18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

41. mál, íþróttasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Eftir að ég talaði í þessu máli um daginn, þá tóku 3 formælendur þessa frv. til máls og héldu allir alllangar ræður. Það voru hæstv. forsrh., hv. þm. V.-Ísf., fyrrv. forsrh., og hv. 1. þm. Skagf. Það mætti ætla, að þegar allir þessir menn eru búnir að halda hjartnæmar ræður máli þessu til styrktar, þá hefði næsta litla þýðingu að mæla í gegn því fyrirkomulagi, sem í frv. er stungið upp á. Þrátt fyrir það ætla ég að segja nokkur orð til frekari skýringar á því, sem ég hefi haldið fram og kemur fram í mínu nefndaráliti. Þótt ómögulegt sé að gera hverri ræðu fyrir sig glögg skil í heild, þá voru samt einstök atriði hjá hverjum um sig, sem ég ætla að svara. Þeir töluðu allir um nauðsyn íþróttastarfseminnar og bindindisins, og munu hv. þm., þótt þeir séu ekki allir gáfaðir, vita svo mikið í þeim efnum, að ekki sé brýn þörf á löngum og hjartnæmum ræðum því til skýringar, og skal ég ekki frekar minnast á það. Hitt er ef til vill frekar ástæða til að minnast á, hvernig ástandið er í þessu hvorutveggja. Um íþróttirnar er það kunnugt mál, að á síðustu árum hefir íþróttastarfsemi mjög aukizt, einkum í kaupstöðum landsins, en þó svo sé, þá er raunalegt til þess að vita, að okkar þjóðlegasta íþrótt, íslenzka glíman, er svo að segja útdauð í landinu. Það er ánægjulegt, hve íþróttastarfsemin hefir aukizt undanfarin ár, en það, sem ég er sérstaklega hrifinn af, er það, hve einstakir menn hafa lagt mikið í sölurnar og sýnt mikla fórnfýsi við að koma þessari starfsemi áfram. Ég held þess vegna, að ekki verði til mikilla bóta að setja þetta undir ríkisvaldið, eins og gert var með þeim l., sem samþ. voru á síðasta þingi. Eins og hæstv. forsrh. gat um, er íþróttastarfsemi næstum því útilokuð í sveitum landsins, vegna fámennisins þar og annara aðstæðna. Þess vegna er þess að gæta, að þótt íþróttastarfsemin hafi aukizt mjög undanfarin ár, þá hefir hún aðallega aukizt hjá þeim stéttum þjóðarinnar, sem bezta hafa aðstöðuna. Unga fólkið úti í dreifbýlinu heyrir svo að segja daglega allan veturinn auglýsingar um skíðaferðir og hina og þessa íþróttakappleiki og íþróttastarfsemi, auk þess sem það heyrir fluttar allskonar auglýsingar um skemmtiferðir og skemmtisamkomur. Allt þetta miðar að því að draga huga þess frá fámenninu í fjölmennið, og þessu er ekki hægt að verjast. Þegar það heyrir þessar auglýsingar glymja í eyrum sér kvöld eftir kvöld og ber saman við sínar aðstæður, þá verður því ljóst, að fólkið, sem þarna er talað til, hefir betri aðstöðu, meiri fjárráð og betri tíma til að sinna þessum hlutum en það á sjálft völ á. Þrátt fyrir ágæti íþróttanna, þá verða þær, eins og þær eru reknar hér, eitt af áróðurstækjunum til þess að laða unga fólkið meira og meira frá sveitunum. Þetta er eitt af því, sem gerir það að verkum, að ég er því ekki eins samþykkur og ella myndi vera, að stórri fjárhæð af fé ríkisins sé varið til þessara hluta.

