11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

48. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég get staðfest það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði í ræðu sinni, að ég fyrir mitt leyti hefi ekkert við það að athuga, að brtt. hans á þskj. 373 verði samþ. Það eru í rauninni nánari fyrirmæli í þeirri gr. eins og hann vill orða hana en eins og hún var upprunalega orðuð, en það er af því, að þegar frv. var lagt fyrir síðasta þing, var þessi gr. nokkuð öðruvísi, en í samráði við meðráðh. mína og aðra, sem um þetta mál hafa fjallað, þá var þessari gr. breytt á þá leið, sem hún er nú í frv., en ég tel ekkert við það að athuga, að hún sé færð í það form, sem lagt er til í brtt. hv. þm. V.-Húnv.

Um brtt. allshn. á þskj. 409 er það sama að segja, að ég get lýst yfir, að ég er henni alveg sammála. Hefi ég rætt við hv. frsm. um það atriði og sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar. Það gæti valdið misskilningi orðalagið eins og það er í gr., að það yrði nokkuð mikið af hagfræðiskýrslum, sem kæmi til mála að safna eftir því orðalagi, sem er nú í frv., en ég tel, að þetta taki af öll tvímæli um, hvaða skýrslur það séu, sem félagsmálaráðuneytið á að safna til að vinna úr og hafa til athugunar út af aðgerðum í sambandi við fjárþröng sveitarfélaga.

Um brtt. á þskj. 402 sé ég ekki ástæðu til að ræða; hún verður ekki tekin alvarlega hvorki að efni né formi, eftir því sem mér virðist.