27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Það er furðulegur hugsunarháttur og barnaskapur, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Rang. Hér er um að ræða samninga, sem gerðir hafa verið af hálfu bæjarstjórnar og ríkisstjórnar annarsvegar, en erlends firma og lánsstofnana hinsvegar. Það er auðvitað, að bærinn getur sem lántaki hætt við að taka lánið, ef samningar rofna við verktaka og lánveitendur. En verkið er nokkuð langt komið til þess, að Alþingi geti komið nú og gert ómerkt það, sem búið er að semja um. Þessir dönsku aðilar hafa ekkert annað en fyrirtækið og samningana um það að treysta á. (SkG: Þeir hafa nógar tryggingar.) Það er nú svo sem á er litið. Og það var álit allrar stj., ekki aðeins mitt, og allra íslenzkra aðila, að þeim kostum bæri að taka, sem fáanlegir voru, þegar samið var. Ef brtt. er samþ., er grundvelli samninganna raskað nóg til þess, að lánveitendur munu telja þá rofna. Því að hvar yrði staðnæmzt, ef farið yrði að skattleggja ábyrgðarlán sem þessi? Þótt hér sé miðað við ½%, væri næst hægt að miða við 1% eða 2%, — og hvar eru takmörkin? Þannig mætti gera fyrirtæki, sem búin eru að fá lán erlendis, algerlega órekstrarhæf. Þá væri auðvitað girt fyrir það um leið, að nokkurt opinbert fyrirtæki gæti fengið erlent lán, með slíka skattlagningarhættu vofandi yfir sér.