27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég vil aðeins með nokkrum orðum árétta það, sem hæstv. félmrh. sagði um þessa till. Það vill svo til, að við tveir höfum nokkuð komið að þeim samningum, sem hér er um að ræða, ásamt dönsku lánveitendunum og þar með danska verzlunarmálaráðuneytinu. Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þm. á því, að þessi l. eru beinlínis einn þáttur í þessum samningum, þ. e. a. s. um lánið og ábyrgðina af hálfu danska ríkisins, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir láninu samkv. l., sem þar um gilda í Danmörku. Það var beinlínis samið um það, hvað í þessum l. skyldi standa. Hér er ekki um það að ræða, að dönsk stjórnarvöld séu að hafa áhrif á íslenzka löggjöf, heldur er þannig við þetta fyrirtæki samið, að ég býst við, að það væru talin samningsrof, ef eftir á yrði bundinn baggi þessu fyrirtæki, sem ekki var gert ráð fyrir áður. Og þó að það sé að vísu rétt, að þetta fyrirtæki sé talið mjög gott og líklegt til að gefa góðan arð, þá er þess að gæta, að því er ætlað fyrst og fremst að borga sig upp á 8 árum, og fyrirtækið getur vissulega verið mjög glæsilegt, þó þetta reynist fullerfitt, þegar það bætist svo við, að stofnkostnaðurinn hefir sem kunnugt er hækkað um tvær millj. króna. Af því er ljóst, að það er ekki einungis formsins vegna, að lánveitandinn kynni að taka því illa, ef bætt yrði byrðum á fyrirtækið, því það er enginn vafi, að fyrirtækið getur átt allerfitt með að standa í skilum á þessum 8 árum, svo að beinlínis efnislega getur þetta verið athugavert, en eins og ég hefi þegar tekið fram, er þetta að forminu til alveg fráleitt.