12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

79. mál, mæðuveikin

Bernharð Stefánsson:

Ég get viðurkennt ýmislegt af því, sem hv. 5. landsk. sagði. Það yrði ekki skemmtilegt viðfangs að fara að styrkja bændur vegna allra mögulegra fjárpesta. En ég talaði ekkert um styrk, heldur undanþágu frá skatti, þar sem skæðar fjárpestir hafa geisað, og það er ekkert nema réttlætismál, eins og hv. þm. viðurkenndi með þögninni. Mér finnst það mál ekkert flókið né röskun á lögunum, þótt brtt. mín verði samþ.

Annars má segja, að lítið þýði að vera að viðhalda þessum 10 aura skatti, þegar aðeins lítill hluti landsins er laus við fjárpestirnar. (ÞÞ: Það er annað mál). Ég skal ekki halda brtt. minni til streitu, ef n. vill fallast á, að málið verði tekið af dagskrá eða frestað um stund, til að leita samkomulags um þetta atriði. En ég get ekki fallið frá tillögu, sem er réttmæt, nema ef n. vill athuga þetta betur og ég megi búast við árangri frá henni.