22.02.1939
Sameinað þing: 3. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

1. mál, fjárlög 1940

*Einar Olgeirsson:

Ég vil byrja með því að mótmæla úrskurði hæstv. forseta. Það er ekkert nýtt, þó að verkalýðurinn hér fái að kenna á úrskurðum þessara herra, sem þó telja sig fulltrúa hans. Annars mun ég tala hér fyrir Sameiningarflokk alþýðu — Sósíalistaflokkinn og nota þann ræðutíma, sem flokknum ber sem þingflokki samkvæmt þingsköpum, hvað sem úrskurði þessum líður. Jafnframt vil ég spyrja hæstv. forseta, hvort það hafi verið hugmynd hans, þá er hann á sínum tíma bauðst til þess að sameina alla í Alþýðuflokknum við Kommúnistaflokkinn, að þeir, sem þann nýja flokk hefðu komið til með að skipa, yrðu allir að teljast utan flokka. Annars mun ég láta mér nægja að skírskota til afstöðu þeirrar, sem ríkisstjórnin hefir tekið til Sameiningarflokks alþýðu og fram kemur í bréfi því, er forsrh. sendi flokknum, er hann bauð honum að taka þátt í útvarpsumræðunum 1. des. síðastl.

Við stöndum hér frammi fyrir nýjum fjárlögum, sem gilda eiga árið 1940. Mælikvarðinn, sem við fulltrúar Sameiningarflokksins hér á Alþingi leggjum á þetta fjárlfrv., er sá, hvernig er gert ráð fyrir að bæta úr þörfum alþýðunnar, hvernig tillit er tekið til verkamannanna og smábændanna. Meðal verkalýðsins í kaupstöðum landsins hefir atvinnuleysið farið vaxandi undanfarin ár. og tilfinnanlegast hér í Reykjavík. Vonirnar, er menn gerðu sér um framkvæmdir vegna hitaveitunnar, hafa brugðizt. Um 1200 atvinnuleysingjar hafa verið skráðir hér í Reykjavík að staðaldri. Manni verður nú fyrst á að spyrja, hvaða tillögur felast í fjárlfrv. til þess að bæta úr neyð hinna mörgu atvinnulausu manna. Því er fljótsvarað, — ekki neinar. Þar er allt látið sitja við hið sama. Sömu mennirnir, sem ráðast á atvinnubótavinnuna sem óhagstæða og neyðarúrræði, koma ekki með neinar tillögur til betri úrlausnar á því vandamáli, engar tillögur um að ríkið ráðist í arðberandi framkvæmdir eða styðji að þeim. Í einu orði sagt, í frv. finnast engar tillögur, er miða að bættum framkvæmdum fyrir verkalýðinn. Þannig er t. d. ekki minnzt á byggingu verkamannabústaða. Ár eftir ár er aftur á móti fellt út af fjárl. að taka upp styrk þann, er samkv. lögum á að renna til byggingar verkamannabústaða í kaupstöðum og bygginga í sveitum. Á ég þar við þann hluta af tekjum tóbakseinkasölunnar, sem ganga á til þessara framkvæmda, en ríkissjóður hefir hirt síðastl. 8 ár, og nú á síðari árum hafa numið um ½ millj. kr. á ári. Þetta hafa valdhafarnir gert með rólegri samvizku, enda þótt þeir hafi horft á það, að húsnæðisástandið fór stórversnandi, jafnt í bæjum sem í sveitum, — horft á það t. d., að hér í Reykjavík byggju um 3 þús. manns í ólöglegum kjallaraíbúðum, sem að nokkru leyti eru beinlínis heilsuspillandi. Þeir hafa og horft á sama ástandið í sveitunum, þar sem t. d. eru allt að 75% af bæjum í sumum hreppunum alveg komnir að hruni, svo lífshætta er að búa í þeim. Þegar nú stjórn sú, sem einu sinni a. m. k. kallaði sig stjórn hinna vinnandi stétta, hagar sér svona í húsnæðis- og atvinnumálum alþýðunnar til sjávar og sveita, er ekki að undra, þó að íhaldið færi sig og upp á skaftið í þessum málum og þverbrjóti það, sem eftir stendur af lögum þessum. Eins og kunnugt er, þá eiga kaupstaðirnir að greiða 2 kr. á íbúa árl. til sjóða verkamannabústaðanna,. en nú hefir Reykjavík t. d. ekki borgað neitt í 2 ár og skuldar því um 140 þús. kr. Af þessum og fleiri ástæðum hefir bygging verkamannabústaðanna stöðvazt í 2 ár. Ríkisstjórnin hefir ekkert gert, þó að lögin hafi verið þverbrotin á verkalýðnum. Svona gætir hæstv. dómsmrh. réttar og laga, þegar hinir fátæku eiga í hlut. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hve lengi þetta eigi að viðgangast, hvort hann telji kannske leyfilegt, að lögin séu brotin, ef það er fátæk alþýða, sem lögbrotin koma niður á.

