22.02.1939
Sameinað þing: 3. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

1. mál, fjárlög 1940

Ég býst nú við, að hæstv. fjmrh. vilji ekki telja þarna með gjöldunum rekstrartekjur ríkisstofnananna, þar sem þær séu gróðafyrirtæki, en þetta er fullkomlega réttur samanburður við reikningsuppgerðina 1927. Stærstu stofnanirnar voru þó til:

Síminn, áfengisverzlunin og pósturinn. Að ríkið hefir tekið allt hitt í sínar hendur, hefir auðvitað orsakað það, að þeirri starfsemi er kippt frá verzlunarrekstri einstaklinga og félaga og um leið rýrt að sama skapi gjaldþol þeirra aðila til að borga skatta, tolla og útsvör. Þetta er óhrekjanleg vissa, en liggur að öðru leyti alveg utan við allar deilur um það, hvort heppilegra sé, að ríkið eða einstaklingarnir verzli með þær vörur, sem hafa verið teknar í einkasölu.

Þegar nú er athugað, hvernig hlutfallið hefir breytzt á umræddu tímabili milli ríkisgjalda og þjóðartekna, þá er mismunurinn ægilegur. Þjóðartekjurnar koma á viðskiptasviðinu fram í verði útfluttrar vöru. Að sumu leyti eru það brúttótekjur, en að nokkru leyti ekki, en þó er þar að finna einhvern þýðingarmesta leiðarvísi um þjóðarhag út á við. Árið 1927 var verð útfluttrar vöru alls 63,2 millj. króna, en 1937 59 millj. Árið 1927 tekur ríkið því til sinna þarfa og í sínar hendur 17,5% af verði útfluttrar vöru, en 1937 tekur það 39%, eða nærri 2/5 hluta.

Til viðbótar við þetta má svo geta þess, að útsvörin alls í landinu hafa á sama tímabili hækkað um helming, úr 3,6 millj. króna 1927 í 7,2 millj. 1937. Þetta þýðir, að útsvörin 1927 svara til þess að vera 5,7% af útfluttri vöru, en 1937 eru þau orðin 12,2% af henni. Breytingin er því sú, að 1927 fer í ríkisgjöld og útsvör 23,2% af verði útfl. vara, en 1937 er þetta orðið 51,2% af allri útflutningsvöru. Auk þess hafa bætzt ýms önnur opinber gjöld á yfir þetta tímabil, svo sem tryggingargjöld, félagsgjöld ýmiskonar og eitt og annað fleira.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á það á hverju þingi og leitt rök að, svo ekki er um að villast, að þetta væri hrein fjárhagsleg glötunarleið, enda fyrir löngu auðsætt, að svo er. Atvinnuvegir landsins til sjávar og sveita eru sú eina undirstaða, sem á er að byggja. Framleiðsla nytjavöru úr skauti náttúrunnar er sá eini grundvöllur, sem öll fjárhagsleg velgengni byggist á. Þar hljóta öll gjöldin að lenda fyrr eða síðar, eða að öðrum kosti safnast fyrir sem skuldir við útlönd. Hvorttveggja hefir orðið, og því er það, að allur gjaldaþunginn hefir verkað lamandi og sligandi á alla okkar framleiðslu og jafnframt hafa myndazt gífurlegar skuldir við erlendar þjóðir. Það hefir og stutt á sömu sveif, að öll önnur gjöld við framleiðslu landsins hafa hækkað geysilega á umræddu tímabili. Kaupgjald hefir hækkað, laun hafa hækkað, skólakostnaður, sjúkrakostnaður og yfirleitt allt annað, sem einstaklingarnir þurfa að greiða, hefir hækkað til muna.

