11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

48. mál, eftirlit með sveitarfélögum

Frsm. (Thor Thors):

Ég hafði ætlað mér að gera grein fyrir brtt. frá sjónarmiði allshn., en hæstv. félmrh. hefir að nokkru leyti tekið af mér ómakið. Ég vil þó geta þess um till. þá, sem n. flytur á þskj. 409, að hún er fram komin eftir tilmælum frá Hagstofu Íslands, sem taldi, að misskilja mætti gr. eins og hún er í frv. Ég get ekki verið á þeirri skoðun, að hætt hefði verið við misskilningi, en tel hinsvegar rétt að fullnægja óskum hagstofunnar með því að orða gr. eins og lagt er til á þskj. 409.

Um brtt. hv. þm. V.-Húnv. vil ég segja það, að n. getur ekki mælt með henni. Þessu frv. er skipt í kafla, sem eru nákvæmlega aðskildir, og sé ég ekki ástæðu til að rugla þeim saman eins og hv. þm. gerir. Takmarkanir þær, sem eru settar í 24. gr., eru að áliti n. nægilega ákveðnar til þess, að ekki þurfi að óttast þar misbeitingu. Í 24. gr. er sagt, að ráðh. sé heimilt að ákveða, að verja megi úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga árlega, þegar þess er þörf, allt að 100 þús. krónum til þess að greiða fyrir skuldaskilum illa stæðra sveitarfélaga. M. ö. o., það þarf að vera sérstök þörf fyrir hendi til þess að grípa megi til þess, og fjárhæðin má aldrei fara fram úr 100 þús. kr., og í þriðja lagi er nauðsynlegt, að sveitarfélag hafi farið því fram, sem ákveðið er í þessum kafla um fjárþröng sveitarfélaga, m. ö. o., þau verða að hafa ákveðið að leita aðstoðar ríkisvaldsins til skuldaskila, til þess að hægt sé að verja nokkurri upphæð í þessu skyni. Hinsvegar geta komið fyrir örfá atvik, þar sem nauðsynlegt kann að vera að verja nokkru meira úr jöfnunarsjóði, og eru um það ákvæði í III. kafla frv. Ég sé því ekki, að rétt sé að samþ. brtt. á þskj. 373, og tel hættulaust að hafa ákvæðin eins og þau eru nú í frv., því að takmarkanirnar eru svo ákveðnar samkv. eðli málsins.

Um brtt. á þskj. 402 get ég sagt það sama og hæstv. félmrh., að hún er ekki takandi alvarlega. Hún er að efni til um það, að eftirlitsmaður sveitarfélaga skuli þiggja þóknun af kaupanda eða leigjanda þeirra eigna sveitarfélags, sem hann sér um sölu eða leigu á. Þarf ekki að fjölyrða um, að slíkt getur ekki orðið lögfest. Það er vilji Alþ., að hann sé á föstum launum, sem Alþ. ákveður, en ekki að hann sé einskonar markaðsvara hjá þeim, sem kynnu að vilja leigja eða kaupa þær eignir, sem hann á að ráðstafa.