Við, sem höfum verið þm. fyrir Kommfl., höfum flutt till. um að bæta úr atvinnuþörf manna, auka framleiðsluna o. fl., en till. okkar hafa allar verið strádrepnar. Þá höfum við og flutt tillögur um að rannsaka og hagnýta auðlindir landsins, en þær hafa allar verið drepnar. En nú verður málum þessum ekki skotið lengur á frest. Það verður að taka þau til gaumgæfilegrar rannsóknar. Upp á síðkastið hefir t. d. mikið verið talað um járnið í Eyrarfjalli; sé það t. d. þar, þá er það áreiðanlega að finna viða annarstaðar á landinu. En hér ber svo undarlega við, að Framsfl., sem forystu á að hafa í þessu máli eins og nú standa sakir, virðist vera hræddur við það. Um það þarf ekki að ræða, hve geysimikla hagsmuni hér getur verið um að tala. Hitt viljum við fá upplýst, hver afstaða ríkisstj. sé í þessu máli, — hvort hún ætli að draga það á langinn enn um langan tíma að láta rannsaka möguleikana til hagnýtingar auðlindanna. Við fulltrúar Sósíalistaflokksins hér á Alþingi munum ekki aðeins halda áfram baráttunni fyrir till. þeim til umbóta, sem Kommfl. og Alþfl. að nokkru leyti hafa borið fram hér á undanförnum þingum, heldur munum við og þegar á þessu þingi flytja víðtækar tillögur um viðreisn atvinnuveganna og fylgja þeim eftir með öllum þeim krafti, sem sameinaður verkalýður landsins á yfir að ráða. Menn munu nú spyrja, hvar taka eigi peninga til þessara hluta. Á að halda áfram að taka þá fyrst og fremst með síhækkandi tollum á nauðsynjum alþýðunnar? Ég segi nei, og aftur nei. Á þeirri braut má ekki halda lengra, heldur ber að fara þær tekjuöflunarleiðir, sem við höfum hvað eftir annað bent á hér áður og ég sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka nú. En hitt vil ég segja, að sú stjórn, sem hefir ástæður til að láta 1–2 þús. manna ganga atvinnulausa hér í Reykjavík einni, og kastar þar með á glæ svo millj. skiptir í því verðmæti, sem dýrmætast er talið af öllu verðmæti, á ekki að þurfa að standa ráðalaus við lausn þessara mála.

Þá má ég aðeins minna á, að talið er víst, að um 20 millj. kr. sé stolið undan skatti árlega. Við höfum bent á leiðir til að ná til þessa fjár, en þær till. okkar hafa verið svæfðar eða felldar.

Þá bólar ekki á því í þessu fjárlfrv., að nokkuð eigi að gera til þess að skera niður háu launin. Það munu þó bráðum komin 8 ár síðan form. Framsfl. lýsti því yfir, að hæstu laun í þjónustu ríkisins ættu ekki að fara yfir 8 þús. kr. á ári, og ennþá bólar ekkert á, að fara eigi að framkvæma þetta. Milliþinganefnd í launamálinu sýndi og fram á, að hægt væri að spara 750 þús. kr. á ríkisrekstrinum með lækkun hálauna. En frv., sem gekk eitthvað í þessa átt. fékk rólegan svefn og þm. borgaraflokkanna hafa varazt það sem heitan eldinn að vekja þann draug upp aftur.