Að framleiðslan hefir verið í gangi til þessa, stafar af tvennu. Annarsvegar því, hve landið okkar er í raun og veru gott, fiskimiðin auðug, jarðvegurinn frjór o. s. frv. Hinsvegar af því, að á þessu tímabili hefir engin harðindi borið að höndum eða önnur stór áföll, þar til fjárpestin mikla kom upp. Þótt þorskveiðar hafi verið rýrar síðustu árin, þá hefir síldveiðin orðið þeim mun meiri, enda lítið minnkað heildarverð útfluttrar vöru. Allir menn, sem hafa þekkingu á okkar atvinnulífi, hafa séð, að hverju stefndi, og nú er svo komið, að meginhlutinn af þeim eignum, sem framleiðendur til sveita og við sjó hafa undir höndum, er í skuld. Fjöldi bænda og útvegsmanna hefir verið gerður upp með nauðasamningi, þannig að mikið af skuldum hefir fallið, en ekkert dugir, af því að gjaldaþunginn kemur í veg fyrir arðbæran rekstur.

Stórútgerðin hefir lengst verið rekin án neyðarráðstafana, en hún hefir verið að tapa öllum sínum höfuðstól og liggur nú við stöðvun, ef ekki er breyting á ger. Milliþinganefndin, sem starfað hefir að undanförnu, hefir sannfært sig um það með óyggjandi vissu, að síðustu 5 árin hefir stórútgerðin tapað a. m. k. 5 millj. króna, og er þó allt of lítið reiknað fyrir fyrningu skipanna. Þetta er ekki nema eðlileg afleiðing af því ástandi, sem ríkt hefir í landinu yfirleitt, og hlýtur svo að verða áfram, ef ekki er undinn að því bráður bugur að breyta til í þá átt, að hlutur framleiðslunnar sé ekki lengur alveg fyrir borð borinn.

Í þessu sambandi tala menn síðustu árin um það sem eitthvert aðalatriði, hvernig viðskiptajöfnuður við útlönd er. Um fátt eða ekkert hefir verið talað meira hér á þingi en viðskiptajöfnuðinn, hvernig hann væri, hve miklu þyrfti að muna á verði útfluttra og aðfluttra vara til þess að ná fullum greiðslujöfnuði o. fl. Lengi var því haldið fram af hæstv. fjmrh., að 6 millj. nægðu fyrir hinum duldu greiðslum. En núna fyrir jólin komst hann að þeirri niðurstöðu í blaðagrein, að ómögulegt væri að segja um, hve miklar þær væru. Flestir munu þó telja, að til þessa þurfi eins og nú er komið a. m. k. 12 millj. kr. Það viðurkenndi ráðherrann nú. Annars skal það atriði ekki frekar rætt hér.

Hinu er fremur ástæða til að gera sér grein fyrir, að kenningin um, að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd sé einhver óyggjandi mælikvarði á velgengni þjóðarinnar. á fjármálasviðinu, hún er fölsk. Það hefir reynslan undanfarið sýnt, og er enda augljóst mál. Ég skal í því efni taka nærtækt dæmi úr mínu héraði. Í sveitum a. m. k. er viðskiptajöfnuður ársins greinilegur og kemur fram í viðskiptareikningi bændanna við þá verzlun, sem þeir skipta við. Árið 1937 var óvenjulega góður viðskiptajöfnuður hjá bændum í Austur-Húnavatnssýslu, einkum vestan Blöndu. Reikningarnir t. d. hjá K. H. litu prýðilega út eftir árið. En viti menn. Á síðustu 50 árum hefir þessi sýsla aldrei goldið annað eins afhroð á fjármálasviðinu eins og 1937. Öll lömb vestan Blöndu voru drepin, einnig mjög mikið af veturgömlu fé og ám. Þetta stafaði af því, að mæðiveikin var að brytja niður fjárstofninn, og menn settu því ekki á nema það verðminnsta úr fénu, til að fá þó eitthvað fyrir hitt. Þetta er með öðrum orðum þannig, að jafnhliða því sem verzlunarjöfnuður héraðsbúa er í ágætasta lagi eru atvikin að kippa grunninum undan fjárhag þeirra og framtíðar atvinnurekstri.

