05.03.1940
Efri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og hv. 2. landsk. tók fram, er þetta frv. flutt af allshn. að minni tilhlutan.

Eins og fram kemur í grg., þá voru á sínum tíma sett ákvæði í 7. gr. l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi um það, að húsaleigu væri haldið niðri í kaupstöðum landsins.

Þessar ráðstafanir voru gerðar í samræmi við aðrar ráðstafanir, sem gera átti í sambandi við gengisbreytinguna, í því skyni að halda niðri dýrtíðinni. Eins og öllum er kunnugt, hefir síðan þetta var gert brotizt út stórveldastyrjöld og afleiðingar þeirrar styrjaldar hafa þegar komið í ljós hér á landi í mjög hækkandi verðlagi á lífsnauðsynjum. Ákvæði 7. gr. gengislaganna áttu hinsvegar aðeins að gilda til 14. maí næstkomandi.

Af þeim ástæðum, sem ég hefi nefnt, virtist mér einsýnt, að ekki mættu falla niður öll fyrirmæli út af húsaleigunni. Þess vegna var þetta frv., sem hér liggur fyrir, samið.

Frv. hefir verið athugað af húsaleigunefndinni í Reykjavík og því verið breytt í samræmi við þá reynslu, sem hún hefir fengið.

Frv. er að mestu leyti í samræmi við 7. gr. gengislaganna, að viðbættum nokkrum fyllri fyrirmælum um ýmis atriði, sem sett voru í frv., samkvæmt fenginni reynslu undanfarinna mánaða. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að rekja efni frv. Hinsvegar vil ég taka það fram, að ég teldi það óvit að hafa ekki til fyrirmæli í löggjöfinni, sem fyrirbyggðu, að hægt væri að okra á húsaleigunni. Það er auðsætt, að þeir tímar fara í hönd, sem lítið verður um byggingar. Má því gera ráð fyrir, að eftirspurn eftir húsnæði aukist, en jafnframt verður auðveldara fyrir húseigendur að setja upp leiguna í skjóli skorts á nægilegu húsnæði. Ég ætla því, að ekki orki tvímælis, að nauðsyn beri til að setja löggjöf um þetta. Hitt getur verið ágreiningsatriði, hvernig sú löggjöf eigi að vera, en af fenginni reynslu þykir mér sem það líti svo út, að hægt verði með slíkum fyrirmælum sem felast í frv. þessu að ná þeim tilgangi, sem til er ætlazt, — að halda niðri húsaleigunni í kaupstöðunum. Það má vel vera, ef stríðið stendur lengi, að þá þurfi frekari aðgerða við í húsnæðismálunum, en eins og stendur virðist mér að þetta frv. muni geta náð tilætluðum árangri.

Ég mundi að sjálfsögðu taka með fegins hendi við leiðbeiningum frá d. um þær breyt. á frv., sem til hins betra þættu horfa, því vel má vera, að benda megi á ýms atriði í frv., sem betur mættu fara. Myndi ég að sjálfsögðu taka slíkar till. til athugunar.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um frv. Þar sem það er flutt af allshn. og hún hefir lesið það rækilega yfir, virðist mér ekki ástæða til að vísa því til n. Ef hinsvegar brtt. kæmu fram, væri æskilegt, að allshn. fengi þær til athugunar. Vildi ég gjarnan eiga við hana samráð um brtt., sem fram kunna að koma.