Meðan afkoma almennings er eins hörmuleg og nú, þegar atvinnuleysi og örbirgð sverfur að hundruðum alþýðuheimila, þá er hróplegt ranglæti, óhæfa, sem ekki getur gengið, að ríkustu menn þjóðarinnar svíki í milljónatali undan skatti og háu launin séu látin haldast án þess að við þeim sé hróflað.

Þið hafið nú heyrt, hlustendur góðir, hver úrræði hæstv. stjórn og fleiri, sem talað hafa. hafa boðað um úrlausn vandamálanna. Nú, þegar verkalýðurinn þarfnast betri launa og bættra kjara, er ráðið að skella á gengislækkun. Þetta kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan. Hv. 3. landsk. (StSt) taldi það eitt af aðalúrræðunum til bjargráða, að skera meira en gert hefði verið við neglur sér féð til fátækraframfærslu. Meðan slíkt vofir yfir, meðan fram undan er vaxandi kreppa og uppgangsskeið það, sem byrjaði 1934, er á enda, meðan þjóðin á yfir höfði sér gengislækkun og slíkt, er til lítils að ræða fjárl. á þeim grundvelli, sem hér er lagður fram. Ég mælist því hér með til við hæstv. fjmrh., að hann svari því afdráttarlaust, hvort þjóðin eigi enn að þurfa að lifa í ótta um, að gengislækkun muni steðja að. Það er vitað, að þjóðin er á móti gengislækkun, og eins er um beztu menn allra flokka. Ég bið því hæstv. ráðh. að skýra það, hver sé hans afstaða.

Þá er það vitanlegt, að hagur ríkisins út á við er mjög undir þessu máli kominn. Á síðasta þingi var rætt um að fá ný lán handa ríkinu. Mættu vera á því miklir möguleikar að fá ný og hagkvæmari lán til þess að borga upp eldri lán. Hefir þó til þessa tekizt illa um það, a. m. k. hefir Magnúsi Sigurðssyni bankastjóra orðið lítið ágengt. En eigi Ísland að koma betra lagi á fjármálapólitík sína, verður að brjóta einokun Hambrosbanka yfir lánveitingum til landsins.

Þegar Hermann Jónasson myndaði ráðuneyti sitt eftir kosningasigur vinstri flokkanna, bjóst þjóðin við því, að tekin myndi upp réttari fjármálapólitík og að hagur alþýðu myndi batna. En til þess hefði ríkisstj. orðið að vera óháð braskara- og bankavaldinu. Þessu er nú ekki að heilsa. Stjórnin hefir einmitt hlíft þeim auðugustu og látið í hvívetna að vilja Landsbankans og Hambros. Þetta byrjaði þegar 1935 með yfirlýsingunni til Hambros um að taka ekki fleiri stórlán án vitundar bankans og bráðabirgðal. um sölusambandið. Þessi fjármálastefna hefir síðan markað afstöðuna í Kveldúlfsmálinu, og hefir því Landsbankinn farið sínu fram í því máli. Stefna sú, sem Framsókn lýsti yfir fyrir síðustu kosningar um það, hvernig leysa skyldi það mál, hefir ekki verið haldin. Veð hefir aðeins verið tekið að litlu leyti í eignum Kveldúlfs. Landsbankastjórnin hefir því virt að vettugi vilja ríkisstj. og þjóðarinnar. Það dugir því ekki að láta þessa bankastjórn ráða áfram í Landsbankanum. Margir vona, að skipun Vilhjálms Þórs sem bankastjóra sé fyrirboði betri stefnu, og væri betur, að svo reyndist. En það, sem á veltur, er að vinstri flokkarnir og öll alþjóð sameinist um það, að upp verði tekin heilbrigðari fjármálastefna. Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn vill beita sér fyrir slíkri samvinnu, en aðalskilyrðið til hennar er, að verkamenn standi sameinaðir. Þó að Sósialistafl. hafi komið slíkri samvinnu á sumstaðar, eins og á Siglufirði og Ísafirði, þá hefir alþýðusambandsklíkan, sem brotizt hefir til valda í Reykjavík, reynt að hindra það á allan hátt. Þessi klíka virðist stefna að því að brjóta niður alla sameiningarviðleitni verkalýðsins hér á landi. Í Hafnarfirði fer hún fram úr öllu því. sem áður hefir þekkzt hér. Fyrst klýfur hún verkamannafélagið Hlíf og reynir með áhrifum sínum og umráðum yfir atvinnutækjunum að svelta þrjá fjórðu hluta hafnfirzks verkalýðs til hlýðni við sig. Síðan heimtar hún lögreglu til að leysa deilumálin í Hafnarfirði og stefnir svo deilunni fyrir félagsdóm, þar sem málið á alls ekki heima og þar sem alþýðusambandsstjórninni myndi verða fengið eindæmi. Svo kórónar þessi uppreisnarklíka allt saman með því að staðhæfa, að í Hafnarfirði sé verið að gera uppreisn, og heimtar ríkislögreglu og bann á Sósíalistafl. Það eru því síðustu forvöð fyrir alla, sem vilja vernda samtakarétt og frelsi í landinu, að sameinast til að hindra slíkt gerræði.

