11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

42. mál, húsaleiga

Bernharð Stefánsson:

Hv. allshn. hefir í fyrri brtt. sinni komizt að sömu niðurstöðu og ég benti á við 1. umr., hvort sem mínar bendingar hafa valdið þessu eða ekki. Þó er eitt atriði, er ég minntist á við 1. umr., sem hv. n. hefir ekki tekið til greina. Það var í sambandi við ákvæði 2. gr. frv., viðvíkjandi því, ef húseigandi segði upp húsnæði undir því yfirskini, að hann ætlaði að nota það handa sjálfum sér eða vandamönnum sínum, en svo væri ekki, heldur vildi hann losna við leigjandann. Í 4. gr. frv. eru að vísu ákvæði um það, að ágreiningur, sem rísa kann út af uppsögn húsnæðis, megi koma til úrskurðar húsnæðisn., en mér finnst þetta samt tæplega nógu tryggilega um búið. Það gæti komið fyrir, að ekki væru fyrir hendi full gögn um það, hvaða þörf leigusali hafi haft á því að taka húsnæði af leigjanda, og væri oft ekki hægt að ganga úr skugga um það fyrr en á flutningadegi. Leigjandi hefir t. d. ekki í fyrstu tortryggt þetta og svo útvegað sér annað húsnæði. Mér finnst, að betur verði að vera um þetta búið, án þess að ég sé undir það búinn að segja nákvæmlega til um, hvernig þessu ætti að haga.

Ég gerði ráð fyrir því, meðfram vegna samtals míns við nm., að allar þær aths., sem ég gerði við 1. umr., yrðu teknar til athugunar í n. Nú langar mig til að vita, þar sem hv. frsm. gat þess ekki, hvort hv. n. ætlar að taka þetta sérstaka atriði til athugunar eða hefir þegar gert það.