Að því er snertir bindindismálin, þá má í stuttu máli segja, hvernig ástandið er þar. Árið 1938 keypti þjóðin áfengi og tóbak fyrir 7.2 millj. króna, en það svarar til þess, að eytt hafi verið 70 kr. á hvert mannsbarn í landinu, þar með talin ungbörn, gamalmenni og sjúklingar o. s. frv. Ég býst ekki við, að þetta hafi mikið breytzt síðan, og engar líkur til, að svo verði í framtíðinni. Í árslok 1938 voru skuldir áfengisverzlunarinnar og tóbakseinkasölunnar við útlönd nálægt 1½ millj. kr., og innanlands voru útistandandi skuldir þessara fyrirtækja yfir 300 þús. kr. Hv. ræðumenn voru að tala um, að sú hækkun, sem hér er ráðgerð á útsöluverði áfengis og tóbaks, ætti að verða til þess að auka bindindið og vinna gegn neyzlu þessara nautnavara með því að styrkja íþróttirnar. Þetta virðist geta orðið alveg öfugt, ef íþróttamönnum á að vera tryggt með l., að þeir fái einhvern hluta af ágóða af sölu víns og tóbaks til sinnar starfsemi. Það getur orðið til að hvetja þá til að „agitera“ fyrir neyzlu þessara vara, því útkoman verður sú, að því meira sem neytt er af víni og tóbaki, því meira fé fæst handa íþróttamönnunum til þeirra starfsemi. Til þess að fá nokkra verulega breytingu í bindindisáttina duga hvorki bindindisræður né starfsemi þess félagsskapar, sem á undanförnum árum hefir glatað áhrifum sínum og virðingu vegna bannofstækis. Það þýðir ekki heldur að taka ágóðann af sölu þessara vara hvorki til íþróttastarf semi né annara hluta. Öruggasta ráðið til þess að fá þessu breytt er það, að ekki sé keypt meira inn í landið af þessum vörum en hægt er að borga samtímis og að þær séu alls ekki lánaðar hér innanlands. Ég held þó, að notkun þessara óþarfavara verði alltaf mikil, ekki sízt meðan haldið er uppi falskri kaupgetu hjá miklum hluta þjóðarinnar.

Hv. 1. þm. Skagf. flutti þá kenningu í ræðu sinni sem einhverja nýja skoðun, er kæmi mönnum á óvart, að tekjur af áfengi og tóbaki væru ekki tekjur ríkisins, en þegar hann ætlaði að fara að rökstyðja þetta, komst hann í þær ógöngur, að ég hygg, að hann hafi alls ekki skilið sig sjálfur, hvað þá aðrir, enda veit ég ekki, hvernig ætti að telja mönnum trú um, að það væru ekki tekjur ríkisins, allur hagnaðurinn af þessum vörum, sem eru ein aðaltekjulind ríkissjóðs. Árið 1938 voru tekjur af sölu þessara vara rúmlega 5½ millj. kr.

Á síðasta þingi var fjvn. sammála um að mæla með því, að verð á þessum vörum yrði hækkað, en hún ákvað ekki, hvernig þeim tekjum skyldi varið, enda átti það að sjálfsögðu að vera á valdi ríkisstj. Það eru því ekki af þingsins hálfu neinar skorður við því reistar, hve mikið má hækka verð á þessum vörum, en að sjálfsögðu á ágóðinn af þeim að renna í ríkissjóð. Svo má halda áfram að hækka verð á víni og tóbaki og ákveða, að sá hagnaður gangi til hins og þessa, ef einu sinni er farið inn á þá braut, en á þann hátt aukast ekkert ríkistekjurnar. Ég held, að heppilegast sé að fara ekki inn á þá braut, hvorki í sambandi við íþróttasjóð né áburðarkaup né neitt annað.

Það var annaðhvort hv. 1. þm. Skagf. eða hv. þm. V.-Ísf., sem var hér um daginn að reyna að færa sönnur á, að það væri ekkert einsdæmi, að teknar væru tekjur af vissum sköttum og varið til ákveðinna hluta, og nefndi í því sambandi 3 dæmi. Hann nefndi það fé, sem rennur til menningarsjóðs, skemmtanaskattinn til þjóðleikhússins, og í þriðja lagi happdrættið fyrir háskólann. Það hafa ekki verið lagðir á sérstakir skattar til þessara framkvæmda. En ég held, að það hafi verið langt frá því, að það væri heppilegt í þessum tilfellum öllum, að farin var sú leið að láta þessar tekjur ekki renna í ríkissjóð og Alþingi ákveða á hverjum tíma, hve miklu fé væri varið til þessara framkvæmda. Því að það, að leggja milljón kr. í hús eins og þjóðleikhúsið, sem ekki er hægt að nota, á sama tíma sem atvinnuvegir landsins eru að hrynja niður, það eru vitanlega framkvæmdir, sem hinu opinbera valdi eru ekki til neins sóma. Og ég er viss um, að svona hefði ekki verið farið með þetta fé ef Alþ. hefði átt að ráða um það. Sama er að segja um háskólabygginguna. Happdrættið er eitthvert ágætasta meðal til að afla tekna, hvort heldur er fyrir ríkissjóð eða annað, og að afhenda það einni stofnun á þann hátt, sem gert var, það var frá mínu sjónarmiði frá upphafi mjög vafasamt. Enda hefir reynslan því miður sýnt, að farið hefir verið lengra í þeim framkvæmdum, sem happdrættið hefir borið uppi, heldur en gera má ráð fyrir, að gert hefði verið, ef hæstv. Alþ. hefði ráðið, hve mikið af þessum tekjum væri látið renna til þessarar byggingar. Það er vitanlegt, að háskólabyggingin er allt of stór. Ég hygg því, að öll sú reynsla, sem við höfum af þeirri tekjuöflunarleið, sem hér er lagt til, að farin verði, sé þannig, að það sé bersýnilegt, að meiri eyðsla hafi orðið á fé til framkvæmda fram yfir nauðsyn heldur en orðið hefði, ef ríkisvaldið sjálft hefði haft á hverjum tíma vald til að segja um það, hve miklu af slíkum tekjum væri varið til þessara hluta.

