18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

41. mál, íþróttasjóður

Steingrímur Steinþórsson:

Það er orðið svo langt um liðið síðan málið var hér til umr. síðast, að farið er að fyrnast yfir þær umr., sem þá fóru fram. Ég hafði kvatt mér hljóðs vegna þess, að þótt ég hafi skrifað undir nál. með meiri hl. fjhn., sem mælti með því, að frv. yrði samþ. í aðalatriðum, þá hafði ég þó dálitla sérstöðu í þessu máli.

Ég ætla ekki að efa, að það sé mikils um vert að efla íþróttalíf hér á landi og að réttmætt sé, að varið sé til þess nokkru fé. En ég verð að segja, að þegar hv. þm. rísa hér hver af öðrum úr sætum sínum og lýsa því sem eina bjargráðinu, sem til sé fyrir okkar hrjáðu og aðþrengdu þjóð, að efla íþróttastarfsemina, þá liggur við, að mér ofbjóði, einmitt vegna þess, að það eru engin smáræðis fjárframlög, sem nú á að fara að verja úr ríkissjóði í þessu skyni. Nú eru á fjárlfrv. ætlaðar 30 þús. kr. til íþróttasjóðs, en þetta frv. leggur til, að mér skilst, að 100 þús. kr. eigi að renna í þennan sjóð, og er það meira en hálf sú upphæð, sem Búnaðarfélag Íslands fær til sinnar starfsemi, en það á þó að halda uppi margbreyttri starfsemi í sambandi við annan aðalatvinnuveg landsmanna. Ég vil benda á þetta til þess að sýna, að það er ekkert smáræðis fé, sem ætlazt er til, að þessari starfsemi sé lagt, og það á sama tíma og fullerfitt reynist að halda við þeim fjárveitingum, sem undanfarið hafa verið veittar til atvinnuveganna, að ekki sé talað um, að ekki má heyrast nefnt, að hækka megi framlög til nokkurra verklegra framkvæmda.

Ég gat ekki orða bundizt til að láta þessa skoðun mína í ljós, að hér sé óþarflega langt gengið á þeim tímum, sem nú eru. Ég veit, að íþróttastarfsemin er mjög góð og gagnleg, en ég er líka viss um, að í sambandi við þá góðu og þarflegu starfsemi er líka mikið til af einskisverðu „föndri“, og það mætti segja mér, að nokkuð af því mikla fé, sem þarna á að fara að verja til íþróttastarfsemi, yrði nokkurskonar vasapeningar fyrir ýmiskonar tildurfélög, sem stofnuð yrðu í skjóli þeirrar þörfu starfsemi, sem á að fara að styrkja. Ég tel það varhugavert að telja íþróttastarfsemina eitt höfuðbjargráðið fyrir okkur. Henni hefir til þessa verið haldið uppi af áhugamönnum, og hefir það einungis verið vel farið; margir íþróttamenn hafa á síðari tímum sýnt mikinn og lofsverðan áhuga, og sú starfsemi virðist mér hafa blómgazt vel, þótt ekki hafi verið varið til hennar stórfé úr ríkissjóði. Þó að taka eigi þetta fé á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, þá verð ég að skoða það hið sama og að það væri tekið úr ríkissjóði. Það er hægt að hækka verð á tóbaki og vínföngum og láta það allt renna til ríkissjóðs og nota það síðan á þann hátt, sem Alþingi vill vera láta. Hitt eru ekki annað en krókaleiðir.

