22.02.1939
Sameinað þing: 3. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

1. mál, fjárlög 1940

Stefán Stefánsson:

Hv. ráðherra hefir nú lokið við að halda sína fjárlagaræðu hér á Alþingi.

Í fjárlagaræðunni 1937 segir ráðherrann: Í fyrstu fjárlagaræðu minni lagði ég áherzlu á, að stjórnin liti svo á, að aðalatriðið væri að standa í skilum út á við.“

Í þessari fyrstu ræðu lagði ráðherrann mikla áherzlu á, 1) að stöðva þyrfti allar skuldaaukningar út á við, 2) að greiða yrði umsamdar afborganir skulda af tekjum hvers árs og 3) að halda yrði fullum greiðslujöfnuði, eigi aðeins í fjárlögum, heldur og raunverulega, þannig að fjárlög og ríkisreikningar á hverjum tíma standist á. Fyrir þennan ásetning fékk hv. ráðherra viðurkenningu. Ásetningurinn var góður. En hvernig hefir farið um efndirnar?

Hv. ráðherra hefir hlotið þá aðstöðu, að geta unnið að settu marki eftir þeim leiðum, er hann sjálfur taldi beztar. Hann fékk hjá stuðningsflokkum sínum öll þau lög, völd og umboð, er hann taldi sig við þurfa til að ná marki.

Hann fékk hækkaðar allar útgjaldaáætlanir fjárlaganna, svo eigi þurfti að greiða nokkrar verulegar fjárhæðir úr ríkissjóði umfram fjárlög. Hann fékk síhækkaðar tolla- og skattaálögur, til þess að hann fengi þær tekjur handa á milli, sem hann krafðist og taldi sig þurfa.

Hann fékk nýja innflutnings- og gjaldeyrislöggjöf og hefir fengið á þeirri löggjöf allar þær breytingar, sem hann hefir óskað, til þess að geta haft fullt vald á innflutnings- og gjaldeyrismálunum.

En þrátt fyrir allt þetta hefir árangurinn af fjármálastjórn hans orðið sá, að fjárhags- og gjaldeyrisvandræði þjóðarinnar hafa farið vaxandi með hverju ári, síðan hv. ráðherra tók við stjórn fjármálanna, og hafa aldrei verið meiri en nú.

Skuldir þjóðarinnar út á við hafa farið vaxandi með hverju ári. Er full ástæða til að ætla, að þær hafi verið um s. l. áramót eigi undir 110 millj.

Á s. l. ári munu þær hafa vaxið allverulega. Í viðskiptayfirliti ársins 1938 segir ráðh., að 31/2 millj. lánsfjár hafi verið flutt inn í landið á s. l. ári. Skuldir bankanna á árinu hafa vaxið um 620 þús. og hagur okkar í Þýzkalandi versnað um 2,7 millj.

Samkv. áliti skipulagsnefndar, hinnar svokölluðu „Rauðku“, á bls. 36, er birt yfirlit frá Hagstofu Íslands um skuldir þjóðarinnar.

Samkv. því eru skuldirnar í árslok 1933 kr. 74,6 millj. Samkv. sömu bók, bls. 56, segir: „Í árslok 1935 hafa skuldirnar við útlönd því verið rétt við 100 millj. og Sogsvirkjunarlánið þó að litlu leyti talið.“ Skuldir hafa því verið í árslok 1935 ca. 105 millj. Fullyrða má, að á árunum 1936–1938 hafi þær vaxið svo, að þær nú séu eigi undir 110 millj.

Verzlunarjöfnuðinn telur ráðh. hagstæðan um 8,6 millj. Frá því verður að draga verð Esju, 450 þús., og eftir reynslu reynist innflutningur meiri en vitað er við áramót, svo ólíklegt er, að verzlunarjöfnuðurinn nái 7 millj., — en þarf að öllum líkindum að vera 14 millj. til að fullur greiðslujöfnuður náist.

