15.03.1940
Neðri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

41. mál, íþróttasjóður

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er ekki hægt að neita því, að það má alltaf, eins og tekið hefir verið fram af minni hl., deila um það, hvort rétt sé að skipta tekjum ríkissjóðs á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., þar sem á að verja 1½% af heildsöluverði áfengis og tóbaks til þess að stofna sérstakan sjóð, íþróttasjóð. Allir eru sammála um, að fært muni vera að hækka verðið um 1½%, svo ágreiningurinn er þá aðallega um það, hvort rétt er að leggja þetta í sérstakan sjóð, sem verja eigi til íþróttamála. Það hefir reyndar komið fram sú till., að verja þessari upphæð til kaupa á útlendum áburði handa bændum, og fyrir mig sem landbrh. ætti sú till. að sýnast aðgengileg, þar sem mér er það ljóst, að bændur þarfnast styrks í þessu skyni eins og nú standa sakir. Það er þó ekki mikill vandi fyrir mig að gera þetta upp með sjálfum mér, því þó þörf bændanna sé mikil, þá er þörfin á að styrkja íþróttir og gera ráðstafanir til þess, að þær fái öruggan stuðning, miklu meiri. Ég er þeirrar skoðunar, að ef okkur tekst að ala upp heilbrigða þjóð, en íþróttir eru bezta meðalið til þess, þá sé ekki hægt að leggja þjóðinni til neitt það, sem betra er. Ef okkur tekst að ala æskuna þannig upp, að hún verði heilbrigð og hraust, þá mun það fólk, þegar það kemur út í lífið, leggja af mörkum margfaldlega það, sem varið er til að efla íþróttir. Ég hefi margsinnis veitt því eftirtekt, að næstum undantekningarlaust er það svo, að hvar sem góður íþróttamaður starfar, þá er að öllu jöfnu langsamlega betur starfað í hverri starfsgrein sem er.

Ég hefi ekki komizt hjá að veita því athygli sem lögreglustjóri, að í sumum stofnunum hér á landi, þar sem hefir verið mikill drykkjuskapur, þar hefir hver maðurinn eftir annan farið frá störfum vegna allskonar óreglu, sem af áfengisnautn hefir leitt. Það er vitað, að mikið af ungum mönnum drekkur, því það er ekki hægt að segja við þessa ungu menn: Sitjið heima í herbergjum ykkar og drekkið ekki áfengi. Þó stúkurnar hafi unnið hér mikið gagn, þá nægir ekki það eitt. Það verður að fá ungu kynslóðina til þess að veita þrótti sínum og krafti útrás í öðru en þeirri útsláttarsemi, sem fylgir áfengisnautn. Það er ómögulegt að leiða æskuna frá áfengishættunni, nema með því móti að fá hana til þess að hafa áhuga fyrir einhverju öðru, sem er gagnstætt áfengisnautn, en það er hollt líf og heilbrigðar íþróttir.

Það kann þess vegna að líta andkannalega út, enda hafa sumir haft orð á því, að taka 1½% af verðmæti tóbaks og áfengis og styrkja með því íþróttir. Ég er að vissu leyti þeirrar skoðunar, að óeðlilegt sé að skipta tekjum ríkissjóðs í sundur. Ég vil þó segja, að engin till. hefir komið fram, þar sem það er eins eðlilegt. Að ég er þessarar skoðunar, er kannske vegna þess, að ég álít, að ekki sé hægt að útrýma áfengi og tóbaki með banni. Ég álít, að það sé ákaflega erfitt að taka slíkt af fólki með valdi. En það er ekkert rökréttara en það, að á meðan þessar eiturnautnir eru frjálsar og þeirra er neytt, sé nokkru af því verðmæti, sem selt er fyrir, varið til að vinna á móti sjálfu sér. Ég álít, að það sé í raun og veru skylda að láta nokkuð af þeim tekjum, sem af þessu koma, renna til þess að vinna gegn sjálfum sér.

Ég sé ekki eftir þessum 100 þús. kr., sem verja á til þess að gefa æskunni í landinu aðstöðu til þess að stunda íþróttir með betra móti en verið hefir hingað til. Ég er alveg sannfærður um, að þeim er vel varið, en ég get kannske ekki gefið öðrum mikið af þeirri sannfæringu, sem ég hefi fengið af reynslu minni og kynningu af íþróttum og íþróttamönnum. Ég held þess vegna, að ekkert betra sé hægt en gera fyrir uppeldismálin í landinu en taka þessar 100 þús. kr. af söluverði áfengis og tóbaks og verja þeim árlega til að styrkja uppeldi æskunnar í landinu. Þar er ef til vill okkar veikasta hlið og mikil þörf á að hlynna meira að því en gert hefir verið.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að lífsbaráttan í okkar landi er óneitanlega hörð og erfið, og þess vegna verðum við að miða uppeldi æskunnar við það að ala upp heilbrigða, hrausta og harðgerða einstaklinga, en það er ekki hægt með neinu betra en íþróttum. Þegar fjölmennið í bæjunum er orðið eins mikið og nú er og hin harða og seiga lífsbarátta sveitanna er að nokkru leyti úr sögunni, þá þarf að vinna þetta upp með iðkun íþrótta í kaupstöðunum.

Ég vil þess vegna, án þess að fara að halda nokkurn fyrirlestur um íþróttir, mæla mjög með því, að þetta frv. verði samþ. Það er í raun og veru borið fram eftir ósk íþróttanefndar, sem gekk frá íþróttal., og í samráði við mig, þó ég hafi ekki viljað láta það heita svo beinlínis, að það væri borið fram að minni tilhlutan, vegna þess að það vannst ekki tími til að ræða málið í ríkisstj.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, nema það komi þá fram sérstök mótmæli, sem þörf er á að svara. Ég vil mjög eindregið mælast til þess við hv. þd., að hún sjái sér fært að samþ. frv., því ég er sannfærður um, að við göngum ekki frá öðru betra máli á þessu þingi.