var endurtekin nú, þar sem þetta er á byrjunarstigi mála við 1. umr., og ekki hefir alltaf verið fylgt strangasta formi í því efni, að leita afbrigða fyrir flutningi mála. Þarna skakkar ekki svo verulegu máli frá því, sem stundum hefir orðið að eiga sér stað, að mér þess vegna sýnist ástæða til að gera það að umtalsefni hér, þar sem þessi atkvgr. um afbrigði er framkvæmd á byrjunarstigi málanna. Afbrigði í þessu efni voru um að stytta þann frest, sem á eftir þingsköpum að liða frá því máli er útbýtt og þangað til það er rætt. Og þessi frestur er ákveðinn í þingsköpum með það fyrir augum, að þm. gefist kostur á að kynna sér málin áður en þau koma til meðferðar þingsins. En þrásinnis hafa verið veittar heimildir til þess að stytta þennan frest. Og í þetta sinn, sem hér er um að ræða, var það svo, að þau atkv., sem fram komu, voru öll, eða svo að kalla öll, með afbrigðunum. Og við meðferð þessara mála hefir komið í ljós, að mikill meiri hluti þingsins hefir verið þessum málum fylgjandi. Og þó að hv. þm. liti svo á, að fleiri atkv. hefðu verið æskileg með afbrigðum þessum, þá vona ég, að þeir fallist á, að hér sé ekki um svo stórvægilegt atriði að ræða, að það þurfi að fjölyrða um það frekar.