27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að ég og hv. 1. þm. Rang. hefðum áskilið okkur rétt til að bera fram brtt. um, að ábyrgð ríkissjóðs yrði takmörkuð við 90% af kostnaðarverði. Hæstv. fjmrh. gaf þá þær upplýsingar, að það mundi verða lögð fram allmikil upphæð, þar sem ábyrgð ríkisins kæmi ekki til, þó að það væri ekki tekið fram í l. Nú höfum við hv. 1. þm. Rang., sem skrifuðum undir nál. fjhn. með fyrirvara, átt tal um þetta við hæstv. fjmrh., og hefir hann skýrt þetta nokkru nánar fyrir okkur og sagt okkur frá því, að stór upphæð yrði lögð fram, nokkuð á aðra millj. kr., án þess að ábyrgð ríkissjóðs kæmi þar til. Hinsvegar hefir hæstv. ráðh. getið þess, að það mundi ef til vill valda óþægindum við lántökur erlendis, ef þessi takmörkun yrði sett inn í frv. Því hefir verið óskað eftir, að ábyrgðarheimildin yrði ekki takmörkuð, og jafnvel, að ekki yrði tiltekin ákveðin fjárhæð.

Af því að við viljum ekki tefja málið, höfum við fallið frá að koma með þessa brtt. En það vil ég taka skýrt fram fyrir hönd okkar, og ég held, að óhætt sé að segja fyrir hönd alls Framsfl., að þetta þýðir ekki neina stefnubreyt. hjá okkur frá að líta svo á, að það eigi að vera algild regla við ábyrgð fyrir slík fyrirtæki, að jafnan sé einhver hluti upphæðarinnar, sem ábyrgð ríkissjóðs nær ekki til. En við teljum, að í þessu tilfelli liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um, að svo verði gert, þó að það sé ekki tekið fram í l.

Þetta er það, sem ég vildi taka fram hér. Þetta er ástæðan fyrir, að við höfum ekki borið fram brtt., en alls ekki hitt, að við höfum skipt um skoðun um, hvaða regla eigi almennt að gilda í þessu efni.