Þetta sama hefir verið að gerast hjá þjóðinni allri á undanförnum árum. Verzlunarjöfnuðurinn hefir ekki verið góður að vísu, en þó sæmilegur, en jafnhliða hefir gengið ört á að brytja niður lömbin og ærnar úr búi þjóðfélagsins. Þetta er svo að skilja, að framleiðslan sjálf. undirstaða allrar þjóðfélagsbyggingarinnar, hefir verið hallarekstur, sem fleiri og fleiri forðast að koma nærri sem eigin framleiðendur. Framleiðslu sveitanna hefir verið forðað frá bruni með ýmislegum óeðlilegum kreppuráðstöfunum, og sama er að segja um mikinn hluta útgerðarinnar. Þetta hefir verkað eins og hitaskammtar á sóttveika menn, friðun í bili, en engin lækning, af því að meinið liggur dýpra, eins og ég hefi þegar vikið að. Jafnhliða þessu hefir verið haldið uppi falskri kaupgetu hjá nokkrum hluta þjóðarinnar. Það hvorttveggja hefir orsakað dýrari og ógætilegri lifnaðarhætti hjá nokkrum hluta þjóðarinnar heldur en dæmi eru áður til, og vitanlega duga hvorki innflutningshöft eða aðrar ráðstafanir þar til varnar, ef venjur og tízka og fyrirhyggjuleysi leggjast á eitt til að viðhalda spilinu. Allt þetta er tengt við þá skiljanlegu aðstöðu, að þegar arðsvonin af atvinnurekstrinum hverfur, þegar þeir, sem sýnt hafa fyrirhyggju og gætni í sinni starfsemi, eru rúnir með gjöldum og öryggislausir um framtíðina, þá lamast viðleitni fólksins í efnahagsstarfseminni, sú hugsun fær byr undir báða vængi, að láta fjölina fljóta og hverjum degi nægja sína þjáning. Þarna er að finna höfuðskýringuna á því ábyrgðarleysi og nautnalífi, sem meira ber á síðustu árin en dæmi eru til áður. Þar er líka að finna skýringuna á því að nokkru leyti, að fólkið hefir flutt í hundraða- og þúsundatali í fyrirsjáanlegt atvinnuleysi, í von um að aukin ríkisvinna, atvinnubætur og bæjarframfæri væri þó alltaf til bjargar.

Öfugstreymið markast á gleggstan hátt í því, að mestu vandræði sveitanna eru fólksleysi og vantrú uppvaxandi manna á framtíðina, en mestu vandræði kauptúna og kaupstaða eru atvinnuleysi og framfærsluþungi af fullvinnufæru eða hálfvinnufæru fólki. Í öllu þessu er dómur reynslunnar orðinn svo sterkur, að blaður og mótmæli duga ekkert. Þetta er deginum ljósara. Af þessu er það sprottið, að á undanförnum árum og yfirstandandi tíma eru bæjarfélögin að sligast undan ofurþunga fátækraframfæris, tryggingargjalda, atvinnubótavinnu o. fl. Meðan útgerðin var í blóma og fór vaxandi, virtist allt í lagi með fjárhag hinna stærri bæja, þó að sveitafólkið flytti þangað í stórum hópum. Einkum átti þetta sér stað með höfuðstaðinn, Reykjavík. Hingað hefir fólkið og fjármagnið safnazt um langa hríð í stórum stíl og hér virtist allt í lagi með fjárhag og framtíðarhorfur. En gjöldin hafa alltaf hækkað og lífskröfur að sama skapi, en grundvöllurinn undir velgengni bæjarins, útgerðin, molast niður. Hér er því farið að halla gífurlega undan fæti eins og annarstaðar í landinu, af þeim ástæðum, sem þegar eru nefndar og flestar eru tengdar við fjármálastefnu þjóðfélagsins og því ekki á valdi bæjarvaldanna hér að standa gegn. Til marks um það, hver áhrif hallarekstur útgerðarinnar hefir, má margt nefna. 1933 var veiðitími togaranna t. d. 110 dagar á vertíð að meðaltali. Árið 1937 er hann kominn í 48 daga. Að nota þannig til veiðanna aðeins arðmesta tímabilið, er gert til að draga úr hallanum. Sama eðlis er það, að útgerðarfélögin telja minna tjón að láta skipin liggja, nema síldveiðitímann, heldur en að gera þau út.

