11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég ætla aðeins að segja örfá orð vegna ræðu hv. 1. þm. Reykv. Í ræðu hans mætti segja, að kæmi fram skefjalaus „liberalismi“ eða jafnvel „anarkismi“, sem stundum hefir heyrzt í þingsölum og öðrum opinberum vettvangi frá hans flokki. Þessi yfirlýsta skoðun hv. þm. og flokksbræðra hans virðist vera sú, að láta hvern og einn um það að berjast fyrir lífinu og koma sér áfram sem bezt hann getur. En þeim dettur ekki í hug að taka tillit til þess, þó að aðstæðurnar geti skapað mönnum misjafna möguleika til sigurs í hinni þrotlausu baráttu fyrir lífinu. Það, sem hver og einn ber úr býtum að leikslokum, ber honum með réttu, og aðrir hafa ekkert tilkall til þess.

Grundvöllurinn undir þessari löggjöf, sem farið er fram á, að sett verði, er sá, að menn geti ekki notað sér neyðarástandið í landinu til þess að geta grætt á því. Það er sérstaklega verið að verja þá, sem umkomulitlir eru, gegn því, að ástand það, sem skapazt hefir á þessum örðugu tímum, verði misnotað. Þetta er meiningin með frv., er hér liggur fyrir. Eins og hv. 2. landsk. þm. benti á, hefir á síðari tímum þótt nauðsynlegt að lögfesta verðlag á ýmsum innlendum vörum og hafa eftirlit með verðlagi innfluttra vara. Orsökin til þessa var sú, að búast mátti við, að menn notuðu sér möguleikana til að græða á vörunni. Eftir þeirri hugsun, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv., ætti ekkert að vera athugavert við það, þó að framleiðendur úti á landi notuðu sér markaðinn í Reykjavík og sprengdu upp verðlagið á innlendum afurðum. Það liggur í augum uppi, að verðlagið þarf að lögfesta, svo að hagur fárra einstaklinga víki fyrir heill fjöldans.

Ég vil, eins og hv. 1. þm. Reykv., láta nokkrar almennar aths. fylgja þessu frv. hér í þessari hv. d. Hv. þm. sagði, að ekkert hefði skeð, þegar gömlu l. voru numin úr gildi á sínum tíma. Það kann að vera rétt hjá hv. þm., en í raun og veru er það enginn mælikvarði á gildi þeirra, sem ekki er hægt að efast um, að var mikið. Að minnsta kosti voru þau ekki numin úr gildi fyrr en komið var það tímabil, þegar byggingar risu óðfluga upp í Reykjavík og eftirspurnin eftir húsnæði varð minni en framboðið. Þess vegna er ekkert undarlegt, þó að engir stórviðburðir ættu sér stað í sambandi við afnám húsaleigulaganna. Ef það kæmist fljótlega friður á og byggingar færðust í venjulegt horf fyrr en búizt verður við, þá munu margir telja, að ekki sé ástæða til að halda l. í gildi. Ég fyrir mitt leyti er á því, að það ættu alltaf að gilda húsaleigul. í landinu, enda er það víða svo í borgum og bæjum erlendis, að á „normal“ tímum gilda ákveðin fyrirmæli um leigu á húsnæði. Ég er þeirrar skoðunar, að slík l. ættu að gilda hér, ekki eins og þetta frv., heldur almenn fyrirmæli í löggjöf landsins, sem tryggðu hag leigusala og rétt leigutaka, þar sem hægt væri að koma í veg fyrir, að annarhvor aðilinn misnoti aðstöðu sína.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ekki hefðu komið fram neinar aðstæður, sem væru þess valdandi, að rétt væri að setja slík l. Eins og hv. 2. landsk. benti á, þá er því fyrst til að svara, að ef það var rétt að setja ákvæði um húsaleigu inn í gengisl. frá því í apríl 1939, þá er vissulega ekki minni ástæða til að hafa þau nú, eftir að þeir atburðir hafa gerzt í heiminum, sem öllum eru kunnir. Ég veit það líka af viðtali við þá menn, sem starfað hafa í húsaleigunefnd í Rvík, að þeir hafa í störfum sínum getað komið í veg fyrir óeðlilega hækkun á húsaleigu í einstökum tilfellum. Ég tel þess vegna, að húsaleigunefndin hér í Rvík og fasteignamatsnefndir sumstaðar úti um landið hafi unnið mjög nytsamt starf frá því að l. voru upphaflega sett.

Sami hv. þm. sagði, að 1. myndu koma í veg fyrir, að hús væru byggð. Ég ætla, að það sé hæpin skoðun að halda því fram, að slík l. komi í veg fyrir byggingar. Það eru því miður aðrar ástæður, sem koma í veg fyrir húsbyggingar. Ég ætla, að þessi l., með skynsamlegri framkvæmd, ættu ekki að koma í veg fyrir byggingar. Ég ætla, að með l. sé ekki á þann hátt gengið inn á hagsmuni húseigenda, að þeir geti ekki staðið straum af húsum sínum.

Hv. 2. landsk. minntist á það atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. drap á, að þessi l. giltu eingöngu fyrir Reykjavík. Þetta er misskilningur. Það er aðeins annað skipulag á nefndarstörfunum úti um landið en í Rvík. Það, sem réð því, að þetta var sett í frv., var það, að ég var þeirrar skoðunar, að ekki væri ástæða til að setja upp nýja nefnd í fámennum bæjum, a. m. k. ekki fyrst um sinn, heldur væri rétt að láta fasteignamatsnefndirnar inna af hendi þau störf, sem húsaleigunefndinni eru ætluð í Rvík. Ég veit að fasteignamatsnefndirnar hafa sumstaðar haft veruleg afskipti af þessum málum, og þær hafa sumstaðar starfað eins og húsaleigunefndin í Rvík. Ég er sammála hv. 2. landsk., að ef menn telja, að það sé brýn nauðsyn að hafa sérstakar n. í öðrum kaupstöðum, þá sé ekki nein ástæða til að vera á móti því. Ég álít aðeins, að það sé ekki sérstök þörf á því nú.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það væri leitt, að þessi l. væru þannig úr garði gerð, að þau byðu upp á að vera brotin með samkomulagi aðila. Ég held nú, að varla séu sett nokkur 1., sem séu svo úr garði gerð, að ekki sé unnt að brjóta þau, ef samkomulag er um það milli þeirra aðila, sem hlut eiga að máli. En það er fjarri lagi, að skirrast eigi við að setja löggjöf, þótt möguleikar séu fyrir hendi að brjóta hana, ef hún er þörf, jafnvel þótt einhverstaðar megi komast í kringum hana, sumpart vegna þess að henni sé ekki nógu röggsamlega framfylgt, og sumpart vegna þess, að sá slappleiki er til hjá vissum mönnum í þjóðfélaginu, að vilja brjóta l. Þótt þessi möguleiki sé fyrir hendi, þá er það ekki nægilegt atriði á móti umbótalöggjöf yfirleitt.

Ég vildi aðeins út af gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Reykv. láta þessar gagnstæðu skoðanir við skoðanir hans koma fram við þessa umr.