11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

48. mál, eftirlit með sveitarfélögum

Frsm. (Thor Thors):

Hv. þm. V.-Húnv. vildi vekja athygli mína á því, að hans brtt. ætti ekki við 24. gr. frv., heldur 36. gr. Ég vil líka vekja athygli hans á því, að hann segir í brtt. sinni: „... getur ríkisstj. þá ákveðið, að nokkrum hluta þeirrar fjárhæðar, sem heimilt er að verja úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga samkv. 21. gr., skuli varið til styrktar sveitarfélaginu ...“

Um leið og þetta er að formi brtt. við 36. gr., er það því að efni brtt. við 24. gr. Ef till. á að koma til framkvæmda, er hægt að taka af fé því, sem verja á til styrktar sveitarfélögum samkv. III. kafla, og nota það til styrktar þeim samkv. IV. kafla. 36. gr. er hrein neyðarráðstöfun, sem kemur ekki til framkvæmda fyrr en allt er þrautreynt. Ráðh. hefir heimild til þess að fyrirskipa að hækka fyrst og fremst allar tekjur sveitarfélaganna, áður en kemur til framkvæmdar á ákvæðum 36. gr., og ekkert sveitarfélag myndi taka við þeirri aðstoð, sem gr. gerir ráð fyrir, fyrr en í óefni væri komið, því að hún sviptir það öllu sjálfsforræði, þar sem ráðuneytið getur þá ákveðið um alla innheimtu tekna. Félmrh. getur þá vikið frá starfsmönnum sveitarfélaga, jafnvel oddvitum og borgarstjórum. Sjá því allir, hvílík takmörkun er á framkvæmd þessarar gr.