Hv. ráðh. hefir alltaf talið duldu greiðslurnar lægri en þær raunverulega hafa verið.

Nú fyrst virðast augu hans vera að opnast. Nú eru duldu greiðslurnar allt í einu orðnar 12 millj. í fyrra um sama leyti voru þær allt að 10 millj. Þær hafa því vaxið á einu ári um 2 millj. Reynslan mun sanna, að þær eru vart undir 14 millj.

Hv. ráðh. hefir alltaf stimpazt við, þá borið hefir verið fram, að skuldir hafi vaxið í hans ráðherratíð.

Úr uppgjöri skipulagsnefndar á skuldunum hefir hann jafnvel lítið viljað gera, enda þótt flokksbræður hans, þeir hv. þm. S.-Þ. (JJ) og hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt), væru meðal annara í nefndinni. En nú viðurkennir hv. ráðh. skuldaaukninguna, m. a. með játningu um hækkun duldu greiðslnanna. Í fjárlagaræðunni 1938 sagði hv. ráðh., að duldu greiðslurnar færu hækkandi með hverju ári. Af hverju fara þær vaxandi? Er það eigi meðal annars og fyrst og fremst vegna sívaxandi skulda þjóðarinnar við útlönd?

Gjaldeyris- og yfirfærsluvandræðin eru hin hörmulegustu. Smákröfur á ríkisfyrirtæki eru sendar hingað málflutningsmönnum til innheimtu, og jafnvel verða vanefndir á loforðum um yfirfærslu slíkra upphæða. Gjaldeyrir mun vera mjög takmarkaður eða enginn fyrir höndum erlendis, aðeins falla eitthvað til jafnóðum og afurðir héðan eru þar seldar.

Er jafnvel talið, að yfirfærsla gjaldeyris muni með öllu stöðvast einhvern daginn, ef ekki ber að óvænt höpp.

Ástand fjárhags- og gjaldeyrismála er ískyggilegt.

Í viðskiptayfirliti ráðh. og í fjárlagaræðu hans í dag gætir eigi hinna sömu drýginda um fjármálastjórn og ástand gjaldeyrismála sem að undanförnu. Hv. ráðh. viðurkennir nú, að ástandið sé mjög alvarlegt. En hann reynir að bera sig mannalega, þótt meira sé það af vilja en mætti, og telur, að eigi sé ástæða til þess að örvænta.

En eftir reynslu af fjármálastjórn ráðherrans undanfarandi ár, fæ ég ekki annað séð en að þjóðin hafi fulla ástæðu til að örvænta um fjárhagslega viðreisn, fari hv. ráðh. áfram með stjórn fjármálanna.

Það verður eigi lengur um það deilt, að ástandið er mjög alvarlegt, svo notuð séu orð ráðh., og má telja virðingarvert, að hann, þótt seint sé, gefi þessa játningu.

En hverjum er um að kenna? Ekki er mér um að kenna, segir hv. ráðh.

Lengi hefir ráðh. og stjórnarflokkarnir leikið þann leik, að kenna fyrrv. ríkisstjórn, stjórn Á. Á., og stjórnarandstæðingum um erfiðleikana. En þegar eigi er hægt að telja þjóðinni trú um það, að stjórnarandstæðingar eigi sökina, menn, sem með öllu hefir verið bolað frá öllum áhrifum á stjórn landsins, þá er landinu, ættjörðinni, gefin sökin, reynt að vekja vantraust á landinu.

Fiskileysi og ýmsu er um kennt. Það er bent á það og reynt mikið úr að gera, að útflutningur á fullverkuðum saltfiski hafi stórum minnkað, enda er það svo, en þess er eigi getið, sem þó ætti að gera, að í hans stað höfum við fengið önnur útflutningsverðmæti, svo sem: hraðfrystan fisk, óverkaðan saltfisk, síld og síldarafurðir o. m. fl., og jafngilda verðmæti þessi saltfiskinum, sem áður var.

