15.03.1940
Neðri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

41. mál, íþróttasjóður

*Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. A.-Húnv. er því mótfallinn, að tekjum ríkisins sé skipt í sundur í ólíka sjóði. Hann vill, að allar þær tekjur, sem ríkið á kost á, renni fyrst í ríkissjóð. Þetta er sjónarmið, sem hægt er að halda fram, en hvorki hér né annarstaðar á Norðurlöndum hefir þessari reglu verið fylgt alveg. Það er á mörgum sviðum hægt að benda á undantekningar, sem hafa allar nokkuð til síns máls. Af tóbaks- og áfengiságóða er alstaðar á Norðurlöndum varið sérstökum upphæðum í vissum tilgangi, og það er ekki farið fram á annað hér. Þetta er sambærilegt við það, þegar áfengissektir eru látnar renna í menningarsjóð og partur af skemmtanaskatti er látinn renna til lestrarfélaga.

Það má segja: Hvar á að setja takmörkin? Það má hugsa sér, að þetta endi á þann hátt, að ríkissjóður hafi síðast engar tekjur, heldur renni allt utan hjá honum. Það er sama, hvaða útgjöld er talað um, — það má alltaf koma með þessa spurningu. En takmörkin í þessum efnum sem öðrum liggja hvergi fyrir utan mannfólkið sjálft, heldur eins og á öllum öðrum sviðum í þeirri gætni og hófsemi, sem þingið sýnir á hverjum tíma. Takmörkin hljóta að liggja í því, hvað hægt er að sannfæra þingið um á hverjum tíma. Við verðum því að sætta okkur við að hafa þessi takmörk fyrir hverju óhófi sem er.

Hv. 3. landsk. er með till. um, að tekjum íþróttasjóðs skuli varið til áburðarkaupa. Ég hefði talið réttara af honum að bera fram sérstakt frv. um þetta efni heldur en að gera svona till. í sambandi við íþróttasjóðinn. Ég skal benda á aðra leið, sem er eðlilegri, en hún er sú, að annaðhvort allt fjárframlagið, sem íþróttasjóði er áætlað í fjárl., eða partur af því væri látið renna til áburðarkaupa handa bændum. Það verður rætt við 3. umr. fjárl., hvort á að láta þessa upphæð standa óhaggaða eða ekki. Ég býst við, að meiri hl. n. verði reiðubúinn að ræða þetta mál, en í sambandi við þetta frv. á þessi till. ekki heima, og ég vonast til, að hennar örlög verði eftir því.

Hér er um það að ræða að afla tekna til íþróttastarfsemi. Það er venjulega ekki talin eins fullkomin nauðsynjavara eins og áburður. Það er þó hörmulegt til þess að vita, hversu lítið af tekjum ríkisins fer til þess að hafa áhrif á það, hvernig æskulýðurinn ver sínum tómstundum, en svo mikið á þjóðin undir því, að það er sjálfsagður hlutur að eyða nokkurri fjárhæð til að hafa óbein áhrif á þá þróun. Ég er þess vegna fylgjandi þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir að verja allríflegri upphæð til íþróttastarfsemi, svo ríkið hafi nokkur afskipti af þessum málum, sem þjóðina varða svo miklu.