Þá er útflutningurinn á fiskinum óverkuðum sorglegt dæmi um ástandið. Mér er m. a. sagt af kunnugum mönnum, að árið sem leið hafi það munað nærri 3 milljónum króna í verkalaunum, að fiskurinn var fluttur út óverkaður, borið saman við það, að verka hann hér á landi. Þetta munaði í erlendum gjaldeyri nokkru minni upphæð, en gífurlegri samt. Engir menn fremur en verkamennirnir, sem skortir atvinnu, ættu að sjá það betur, hvílíkt tjón er að svona ástandi, en orsökin er hér sem annarstaðar óhagstætt hlutfall milli framleiðslu og launakjara.

Í sveitum landsins er myndin sömu tegundar, þó svipurinn sé eðlilega nokkuð annar. Fram undir 1930 var eftirspurn eftir jörðum gífurleg um land allt og þær seldar víða fyrir helmingi hærra verð en fasteignamatinu nam. Nú er skipt svo um, að jarðir eru næstum óseljanlegar, og það sem meira er, það er varla hægt að byggja jarðir í beztu sveitum. Það fer því ört vaxandi, að jarðir fara í eyði, jafnhliða því, sem hinir eldri menn falla frá eða hætta búskap. Samfara þessu er svo hitt, að búreksturinn á mörgum þeirra jarða, sem á er búið, er lítið meira en hálfur rekstur miðað við það, sem bezt var, þannig að engjarnar standa óhreyfðar í stórum stíl árum saman og þar með ónotað mikil af framleiðslumætti jarðarinnar. Það, sem hinsvegar bjargar því, að landbúnaðarframleiðslan í heild á landinu hefir ekki gengið saman að sama skapi, er hin stóraukna ræktun, sem fram hefir farið síðan jarðræktarlögin gengu í gildi. Þetta munar alstaðar nokkru, en mestu í kringum kauptún og kaupstaði. Þó að nytjar jarðanna séu því ekki hirtar nema að sumu leyti, þá þarf samt nú víðast færra fólk til sömu framleiðslu en áður vegna bættra skilyrða. Þetta ætti að skapa stórum betri afkomu, og náttúrlega væri hún ómöguleg ella. En þrátt fyrir þetta er afkoman verri en áður, og er þar að finna eina afleiðingu þeirra orsaka, sem ég hefi drepið hér á.

Ég nefndi á síðasta þingi eitt glöggt dæmi um þetta ástand, þar sem ríkisbúin komu út með stóran halla árið 1937, þó að engin leiga væri reiknuð eftir jarðir, hús og búpening og mjólk væri reiknuð ríkinu á 28 aura potturinn nettó. Á þessum stöðum er þó betri aðstaða en á flestum öðrum stöðum á landinu. Þar er allt fóður tekið á vélarfæru túni, húsakostur í bezta lagi o. s. frv. Ég get nú bætt því við, að eitt ríkisbúið kom á sama ári út með stóran halla, og var þó engin leiga reiknuð eftir höfuðstól, og fæði verkafólks ekki heldur talið til gjalda.

Þegar svona gengur þar, sem skilyrðin eru bezt, hjá ríkinu sjálfu, þá er ekki von, að vel fari hjá fátækum einstaklingum, enda er sjón sögu ríkari í því efni. Þessi lýsing þykir þeim áreiðanlega ljót, sem ekkert þekkja okkar atvinnuvegi og þeirra meinsemdir, en hún er rétt. Hún er sá sannleikur, sem við kunnugra manna augum blasir, og þann sannleik eru þeir menn skyldugir til að rannsaka og viðurkenna, sem fást við stjórnmál, og þeir eru skyldugir til að haga sér í samræmi við hann, ella draga sig í hlé.

