12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

79. mál, mæðuveikin

Bernharð Stefánsson:

Ég hreyfði því í gær við hv. n., hvort hún vildi ekki athuga betur ákvæði 2. gr. um l0 aura gjald af hverri kind í þeim sveitum, sem ekki hafa orðið fyrir mæðiveiki eða garnaveiki. Nú kynni ég betur við, áður en til atkv. er gengið, að n. skýrði frá því, hvort hún hefir íhugað þetta. Skoðun mín, sem ég lýsti, er, að aftan við orðið „garnaveiki“ í 2. gr. eigi að bæta: eða annari skæðri fjárpest. — Ég mun bera fram skrifl. brtt. þess efnis, nema n. lýsi yfir því, að hún muni bæta úr þessu, en einskis slíks verður ennþá vart. Ég fullyrði, að til eru sveitir, sem lausar eru við garnaveiki og mæðiveiki, en hafa beðið tjón af öðrum pestum, svo að ekki er minna að tiltölu en af þeim drepsóttum, er ég nefndi. Ég sé engin rök fyrir því að mismuna sveitum landsins þannig. Till. mín er réttlætismál, og þó að segja megi, að hún yrði erfið í framkvæmd, sé ég ekki, að sú röksemd afsaki óréttinn. Mér er engin launung á því, að orsök þess, að ég skipti mér af þessu, er kunnugleiki minn á því, að svokölluð riðuveiki hefir í einni byggð í kjördæmi mínu drepið niður bústofninn í svo stórum stíl, að sumir bændur hafa misst þriðjung fjárins, og er það engu minni landplága í þeirri sveit en mæðiveikin, þar sem hún gengur. Mér þætti æskilegast, að hv. landbn. tæki málið upp, svo að ég þyrfti ekki að bera fram brtt. og taka þannig fram fyrir hendur hennar.