Samkv. vísitölum hagstofunnar sést, að vörumagnsvísitala útfluttra vara er hin sama árin 1937 og 1928, eða 217. Meðalvörumagnsvísitala áranna 1935–1937 er 206, en meðal-vörumagnsvísitala áranna 1924–1926 eigi nema 1681/3, og hafa þó þau ár verið talin mikil góðæri.

Sama er að segja um verðvísitölu útfluttra afurða; hún hefir einnig verið hagstæð, miðað við undanfarandi ár. Árin 1935–1937 er hún að meðaltali 125, en árin 1931–1934 er þessi verðvísitala miklu lægri, eða 1003/4.

Þessar fáu vísitölur, sem ég nefndi, benda eigi til þess, að landið hafi brugðizt, ættjörðin hafi svikið.

Nei, það er hv. fjármálaráðh., sem hefir brugðizt, það eru stjórnarflokkarnir, sem hafa svikið. Allt til þessa hefir hv. ráðh. og hv. stjórnarflokkar talið þjóðinni trú um, að allt væri að batna. Ýmsir trúgjarnir kjósendur hafa trúað þessum fullyrðingum og þótt þær undursamlegar. En nú er þeim vart trúað lengur.

Hvar sést þessi bati? Er hann í sveitum landsins? Er hann að finna í nauðungarsölu jarða? Er hann að finna í flótta bændanna og sveitaæskunnar frá landbúnaðinum og framleiðslunni?

Sést batinn við sjávarsíðuna, hjá útgerðarmönnum eða verkafólki? Er hann að finna í milljónatöpum útgerðarmanna eða í atvinnuleysi og framfærsluþörf verkamanna?

Bata þann, er stjórnarflokkarnir hafa svo mikið gumað af, er hvergi að finna, nema hjá þeim, er standa við stjórnarjötuna, hjá broddum Framsóknar- og Alþýðuflokksins, er taka tvöföld og þreföld prófessorslaun. Það er bati þessara höfðingja, er stjórnin hefir flotið á og flýtur á. Hagsmunir launamanna þessara eru settir ofan hagsmunum framleiðslunnar í landinu, og þá jafnframt ofar hagsmunum alþjóðar.

Þar sem ég drap hér á framleiðsluna, vil ég fara um hana nokkrum orðum.

Útflutningur landbúnaðarvara var s. l. ár 8,6 millj. Er það tæpum 2 millj. minna en árið 1937, og byggist þetta að mestu á verðfalli afurða. Það er því augljóst, að afkoma margra bænda er næsta erfið; hún var erfið áður en verðfallið varð, hvað þá nú, og auk þess herjar mæðiveikin og ýmsar fjárpestir heil héruð landsins. Bændurnir þreytast á búskaparbaslinu, þeir flytja frá moldinni á mölina og keppa þar þá oft um vinnu við verkalýðinn, er þar er fyrir. Skapast við þetta ýmsir erfiðleikar, auknar kröfur um atvinnubótafé og framfærslustyrki. — Bændum er talin trú um það af gæðingum stjórnarinnar, að þeir séu alltaf að græða. Kjötlög og mjólkurlög eiga að hafa bætt hag þeirra um hundruð þúsunda, jafnvel milljónir.

Afurðasölulöggjöfin var sjálfsögð. Hún hefir þegar gert nokkurt gagn, þótt það hefði mátt vera meira, og á vonandi eftir að gera það betur. Hún var fyrst og fremst sett til hagsmuna bændum, og hún á ásamt fleiru að tryggja það, að landbúnaðurinn sé lífvænlegur atvinnuvegur og að menn eigi þurfi að flýja sveitirnar, tryggja það, að bændurnir geti lifað á landbúnaði, lifað eigi verra lífi en aðrar stéttir þjóðfélagsins. En þetta hefir enn eigi tekizt.

