11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

48. mál, eftirlit með sveitarfélögum

Skúli Guðmundsson:

Í 24. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að ráðh. sé heimilt að greiða úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga allt að 100 þús. kr. til þess að greiða fyrir skuldaskilum illa stæðra bæjar- og sveitarfélaga. Getur ráðh. ákveðið, að nokkur hlutinn sé lagður fram sem óafturkræfur styrkur, en nokkur hlutinn sem lán, sem sveitarfélagið á að endurgreiða ásamt vöxtum á tilteknum tíma. En í 36. gr. virðist mér vera allvíðtæk heimild til viðbótar þeirri, sem ég hefi nú nefnt, því að þar eru heimiluð fjárframlög til sveitarfélags af óskiptu fé jöfnunarsjóðs. 36. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú telur eftirlitsmaður, að tekjur sveitarfélags samkv. fjárhagsáætlun hrökkvi ekki til að standast útgjöldin, og er þá ríkisstjórn heimilt að ákveða, að sveifarfélaginu skuli veitt sú aðstoð er nægilegt megi teljast, og í því formi, sem ríkisstjórn ákveður, að þar til fengnum tillögum eftirlitsmanns sveitarstjórnarmálefna.“

Ef þetta verður samþ., er stj. veitt óákveðin heimild til þess að veita fjárstuðning til sveitarfélags, sem er undir eftirliti, og virðist mér, eins og þetta er orðað, lítil takmörk fyrir, hversu miklu fé megi verja í þessu skyni, og tel ég óheppilegt, að frv. sé afgr. þannig. Ég hefi því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 373, við 36. gr., um að gr. orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú telur eftirlitsmaður, að tekjur sveitarfélags samkv. fjárhagsáætlun hrökkvi ekki til að standast útgjöldin, og getur ríkisstjórn þá ákveðið, að nokkrum hluta þeirrar fjárhæðar, sem heimilt er að verja úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga samkv. 24. gr., skuli varið til styrktar sveitarfélaginu, að þar til fengnum tillögum eftirlitsmanns sveitarstjórnarmálefna.“

Mér hefir skilizt á hæstv. félmrh., að hann fyrir sitt leyti hafi ekkert við það að athuga, að gr. verði orðuð þannig, og vænti ég, að d. geti eins á það fallizt. Með því að samþ. brtt. er heimilað að verja ákveðinni upphæð á ári, 100 þús. kr., úr jöfnunarsjóði til stuðnings illa stæðum sveitarfélögum á einn eða annan hátt. Ég tel, að þetta ætti að vera fullnægjandi og ekki sé rétt að hafa heimildina viðtækari stj. til handa, því að ef frekari aðgerðir þarf á einhverjum tíma, þá væri miklu eðlilegra, að sett væri um það sérstök löggjöf.