Það er illt til þess að vita, að hæstv. forsrh., sem lýst hafði yfir, að hann vildi leita sátta í málinu, skuli ekki einu sinni hafa talað við aðila. Verður að krefjast breytinga á þessari afstöðu hans. Þess verður að krefjast, að verkalýðurinn njóti fyllsta réttar um samtök sín, bæði í Hafnarfirði og annarstaðar. Orðrómur hefir gengið um það, að í undirbúningi væri að stofna ríkislögreglu til að bæla niður varnir Hlífar og fleiri verkalýðsfélaga. Það hljómar einkennilega í eyrum allrar alþýðu, að þegar rætt er um að stofna ríkislögreglu, þá er ekki minnzt á féleysi. En út yfir tekur þó, þegar Alþfl. eða leifarnar af þeim flokki gengur fram fyrir skjöldu um það að heimta ríkislögreglu. sá flokkur, sem harðast barðist gegn þessari hugmynd 1925 og gerði það að skilyrði við stjórnarmyndun 1934, að engin ríkislögregla kæmi til mála. Þess má og minnast, að Haraldur Guðmundsson hótaði að segja af sér ráðherradómi í benzíndeilunni 1935, ef ríkislögreglu ætti að stofna. Það er ekki lengra síðan en til umræðnanna um gerðardóminn hér á þingi í fyrra, að hann tók ákveðna afstöðu á móti hugmyndinni um ríkislögreglu. En svo djúpt eru nú þessir foringjar sokknir, að þeir eru sjálfir teknir að krefjast hennar. Ég læt alla alþýðu um að dæma um feril þeirra. En fyrir alla lýðræðissinna er það aðalatriði að hindra, að ríkislögreglu verði komið á til þess að þjóna óbilgirni braskara og ofbeldismanna.

Þá vil ég minnast á landhelgisgæzluna. Í fjárl. eru ætlaðar 500 þús. kr. til landhelgisgæzlu. En til hvers er að ætla þetta fé til þeirra hluta, ef það á að ganga til eins og hingað til hefir verið, að því er líkast, sem búið sé að opna gersamlega landhelgina fyrir útlendingum? Sú stefna virðist nú helzt uppi að setja frá þá menn, sem sýna vilja á því að gæta landhelginnar og sleppa ekki sökudólgunum.

Þá eru styrkirnir til skálda og listamanna, sem teknir hafa verið út af 15. gr. og flestir af 18. gr. Ég tel það mjög hættulegt, ef menntamálaráði á að verða fengið í hendur að útkljá allt um þessa styrki. Það er nú þegar orðið of mikið um allskonar spillingu í sambandi við úthlutun styrkja, þótt því sé ekki bætt við að leggja beztu skáld og listamenn landsins undir geðþótta menntamálaráðs. Þingið á sjálft að taka ákvörðun um slíka hluti, og munum við síðar bera fram brtt. um það.

Loks vil ég taka þetta fram: Nú liggur fyrir þinginu og íslenzku þjóðinni að ákveða, hvort stefna beri til hægri, til þess að rýra kjör og rétt allrar alþýðu, til einræðis auðmannastéttarinnar, eða í hina áttina, og ríður því allt á því, að alþýða landsins sameinist um að taka höndum saman og sameinast um hagsmuni sína.