05.04.1940
Efri deild: 30. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

62. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Frv. þetta hefir náð samþykki Nd. og hefir legið til athugunar í allshn., sem ekki hefir fundið neitt við frv. að athuga og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég skal stuttlega geta um innihald frv. og hvað er ætlað að vinna á með því. Lög um lífeyrissjóð ljósmæðra voru sett 1938 og komu til framkvæmda 1. jan. 1940. Þegar átti að framkvæma l., komu í ljós ýmsar misfellur, sem nauðsynlegt var að lagfæra nú þegar. Í 1. gr. er ákvæði, þar sem segir, að ljósmæður skuli greiða sjóðnum 4% af föstum lannum, en aftur á móti er lífeyririnn, sem þær fá úr sjóðnum, miðaður við meðalárslaun, að viðbættri dýrtíðaruppbót. Hér er um fullkomið ósamræmi að ræða, sem mun bera sjóðinn ofurliði fjárhagslega séð. Í þessu frv. er lagt til, að ljósmæður greiði 4% af launum sínum að viðbættri dýrtíðaruppbót. Samkv. l. þessum er framlag ríkisins til sjóðsins 15 þús. kr. á ári, gegn því að sjóðurinn taki að sér greiðslu lífeyris til ljósmæðra. En það var ekki tekið tillit til þess, að upphæðir, sem greiddar eru ljósmæðrum, eru greiddar með 25% dýrtíðaruppbót. Síðan þessi l. voru sett á Alþ. hafa eftirlaun ljósmæðra hækkað um 2000 kr. að meðtalinni dýrtíðaruppbót. Eftir þeim útreikningi, sem fylgir hér með, verður ekki komizt af með minna en 25 þús. kr. til sjóðsins, ef hann á að geta staðið straum af skyldugreiðslum sínum.

Þriðja brtt., sem máli skiptir, er ákvæði, sett til bráðabirgða. Það kom í ljós við nánari athugun, að í fjárl. yfirstandandi árs eru settar eftirlaunagreiðslur til ljósmæðra eins og verið hafði áður. En samkv. l. um lífeyrissjóð ljósmæðra áttu þær heimtingu á eftirlaunum úr sjóðnum. Nú var ekki ætlazt til, að þær fengju bæði eftirlaun úr lífeyrissjóði og ríkissjóði, og þess vegna er hér lagt til, að lífeyrissjóður taki ekki að sér þessar eftirlaunagreiðslur fyrr en á næsta ári. Er ekkert sérstakt við breyt. að athuga, en óhjákvæmilegt annað en hún verði að lögum.