11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

79. mál, mæðuveikin

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það má einnig segja um þetta frv., sem hér liggur fyrir, eins og samnm. minn sagði um síðasta mál (frv. um loðdýrarækt og loðdýralánadeild), að það er komið frá hv. landbn. Nd. Þau atriði, sem hér liggja fyrir í frvformi, voru til meðferðar á síðasta Alþ. og það var rætt um þau milli landbn. beggja deilda Alþ., og varð það að samkomulagi, að frv. um þessi efni skyldi borið fram, en það náði ekki samþykki á því þingi. Það dagaði uppi í hv. Nd. Þetta frv. er hér um bil alveg shlj. því frv., er lá fyrir síðasta Alþ., og þar af leiðandi hefir landbn. Ed. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Þær breyt., sem þetta frv. fer fram á, að gerðar verði á þeim l., sem nú gilda um varnir gegn mæðiveikinni og stuðning til bænda vegna hennar, eru aðallega fólgnar í breyttu fyrirkomulagi um fjallskil og smölun heimalanda í einstökum tilfellum, til þess að gera það óbrotnara og hægara fyrir sveitarstjórnir og upprekstrarfélög að láta smalamennsku fara fram eftir því, sem hentast þykir og nauðsyn ber til vegna veiki þessarar.

2. gr. þessa frv. er aðeins um það, að heimila að fella niður 10 aura gjaldið, sem fellt hefir verið niður þar, sem mæðiveiki hefir geisað, einnig í þeim hreppum, þar sem garnaveiki hefir gert vart við sig. Það hefir komið fram, að víða væri mikill misbrestur á, að gerð væri gangskör að því að innheimta þetta gjald, en samt sem áður sá landbn. enga ástæðu til þess að fella það alveg niður, enda er þetta svo lítið gjald, að þá, sem eru svo heppnir að vera lausir við þessa fjárpest, á ekki að muna um að greiða það.

Þá er 3. gr. frv. Þar eru gerðar nokkrar breyt. á ákvæðum 1. um það, hvaða skuldir ætti að leggja til grundvallar, þegar bændum er veittur styrkur vegna tjóns af völdum mæðiveikinnar. Áður var það þannig, að styrkurinn var veittur eftir þeim skuldum, er taldar voru fram í árslok 1937 af búendum, en það gat ekki haldið þannig áfram, því að nú eru orðnar miklar breyt. á skuldum bænda, og sumir þeirra, er voru skuldlausir við árslok 1937, geta vel verið orðnir stórskuldugir nú. Aftur á móti var gerð sú breyt. á l., að einungis þær skuldir skyldu koma til greina í þessu sambandi, er hefðu verið stofnaðar vegna búrekstrar. Enda er það eðlilegt, að þeir menn, sem hafa varið fé sínu til útgerðar eða til kaupskapar, sem er alveg óviðkomandi búrekstri, og safnað skuldum vegna þess atvinnurekstrar, geti ekki komizt undir þessi ákvæði með slíkar skuldir.

B-liður 3. gr. gerir þá breyt. á ákvæðum gildandi l., að eftir eldri l. var aðeins heimilt að verja vegafé, sem veitt var til stuðnings bændum á mæðiveikisvæðunum, til sýslu- og hreppavega, en nú er einnig heimilað að verja því til þjóðvega. Breyting um þetta var borin fram þegar lögin voru samþ. 1938, en fyrir einhverja vangá varð það þannig, að breyt. var ekki gerð nema á annari gr. af tveim, sem breyta þurfti, svo að ekki var hægt að framfylgja l. þannig. Þessi brtt. setur inn í l. ákvæði um það, að einnig megi verja þessu fé til þjóðvega, ef heppilegt þykir.

4. gr. frv., er um það, að gefa heimild til að veita öðrum fjáreigendum en bændum fjárstyrk, ef þeir hafa beðið tjón af völdum mæðiveikinnar. Ég tel það ekki nema rétt og sjálfsagt að gera þá undanþágu, að aðrir fjáreigendur en bændur geti einnig orðið styrks aðnjótandi, en þó verður það náttúrlega að vera talsverðum takmörkunum bundið, og þegar um slíkt er að ræða, verður að haga sér eftir því, hvernig ástæður eru fyrir hendi í hvert skipti.

Að svo mæltu legg ég til f. h. landbn., að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.