Samband ísl. samvinnufélaga gaf út á s. l. ári smárit eftir Jón Gauta, bónda á Gautlöndum. Var það gefið út sem fylgirit með Samvinnunni. Það er eigi tími til að ræða þetta merkilega rit hér. Gefst ef til vill tækifæri til þess seinna. En ég vil skora á bændur að lesa það. Við það vex skilningur á því, hversu búskapurinn er í raun og veru erfiður, þegar sjá má, að kaupgjald hefir meira en fimmfaldazt síðan fyrir stríð og skattar og gjöld einnig, en að þær afurðir, sem flestir bændur hafa, og sumir eingöngu, sauðfjárafurðir, hafa aðeins hækkað um rúmlega 1/3 á sama tíma.

Blöð framsóknarmanna þegja vendilega um þetta rit.

Svo sem kunnugt er, skipaði síðasta Alþingi milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum.

Störf þessarar nefndar hafa staðfest það, sem áður var alkunna, að útvegurinn hefir stórtapað undanfarandi.

Allir nefndarmenn munu sammála um, að eitthvað verði að gera útveginum til hjálpar og að skjótra aðgerða þurfi við, eigi framleiðslan eigi að hrynja í rústir.

En hv. ríkisstjórn virðist ráðþrota í erfiðleikunum.

Hv. fjármálaráðherra leggur nú fram hærri fjárlög en nokkru sinni áður. Það er hans skerfur til hjálpar.

Engar tillögur eru enn komnar fram um mál málanna, viðreisn framleiðslunnar í landinu, en það er það mál, sem Alþingi nú verður að láta til sín taka og leysa á viðunandi hátt.

Á s. l. Alþingi, þegar Sjálfstfl. bar fram vantraust á ríkisstj., bar Bændaflokkurinn fram tillögu um myndun þjóðstjórnar. Tillaga þessi var felld.

Flokknum var það ljóst þegar á s. l. þingi, að ástandið var svo alvarlegt, að fyllsta ástæða var til, að allir ábyrgir stjórnmálaflokkar stæðu hlið við hlið og tækju sameiginlega á sig ábyrgð þá, er hlaut og hlýtur að fylgja því, að reisa úr rústum sjávarútveginn og framleiðsluna í landinu.

Heyrzt hefir, að forsætisráðherra hafi verið og jafnvel sé að hugleiða myndun þjóðstjórnar, og að hann í því sambandi muni hafa leitað samvinnu við Sjálfstfl. Einnig munu vera sterk öfl innan Framsóknarfl., er vilja láta leita samvinnu til vinstri, við Sameiningarflokk alþýðu, en eigi til hægri. Kom þetta meðal annars fram á síðasta miðstjórnarfundi flokksins, og virðist þetta vera í fullu samræmi við grein í 10. tbl. Tímans 1936, þar sem segir, að yzta takmark Framsóknarfl. sé hið sama og annara umbótaflokka, en svo hefir Tíminn nefnt sósíalistaflokkana þrjá, Framsókn, Alþýðu- og Kommúnistaflokkinn.

Einnig er talið, að hv. ríkisstj. sé að hugleiða gengislækkun, beina eða óbeina, til viðreisnar framleiðslunni.

Er nú svo komið, að stjórnin er nú komin inn á þær brautir, er Bændaflokkurinn hefir bent á til úrbóta, myndun þjóðstjórnar og gengislækkun, og væri vel, að þeim málum yrði fylgt.

Ég vil að endingu drepa á, hvernig ég tel heppilegast að snúast við þeim erfiðleikum, er fyrir liggja.

1. Mynduð sé stjórn þeirra stjórnmálaflokka, er afneita þjóðnýtingu sem bjargráði út úr erfiðleikunum, — eða stjórn ábyrgra stjórnmálaflokka í landinu.

2. Framkvæmd sé gengislækkun, þannig að krónan sé felld um 1/3, eða 33%.

Leiði reynslan það í ljós, að atvinnan í landinu eflist eigi svo sem ætlað er jafnframt gengisfalli, þannig að verkamenn beri minna úr býtum en áður, verður að taka til athugunar, hversu bæta megi verkamönnum það upp, með kauphækkun eða á annan hátt, án þess framleiðslan bíði hnekki af.