Þeir hafa komið að því, hv. þm., í umr. um þetta mál, að þetta, sem hér er lagt til, sé að afla tekna handa íþróttasjóði. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að meðmælendur þessa frv. kalli þetta að afla tekna, þar sem það heitir í fyrirsögn frv. „tekjuöflun til íþróttasjóðs“. En ég verð að segja það, að þó að ég sé búinn að heyra þetta viðkvæði mörg hundruð sinnum í þessu sambandi, „að afla tekna“, þá hefi ég því meiri andstyggð á því orðatiltæki sem ég heyri það oftar notað á þann hátt. Því að það er mesti misskilningur, að hér sé verið að afla tekna. Hér er ekkert annað á ferðum en að taka nokkuð af tekjum ríkissjóðs og ákveða, að þær tekjur skuli renna til annara hluta. Hluturinn er sá, að af því að menn hafa ekki gert sér grein fyrir því í raun og veru, hvað það er í sjálfu sér að afla tekna, er komið sem komið er í okkar fjármálum. Það mætti kannske segja, að það væri að afla tekna að heimila að setja meira af tóbaki og víni til þess að fá meiri ágóða af þeirri sölu. En það er ekki að afla tekna að parta niður þær tekjur, sem af þessu fást, og ákveða, að nokkrum hluta þeirra skuli vera varið til þessa og nokkrum hlutanum til hins. Ég held þess vegna, að hvað sem segja má um þann hlut, hve miklu fé eigi að verja til íþróttastarfsemi í landinu, sem getur legið utan við þessa deilu, þá eigi þeir menn, sem eru formælendur þessa frv., að hafa djörfung til að ganga hreint til verks í þessu efni. Og það eina, sem er að ganga hreint til verks, er að taka upphæð þá, sem á að verja til þessarar starfsemi á hverju ári, beint inn í fjárlögin. Það hefir nú verið samþ. fjárlagaákvæði um 30 þús. kr. framlag til íþróttasjóðs á næstkomandi ári, sem er 16 þús. kr. hækkun frá fjárlagafrv. eins og það var lagt fyrir þingið.

Skal ég ekki ræða um það, að hve miklu leyti þetta eigi að hækka. En ég álít, að engar krókaleiðir eigi að fara í þessum efnum, og þar sem flokkarnir eru í samvinnu hér á Alþ., ættu ekki að vera á því örðugleikar að fara þá réttu leið í þessu efni, að láta þá hækkun, sem Alþ. telur nauðsynlega, koma inn í fjárlögin.

Um till. hv. 3. landsk. (StSt), að verja þessu fé til áburðarkaupa, er það að segja, að í sjálfu sér er það nauðsynlegt mál að kaupa þá vöru. En ég vil ekki heldur fara krókaleiðir í því efni. Ef hv. þm. geta orðið ásáttir um að leggja fram fé til þess að styrkja menn á einhvern hátt til kaupa á þeirri vöru, þá á að taka það beint úr ríkissjóði með fjárlagaákvæði, en ekki á þennan hátt. En verði 1. gr. frv. samþ., mun ég þó heldur fylgja því að samþ. till. hv. 3. landsk. heldur en frv. óbreyttu, eins og nú standa sakir.

Skal ég svo ekki tefja hv. þd. með fleiri aths., því að ég hygg, að það hafi ekki verið fleiri atriði, sem gáfu tilefni til svars af minni hálfu, í þeim ræðum, sem fluttar voru til andmæla þeirri skoðun, sem ég hér hefi haldið fram.