Það hefir komið fram brtt. við frv. frá hv. 3. landsk. þm. um að verja þeim tekjum, sem fást af sölu stimpilmerkja, sem geta á út til ágóða fyrir íþróttasjóð samkvæmt 1. gr. frv., og einnig þeim, sem fást af því að hækka verð á tóbaki og víni, fyrst um sinn til áburðarsölu ríkisins, til að létta fyrir framleiðendunum með að fá útlendan áburð með skaplegu verði. Án þess að fara að segja nokkuð verulegt um þessa till. og hvort heppilegt sé að bera hana fram í sambandi við þetta mál, þá get ég ekki látið hjá líða að beina þeirri fyrirspurn til hv. fjvn., sem nú vinnur að undirbúningi fjárlfrv. til 3. umr., hvort hún hafi hugsað sér að taka upp í till. sínar eitthvert fé til áburðarsölunnar. Ég gat þess á síðasta þingi, að áburðarsalan er nú þannig stödd, að brýn þörf er á, að ríkið leggi henni einhvern styrk. Hún hefir orðið fyrir miklum skakkaföllum, m. a. vegna gengisbreytingarinnar, en það er beinlínis orðið lífsskilyrði fyrir okkur að geta fengið tilbúinn áburð til landsins, ekki eingöngu fyrir bændur, heldur og fyrir þá, er í kaupstöðum búa og kauptúnum. Tilbúinn áburð þurfum við fyrst og fremst til garðræktar, en þó einnig til túnræktar að sjálfsögðu. Ég vil því, áður en ég tek endanlega afstöðu til þessa máls, fá að heyra, hvort hv. fjvn. hefir hugsað sér að gera till. um það, að einhverju fé verði varið til þess að létta undir með áburðarkaupin. Það er enginn vafi á því, að á því veltur, hvort við getum haldið í horfi með þá garðrækt, sem á síðustu árum hefir verið „agiteruð“ upp hér á landi og — a. m. k. með kartöflur — er komin í það horf, að við fæðum okkur sjálfir, þótt það hafi auðvitað að miklu leyti verið borið uppi af sérstaklega góðu árferði síðasta sumar. En það er alveg nauðsynlegt að halda garðræktinni a. m. k. við, og það er ómögulegt nema með því að fá nógan áburð, og hann má ekki heldur vera fram úr hófi dýr. Reynslan hefir nú sýnt, að kartöflur eru svo að segja eina vörutegundin, sem ekki hefir hækkað í verði vegna styrjaldarinnar, og miðað við sama tíma í fyrra er verðið heldur lægra nú. Ef framleiðendur sjá svo fram á, að kartöfluverðið verður svona lágt vegna aukinnar framleiðslu, en áburðurinn aftur á móti verður afardýr, verður niðurstaðan sú, að menn verða hræddir við að leggja í mikla framleiðslu, þar sem allt kaupgjald hefir þá einnig hækkað, og getur þetta orðið til þess, að garðræktinni fari beinlínis aftur, ef ekkert er að gert. Það verður erfitt að fá framleiðendurna til að setja niður í eins stór svæði og í fyrra, er þeir sjá, að verðið er lægra nú en í fyrra, en allur framleiðslukostnaður miklu hærri, sérstaklega áburðurinn.

Þó að ég viðurkenni, að það sé dálítið óeðlilegt að setja áburðarsöluna í samband við tekjustofna íþróttasjóðs, þá vil ég, úr því þetta mál er fram komið á þeim grundvelli, fá að heyra, hvort hv. fjvn. hefir á þessu stigi málsins hugsað sér að veita fé til áburðarsölunnar. Ef hún telur ekki heppilegt að verja einhverju af tekjum ríkissjóðs til áburðarkaupa, þá fer ég að skoða huga minn um, hvort það sé ekki fær leið, sem hv. 3. landsk. hefir stungið upp á til að tryggja, að við getum haldið áfram okkar garðrækt næstu árin. Þótt ég nefni hér sérstaklega garðrækt, þá er tilbúinn áburður líka mikið notaður til túnræktar, en garðrækt er blátt áfram ómögulegt að halda uppi nema með miklum erlendum áburði. Það var einkum þetta, sem ég vildi taka fram. Ég vona, að enginn skilji orð mín svo, að ég sé á móti því, að íþróttastarfsemi hér á landi sé styrkt hæfilega mikið, en ég tel hér óhæfilega langt gengið, að ætla svo mikið fé til hennar á þessum tímum, þegar ekki má einu sinni nefna að fá aukið fé til atvinnuvega landsins. Sú stefna er nú uppi í þinginu, sem ég tel, að hafi mikið til síns máls, að fara þurfi varlega hvað snertir fjárhagsafkomu ríkissjóðs. — Skal ég svo láta máli mínu lokið, en mun sýna mína afstöðu, er til atkvgr. kemur.