27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér datt ekki í hug, að hv. 1. þm. Rang. ætlaði að fara að rökræða, þegar hann reis nú úr sæti. Það gera þeir menn ekki, sem hafa svo slakan málstað, að þeir treysta sér ekki til þess. Áður en hann talar meira um undirlægjuhátt Alþingis, ætti hann að losa sig við handjárnin, sem stjórnarklíkan í flokki hans lagði á hann og aðra þm. sína og hefir nú afhent íhaldinu lyklavöldin að. — Annars var það táknandi fyrir málstað hans og mátti einmitt búast við því nú, að hann skyldi taka undir ópið: Moskva, Moskva! Það hefir aldrei nokkurn tíma verið talað hér um Moskva í sambandi við annað en þær kröfur og tillögur, sem alþýðan hefir gert til þings og ríkisstj. Það hefir verið nafn á öllum djarflegum og réttmætum kröfum, sem valdhafarnir eða íhaldið hafa óttazt, hvort sem um var að ræða ráðstafanir til atvinnubóta, kauphækkanir og kjarabætur eða almenn mannréttindi. Nú er svo komið, að allir stjórnarflokkarnir eru runnir í eitt í mótstöðu gegn þessum kröfum, og í einingu geta þeir bara hrópað:Moskva, Moskva!

Það ættu margir að muna, að í Mbl. 31. maí 1937 var birt mynd af Hermanni Jónassyni, og undir var sagt: Sko, hver það er, sem þið eigið að kjósa! Ásýnd Hermanns var bara gríma, en bak við enginn annar en Stalin. Kosningabaráttan 1937 var af íhaldsins hálfu fyrst og fremst talin barátta við Moskva. Ef farið er ögn lengra aftur í tímann, var Moskvakrossferðin farin móti Jónasi Jónssyni, sem sakaður var um að vera alveg sérstaklega hættulegur kommúnisti, og íhaldið hérna hefir aldrei fengið neinn skæðari fulltrúa „erlendra valda“. Og í styrjaldarlokin, næstu 4 árin eftir rússnesku byltinguna, var enginn talinn hér harðvítugri bolsévíki en núv. hv. 1. þm. Rang. Ég held það sé bezt fyrir þá, „sem gráta burt á efri árum æsku sinnar frjálsu spor“, að bjarga samt því, sem bjargað verður, af leifum manndóms síns, reyna að slíta af sér handjárnin og sinna kröfum alþýðunnar í landinu eins og þeir eru drengir til.