19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

79. mál, mæðuveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. var borið fram á síðasta þingi, en dagaði þá uppi. Það eru 3 aðalatriði, sem farið er fram á að verði breytt í núgildandi l. Fyrsta atriðið, að reynt verði að tryggja það, að ekki verði árekstur á milli samliggjandi sveitarstjórna eða upprekstrarfélaga vegna breyt., sem gerðar kunna að verða á smölun og réttum. Annað atriðið, að undanþiggja þau sveitarfélög, sem beðið hafa tjón af garnaveikinni, því 10 aura gjaldi, sem l. ákveða á fjáreigendur utan mæðiveikisvæðanna. Virðist n. það sanngjarnt, að þeir, sem beðið hafa tjón af völdum garnaveikinnar, verði undanþegnir þessu gjaldi. Síðasta atriðið er aðeins formsbreyt. Í því eru ákvæði um, að skuldugir bændur skuli koma undir ákvæðin um vaxtatillag samkv. l. um vaxtatillag til bænda, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum veikinnar. Lögin eins og þau eru nú ákveða, að þeir einir, sem sannað hafa skuldir sínar fyrir skattan. í árslok 1937, verði aðnjótandi þessa vaxtatillags. En vegna þess að þetta ákvæði er orðið úrelt, þykir rétt að breyta því.

Að síðustu er smáákvæði um, að vegafé því, sem veitt er samkv. l., skuli ekki einungis varið til sýslu- og hreppavega, heldur einnig þjóðvega þar, sem það þykir af einhverjum ástæðum bezt henta.

Fleiri atriði eru ekki í frv., og vænti ég, að hv. d. veiti þessu máli afgreiðslu.