05.03.1940
Efri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

42. mál, húsaleiga

Bernharð Stefánsson:

Það verða nú víst margir sammála um það, að nauðsynlegt sé að setja húsaleigulög til að tryggja það, að ekki verði okrað á húsaleigunni, á meðan á styrjöldinni stendur, En þótt menn séu sammála um þetta og það sé góðra gjalda vert, að þetta frv. er fram komið, þá er það jafnvíst, að það er mikill vandi að setja slík l., þannig að ekki sé hallað á réttindi manna og hag.

Ég hefi ekki lesið þetta frv. svo vandlega, að ég sjái mér fært að leggja dóm á hvert einstakt atriði þess, en samt sem áður vildi ég mega beina til n., sem flutti málið, fáeinum aths., því ég teldi heppilegustu vinnubrögðin vera þau, að brtt. komi frá n., en ekki frá einstökum þm.

Það, sem mér finnst í fyrsta lagi athugavert við frv., er hið skilyrðislausa bann við því, að húsaleiga megi hækka frá því, sem er, þegar l. öðlast gildi. Er þetta sérstaklega með tilliti til þess, að viðhald húsanna hvílir á húseigendum, en þetta viðhald er dýrt og fer síhækkandi. Mér fyndist því rétt, að í frv. væri sett ákvæði um það, að húsaleigan mætti hækka í hlutfalli við það, sem viðhaldskostnaður hækkaði.

Ég veit að vísu, að ákvæði eru um það í frv., að leita megi úrskurðar húsaleigunefndar um húsaleigu. En eftir frv. að dæma virðist þetta aðeins eiga að vera í einstökum tilfellum. Aðalreglan virðist eiga að vera sú, að húsaleiga megi ekki hækka. Ef þetta væri haft svona, hlytu þeir húseigendur, sem þurfa að láta gera við hús sín, að verða fyrir tjóni, en það eru raunar öll hús, sem þurfa árlegt viðhald.

Í öðru lagi sakna ég ákvæða um það í frv., hvernig að skuli fara, ef ákveðin hlunnindi hafa fylgt húsnæði, t. d. upphitun. Ég veit dæmi þess, að húseigendur, sem hafa leigt hús sín með þeim skilyrðum, að upphitun fylgdi, hafa litið svo á, að þessu mætti ekki breyta fyrr en 14. maí, samkvæmt gengislögunum. Þessir menn hafa því leigt íbúðir í húsum sínum með upphitun fyrir sama verð og var áður en gengislögin gengu í gildi, þrátt fyrir hina miklu verðhækkun, sem orðið hefir á kolum. Ég tel, að nauðsynlegt sé að hafa ákvæði um þetta í l.

Í þriðja lagi vil ég vekja athygli n. á ákvæðum 2. gr. frv., þar sem heimilað er að segja leigjanda upp húsnæði, ef húseigandi þarf á húsnæðinu að halda til eigin afnota. Mér finnst, að um þetta þyrfti að setja einhverjar nánari reglur en gert er í frv.

Inn í l. þurfa að koma ákvæði um það, að leigjandi mætti skjóta því til úrskurðar húsaleigunefndar, hvort um virkilega þörf húseiganda væri að ræða til þess að segja leigjanda upp húsnæði. Mér þótti nú hlýða að beina þessum atriðum til hv. allshn., og vona ég, að hún hafi tekið eftir því og taki þetta til athugunar, ef hún er mér sammála um þessi atriði. Það myndi spara mér að bera fram brtt. við þetta frv., því að það geri ég að sjálfsögðu að öðrum kosti. Mér þætti vænt um að fá svar frá allshn. sem fyrst.