18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

41. mál, íþróttasjóður

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég skal ekki vera langorður, enda munu langar umræður úr þessu ekki breyta miklu, hvernig málið verður afgr. Þó eru nokkur atriði, sem ég vildi gjarnan minnast á. Það er vitanlega misskilningur, sem kom fram hjá hv. þm. A.-Húnv., að mikill kostnaður yrði við stjórn íþróttamálanna. Þetta nær ekki nokkurri átt og hefir ekki við neitt að styðjast. Einnig mundi kostnaðurinn við að líma merkin á flöskurnar ekki verða verulegur, þar sem þau má líma á um leið og merki tóbakseinkasölunnar og áfengisverzlunar ríkisins, sem nú eru á þessum vörum.

Mér er ljóst, að íþróttirnar mæta ekki þeim skilningi hjá þjóðinni sem æskilegt væri. Mér dettur ekki heldur í hug að deila um það, að það sé vinsælt að verja þessum fjármunum til íþrótta. Margir munu hugsa þannig, að þarfara væri að verja þessu til húsabygginga, brúarsmíða eða áburðarkaupa. Um þetta eru skoðanir skiptar, en mín skoðun er sú, að þessu fé verði ekki varið betur en til íþrótta. Við verjum mörgum millj. kr. til að sjá um og lækna þá menn, sem búnir eru að missa heilsuna, og í mörgum tilfellum er öll lækning árangurslaus.

Ég er sannfærður um, að íþróttirnar er eitt af því, sem hjálpar þjóðinni betur en flest annað til þess að byggja upp heilbrigði og starfsorku í landinu. Ef við eigum þann fjársjóð, sem langvarandi íþróttaiðkun skapar, þá er miklu meira borgið en menn gera sér í hugarlund. Framlagi til íþrótta yrði þá ekki varið í óþarfa eða til þess að fólk geti skemmt sér, eins og orð hafa fallið um. En vitanlega má deila um, hversu miklu eigi að verja í þessum tilgangi, og þar er ákaflega vandratað meðalhófið. Ennfremur má færa rök fyrir því, að eins og nú standa sakir sé hæpið að verja svo miklu fé til þessara mála og hér er gert ráð fyrir. Ég viðurkenni, að eðlilegt sé, þó að fram komi mismunandi sjónarmið á þessum efnum. Þrátt fyrir það er skoðun þeirra, sem fluttu frv., að fjármununum sé ekki betur varið, og það er skoðun mín. Ég minnist þess, að fyrir skömmu var ég viðstaddur kappleik, sem margir ungir menn tóku þátt í. Ég veit, að í þessum hóp voru tveir af þeim beztu, sem voru óreglumenn fyrir nokkrum árum. Íþróttirnar höfðu bjargað báðum frá óreglu og gert þá að dugandi mönnum. Þetta er aðeins eitt dæmi um þýðingu íþróttanna, en það má koma með mörg hundruð manna, sem þær hafa bjargað frá glötun og gert þarfa þegna í þjóðfélaginu. Ég vil ekki gera mikið úr því, að það myndi auka drykkjuskalann, ef álagningin á áfengi yrði aukin, og að menn myndu þá drekka til að styrkja íþróttastarfið. Eftir þessum rökum ættu þeir að drekka því meira, sem álagningin er meiri, en þetta er alls ekki rétt. Við álítum það eðlilegt að verja gróða af áfengis- og tóbakssölu til að láta þetta vinna á móti sjálfu sér. Ég er einn þeirra manna, sem viljað hafa áfengis- og tóbakssölu frjálsa og eru á móti banni. En ég vil láta æskuna í landinu fá vissa upphæð á ári til þess að vinna að heilbrigði í landinu.

Það hafa heyrzt raddir um það, að ríkið ætti að ákveða á hverju ári framlag til íþrótta, en ekki ætla þeim vissar tekjur sínar. Viðvíkjandi þessu vil ég benda á frv. um happdrætti háskólans, sem nú á að lögfesta. Það mætti veita peninga beint úr ríkissjóði til háskólans, í staðinn fyrir að láta fólkið „spekulera“ í „lotteríi“, eins og sagt var fyrr á árum og þótti þá ljótt. En nú er þjóðinni leyft að „spekulera“ til þess að geta komið upp æðstu menntastofnun sinni, háskólanum. Ég hefi ekki heldur orðið var við, að mönnum hrjósi hugur við að taka á móti peningum, sem fengizt hafa með því að fá fólkið til að kaupa happdrættismiða.

Mér virðast þessar þrjár aðferðir, sem hér eru hafðar til tekjuöflunar fyrir íþróttasjóð, vera eðlilegar og sjálfsagðar. Ég hefi ekki orðið var við, að menn þekktu þær krónur úr, sem fást með álagningu á ýmsar ónauðsynjavörur, eða að hrollur sé í mönnum að verja þeim til nauðsynjamála. Viðvíkjandi veðmálastarfseminni skal ég benda á það, að hún tíðkast hjá ekki óráðvandari þjóðum en Svíar og Englendingar eru. Það vekur áhuga fólksins fyrir íþróttunum, að vera þannig óvirkur þátttakandi í kappleiknum.

