28.11.1939
Efri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

Bernharð Stefánsson:

Eins og nál. á þskj. 332 ber með sér, þá hefi ég skrifað undir það með fyrirvara. Hann gildir þó ekki málið í heild, því að ég vil mæla með því, að það verði samþ. Ég hefi fallizt á brtt. í nál. og sömuleiðis hefi ég greitt þeirri brtt. atkv. mitt, sem er aðalatriðið í þessu máli, en það er hækkun ábyrgðarheimildarinnar úr 8,5 millj. ísl. kr. upp í allt að 9 millj. danskra kr. Það, sem fyrir mér vakir með brtt. minni á þskj. 345, er, að ákvæði fyrri laga um svipuð efni haldist, að ábyrgðarheimild ríkisins fari ekki fram úr 90% af stofnkostnaði fyrirtækisins.

Það hefir verið venja undanfarið um mörg fyrirtæki, sem fengið hafa ríkisábyrgð, að samskonar ákvæði hafa verið sett og ríkisábyrgðin ekki látin ná yfir allan stofnkostnað fyrirtækisins. Svo var um rafveitu Akureyrarbæjar og svo hefir verið um ýms önnur fyrirtæki, er hlotið hafa ríkisábyrgð. Það er einkum samræmisins vegna, að ég hefi borið fram þessa brtt., en ekki til þess að setja fót fyrir þetta verk. Ég hygg, að bæjarfélaginu muni ekki vera það ofvaxið að leggja fram 10% af stofnkostnaðinum. Undirbúningur allur að fyrirtækinu telst til stofnkostnaðar, og þann kostnað leggur bæjarfélagið fram án þess að taka af láninu. Það myndi því að engu skaða fyrirtækið, þótt till. mín væri samþ. Að öllu athuguðu þykir mér þess vegna réttast, að bæjarfélagið leggi fram 10% stofnkostnaðarins, eins og áður hefir verið venja, er svipað var ástatt.