En hvað á að gera? Um það er ekki að villast, að það verður að gerbreyta okkar fjármálakerfi og þeirri óheillastefnu, sem undanfarið hefir ríkt á þessu sviði. Það verður að gerast svo fljótt sem tök eru á og með það höfuðsjónarmið fyrir augum að bæta hag framleiðslunnar til sjávar og sveita, svo hún geti borið sig og verið arðviss í sæmilegu árferði, og allt vinnufært fólk í landinu geti haft atvinnu. Það er dýrt að halda hér uppi menningarríki; það þarf mikið til að standa straum af öllum okkar skuldum og lækka þær eins og þarf; það þarf mikið til að losna við framfærsluþungann og atvinnuleysisbölið, en allt þetta er gersamlega ómögulegt á annan veg en þann, að auka framleiðsluna og tryggja það, að hún svari eðlilegum tekjum og sé helzt meira laðandi fyrir hæfileikamenn þjóðarinnar en flest eða allt annað. Verði þetta ekki gert, verði haldið áfram á sömu braut og undanfarið, þá er víst, að sú hörmungarsaga gerist á komandi tímum, að mistök og lífsþægindi nútímans verður að borga með frelsi og velferð uppvaxandi og komandi kynslóða.

Hér á Alþingi er nú lítið byrjað að starfa og nokkuð vafasamt, hvað gert verður. Um tvennt er þó talað. Annað það, að rjúfa þingið og ganga til kosninga á komandi vori. Hitt það, að stofna til samvinnu um stjórn og afgreiðslu mála af 3 stærstu flokkum þingsins. Hvort ofan á verður, er enn með öllu óvíst. Að ræða hér um hugsanlega samvinnu Sjálfstæðisflokksins við stjórnarflokkana geri ég ekki, því að til þess hefi ég ekki umboð frá flokksins hálfu.

Frá mínu persónulega sjónarmiði vil ég þó segja það, að ef allir hv. alþingismenn væru vitrir menn, velviljaðir og þjóðhollir, þá mundu þeir sjá og skilja, að nú er það ástand fyrir hendi, að sjálfstæði og framtíðarvelferð okkar lands og okkar þjóðar er í veði, ef ekki er breytt frá því, sem verið hefir. Sú skylda hvílir á þessum hóp fremur en öllum öðrum landsins þegnum, að taka skynsamlegar ályktanir, að leita sannindanna til hlítar á öllum sviðum, viðurkenna þau og breyta í samræmi við það, og fyrst og fremst setja alþjóðarhagsmuni ofan við allt annað. Landið okkar er fagurt, frjósamt og gott. Það hefir kostað lífsstarf allra okkar beztu manna á aðra öld að bjarga því undan erlendum yfirráðum. Ef flokkaþrætur yfirstandandi tíma hafa það í för með sér, að eins fer nú og áður í lok hinnar verstu óaldar, sem hér hefir ríkt, Sturlungaaldar, þá verður eftirmæli núlifandi kynslóðar ekki gott á komandi öldum.

Hvort sem nú standa kosningar fyrir dyrum eða ekki, hvort sem sterkara verður: sú einlægni, bjartsýni og víðsýni, sem trúir á mátt hinna betri afla, jafnvel hjá óbilgjörnum andstæðingum, eða sundrungar- og baráttuvaldið, sem ríkt hefir að undanförnu, þá vil ég óska okkar landi og okkar þjóð þess, að skilningurinn fari vaxandi á því, að nú ber alþjóðarnauðsyn til, að brátt verði tekið öðrum tökum á vandamálum þjóðarinnar en gert hefir verið. Því aðeins getum við haft svo bjartar vonir um framtíðina sem hin miklu lífsskilyrði okkar góða og kæra lands gefa efni til.