Þetta eru meginrökin, sem færð hafa verið fram, auk þess, sem komið hefir fram nokkur misskilningur um það, að íþróttamenn myndu leggja lítið að sér og þess vegna væri vont að veita þeim svona mikið fé til starfsemi sinnar, því það veikti einstaklingsáhugann.

Þetta mun nú ekki vera rétt. Íþróttamenn hafa lagt mikið að sér, margir hverjir. Ég álít líka alls ekki rétt að veita fé til íþróttastarfsemi, nema með því móti, að íþróttamenn vinni í þegnskylduvinnu þá vinnu, sem þarf að leggja fram, eins og t. d. við byggingu íþróttavalla. Ég álit sjálfsagt, að þessi regla sé tekin upp, og ég vona, ef ég vinn að þessum málum áfram, að mér takist að koma því til vegar, að hún verði tekin upp.

Ef við tökum t. d. skíðaíþróttina, þá hafa verið byggðir skíðaskálar í sjálfboðavinnu, og eru það mörg handtök, sem þar hafa verið lögð fram. En margt af þessu fólki er svo fátækt, að það getur ekki keypt efni í húsin. Eins er með sundlaugar og aðrar lagfæringar og byggingar, að það er ekki hægt að koma þeim upp, nema ríkið komi þar á móti.

Ég vil segja, að þegar maður ferðast út um landið og sér, hvað þegar hefir verið gert, og sér unga fólkið, sem alizt hefir upp við þá aðstöðu, sem þegar hefir skapazt, þá leynir það sér ekki, að íslenzk æska hefir fyrir íþróttirnar gerbreyzt síðustu áratugina, og þá sérstaklega síðasta áratuginn. Það er enginn efi á því, að íslenzk æska er nú þróttmeiri og fallegri en hún hefir verið um margar aldir, og er það íþróttunum að miklu leyti að þakka. Það er allt annað nú en var fyrir nokkrum árum að ferðast út um sveitir landsins og mæta fólki, sem stundað hefir íþróttir, sjá vöxt þess og þann vilja, sem því er samfara að stunda íþróttir.

Þessari starfsemi eigum við að halda áfram og við eigum að leggja meira árlega fram, til þess að gefa æskunni betri aðstöðu til að iðka íþróttir en áður.

Ég er hér kominn inn á efni, sem ég ætlaði ekki sérstaklega að tala um í þessu sambandi. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem ég hefi áður sagt um nauðsyn íþrótta, heldur vildi ég aðeins svara því, sem mér finnst rangt í því, sem komið hefir verið fram með á móti frv.

Það hefir verið minnzt á það einnig, að það eigi með þessu að skipuleggja tómstundir æskunnar. Ég veit ekki, hvað skal segja um það, en þó er það náttúrlega skakkt orð. Vissulega skipuleggjum við tómstundir barna og unglinga, þar sem börnin eru skólaskyld og unglingarnir hafa tækifæri til að ganga í skóla, bæði konur og karlar. Það er ekki lögþvingun, að æskan eigi að stunda íþróttir, en hér er verið að gefa æskunni, sem vill varðveita heilbrigði og starfsþrótt, betri aðstöðu en áður til þess að verja tómstundum sínum í það að stunda íþróttir.

Þau rök hafa verið borin hér fram, að það væri nær að reyna að bæta fyrir það böl, sem af áfengisnautn leiðir, t. d. með því móti, að bæjar- og sveitarsjóðir ættu fremur að fá eitthvað af þessum peningum. Ég vil nú segja, að vitanlega fer mikið af fjármunum þeim, sem fást fyrir áfengi og tóbak, til þess, en jafnframt vil ég halda því fram, að það sé hyggilegra að verja nokkrum hluta af peningum þeim, sem fást fyrir áfengi og tóbak, um 100 þús. kr., ekki til þess að bæta og lækna sárin, heldur til þess að fyrirbyggja, að þetta böl eigi sér stað. Ég vil staðhæfa — og er ég þar á engan hátt að vanþakka goodtemplarareglunni því ég veit, að hún hefir leyst af hendi mikið starf í þágu heilbrigði og reglusemi —, að við getum ekki með öðru betra móti en því að samþ. þetta frv. unnið að því að fyrirbyggja þær afleiðingar, sem áfengis- og tóbaksnautn hafa í för með sér.

Ég vil svo að lokum taka það fram, þar sem á það hefir verið minnzt, að það vannst ekki tími til að ræða málið í ríkisstj., eins og ég tók fram, þegar ég talaði síðast, svo frv. er því ekki borið fram af ríkisstj., heldur af einstökum þm., sem gerðu það eftir beiðni íþróttanefndar, sem undirbjó íþróttal. Afstaða ríkisstj. til frv. er því algerlega óbundin. Það er líka vitanlegt, að það eru borin fram ýms frv. af einstökum þm., sem sumir ráðh. eru fylgjandi, en aðrir ekki.

Ég ætla svo ekki að lengja mál mitt frekar um þetta frv. Ég er því meðmæltur, eins og ég hefi tekið áður fram. Ég sé ekki, að langar umr. um þetta mál hafi mikla þýðingu eins og nú er komið, en ég væri hæstv. forseta þakklátur, ef málið gæti fengið sem fyrst afgreiðslu, til þess að hægt sé að haga fjárveitingum til íþróttasjóðs eftir því og taka það til athugunar við 3. umr. fjárl.