Þyki það heppilegra en gengislækkun, gæti komið til álita, að öll gjaldeyrisleyfi yrðu skattlögð eftir mismunandi skattastiga, eða með jöfnum skatti og stighækkandi tollum, eftir því sem varan telst meiri luksusvara. Skatti þeim, er þannig er fenginn, skal varið til verðbóta á útfluttar framleiðsluvörur landsmanna og afurðir landbúnaðarins, seldar á innlendum markaði.

3. Lækka skal útgjöld fjárlaga, svo sem frekast má vera, skera niður persónustyrki og lækka ýmsa liði um 10–25%. Þetta sé þó aðeins bráðabirgðaráðstöfun, er helgast af hinu alvarlega fjárhagsástandi þjóðarinnar.

4. Dregið skal úr framfærslukostnaði, m. a. með því, að einhleypu fólki, hvorki körlum né konum, sé veitt atvinnubótafé eða framfærslustyrkir, ef framfærslusveit getur tryggt fólki þessu framfærslu sér að kostnaðarlausu.

Einnig sé vendilega gætt af stjórnarvöldum, að framfærslustyrkir séu miðaðir við nauðsynlegar þarfir hinna framfærðu, en eigi til uppkaupa á pólitísku fylgi.

5. Jafnframt gengislækkun eða verðuppbótum á afurðir séu lækkaðir tollar eða þeim létt af nauðsynjavörum framleiðslunnar.

6. Dregið sé úr innflutningi ýmsra ónauðsynlegra vörutegunda,en aðrar vörur, svo sem matvörur, gefnar frjálsar.

7. Strangar reglur skulu settar um ferðalög landsmanna til útlanda, og þeim einum körlum og konum leyft þangað að fara, er eiga brýnt erindi. — Er það kunnugra en frá þurfi að segja, að ýmsir, hærri sem lægri, karlar sem konur, sigla til útlanda án erinda, til þess eins að njóta lífsins og skemmta sér. Fólk þetta sóar gjaldeyri, jafnframt því, sem það smyglar vörum inn í landið í stórum stíl og styður að því fremur flestu öðru, að torvelda og viðhalda hinu erfiða gjaldeyrisástandi með þjóðinni.

8. Hert skal á öllu tollstarfi og þess vandlega gætt, að valdir séu til tollstarfa reglusamir og duglegir menn.

9. Rannsaka skal starfsmannahald við ríkisstofnanir og banka, og starfsfólki fækkað svo sem fært þykir. Jafnframt skulu laun þessa starfsfólks athuguð og færð til samræmis við laun starfsmanna ríkisins samkv. launalögum.

Væri slíkum reglum sem þessum fylgt, vona ég það, að framleiðsla þjóðarinnar og jafnframt þjóðin sjálf kæmist fram úr erfiðleikunum stórslysalítið. Að þess yrði eigi langt að bíða, að eigi aðeins tæki fyrir flóttann frá framleiðslunni, heldur yrðu framleiðslustörfin eftirsótt, svo sem áður var, meðan atvinnuvegir landsmanna stóðu í blóma.

Þá vildi ég vona það, að hyrfi sá hugsunarháttur, sem nú ríkir og er stórhættulegur þjóðinni, að hin eina örugga afkomuvon sé að ganga á mála hjá stjórninni og stjórnarflokkunum, til þess að fá hjá þeim atvinnu, fé og fríðindi.

Það á fyrst og fremst að vera takmark þessa Alþingis, að ganga svo frá viðreisn framleiðslunnar, að fólkið leiti aftur til hennar, en eigi frá henni, svo sem verið hefir.

Það er þetta, sem yfirstandandi Alþingi á að vinna að og eigi við að skiljast, fyrr en lokið er.