11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

42. mál, húsaleiga

*Magnús Jónsson:

Ég get ekki komizt hjá að gera nokkrar aths. við ræðu hv. 2. landsk.

Mér finnst það einkennilegt í munni hv. 2. landsk., þegar hann sagði, að það væri óeðlilegt, að menn fengju meiri afrakstur af því, sem þeir hafa lagt í húseignir, þó aðrir fái hækkað kaup. Mér sýnist, að þar sem allt verðlag hefir hækkað, eins og hv. þm. sagði, þá eigi þeir menn, sem hús eiga, rétt á að fá meira til að lifa á. Ég sé ekki, hver munur er á manni, sem vinnur, og manni, sem kannske er svo hniginn að aldri, að hann getur ekki fengizt við almenna vinnu, en á eign í húsi, sem hann lifir á. Mér sýnist hann eiga sama rétt og aðrir til þess að fá meira, þar sem allt er orðið dýrara. Verkamenn og aðrir sem laun hafa, krefjast hækkunar, og þeir eiga að fá hana. Þessir menn krefjast hennar líka, en þeir eiga bara ekki að fá hana.

Ég vil spyrja: Hvernig á sá maður, sem hefir haft 2 þús. kr. árstekjur með þessum hætti, að komast af, þegar allt stórhækkar? Ef hann aflaði þessara tekna á einhvern annan hátt, þá fengi hann hækkun, en af því að hann á hús, þá á hann ekki að fá meira. Ég sé þó ekki annað en hann eigi að fá hækkun. Það er ekki verið að tala um, að menn okri á eignum sínum. Eignin er orðin meira virði að krónutali eftir öllu verðlagi í landinu, svo að það er ekki nema eðlilegt, að eigandinn fái hærri vexti: Húseigendur eiga rétt á því, að eignir þeirra séu ekki rýrðar með löggjöf.

Ég vil segja hv. 2. landsk. og hæstv. félmrh., að það getur komið að því einhvern tíma, að menn byggi ný hús, og skulum við taka sem dæmi, að maður byggi hús, sem áður myndi hafa kostað 100 þús. kr., en kosti þá l50 þús. kr. Ef maður byggir svona hús, þá verður hann að fara til n., og getur þá verið, að n. hækki húsaleiguna, svo að hann fái þessi 11%, sem talið er, að menn þurfi að fá af húsi, ef menn eiga að hafa nokkurn veginn tekjur af því fé, sem þeir leggja í hús. Þá er komið tvennskonar verð á húsum. Ef n. neitar að hækka leiguna, þá byggja menn alls ekki, og það hygg ég, að niðurstaðan verði alltaf af þessum 1., að það verði ekki hægt að byggja. Þótt hæstv. félmrh. ætli, að l. komi ekki í veg fyrir byggingar, ef þau eru skynsamlega framkvæmd, eins og hann sagði, þá stendur í l., að húsaleigan megi ekki hækka. Hvernig á að byggja hús, þegar þau bera sig ekki? Það var það, sem ég ætlaðist til, að hæstv. ráðh. svaraði. Það hefir ekkert að segja, hvað hæstv. ráðh. hyggur, því ef leigan má ekki hækka, þá kemur það í veg fyrir, að hús verði byggð. Eftir gömlu l. var allt annað viðhorf. Þá var mat á leigunni. Þegar hún var komin það hátt, að það svaraði til kostnaðarverðs af húsum, þá var farið að byggja aftur og þá voru l. orðin óþörf.

Hv. 2. landsk. og hæstv. félmrh. voru að minnast á gengisl. og sögðu, að ef það hafi verið forsvaranlegt að setja ákvæði um húsaleigu inn í þau, þá sé ekki síður ástæða til að setja slík ákvæði nú. Ég var nú að vísu ekki með því að setja þau þá, en það er þó dálítill munur þar á. Ég man ekki betur en þá væri bannað að hækka verð á innlendum afurðum, og það var fleira, sem var bannað. Það var m. ö. o. verið að gera alvarlega tilraun til þess að halda verðlaginu niðri. Nú er m. a. fyrir tilstuðlan þess hv. þm., sem búinn er að kveðja sér hljóðs næst á eftir, búið að hækka verð á innlendum afurðum. Þegar allt er hækkað, þá er ekki rétt að taka eitt undan og segja, að það megi ekki hækka.

Hæstv. félmrh. sagði, að í minni ræðu hefði komið fram sá skefjalausi liberalismus eða anarkismus, sem sérstaklega einkenndi mig. Ef svo er, þá er bara það að segja, að hann er í okkar stjórnarskrá. Hún verndar eignarrétt manna, en það má afnema eignarréttinn gersamlega með því að halda áfram að setja svona ákvæði. Slíkt er í rauninni ekkert annað en skefjalaust stjórnarskrárbrot, þegar sett eru ákvæði, er gera mönnum ómögulegt að hagnýta sér eignir sínar. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir skefjalausan liberalismus, sem er í samræmi við stjórnarskrána. Ég álít, að ekki eigi að leggja höft á athafnir manna að nauðsynjalausu.

Hæstv. ráðh. sagði, að þessi 1. væru sett til þess, að menn notuðu sér ekki neyðarástand. Ég skal vera með í því. Við skulum taka t. d. verðlag á vörum. Það dettur engum í hug að halda því fram, að einhver álnavara eigi alltaf að hafa sama verð og hún hafði fyrir stríð. Þetta eru hliðstæður, og ef varan mætti ekki hækka, þá væri heldur ekki hægt að flytja hana inn.

Við getum verið samanála um það, að koma eigi í veg fyrir okur. Það mætti setja nefnd, sem væri látin meta leiguna í húsum, og ég held, að það væri rétt fyrir mig, ef þetta frv. á að ganga áfram, að bera fram brtt. í þá átt.

Hæstv. ráðh. sagði, að í blöðum míns flokks hefðu komið ónotaorð út af því, að verð á innlendum afurðum hefir hækkað, og þess hefði verið krafizt, að séð væri um, að þær hækkuðu ekki. Það getur vel verið, að eitthvað hafi komið í þessa átt, ég man það ekki svo vel. En hæstv. ráðh. ætti að hafa það í huga, að þessar vörur eru ekki alveg frjálsar. Þær eru skipulagsbundnar, og það þýðir ekkert fyrir hann að vera að vitna í það, þótt menn kvarti undan verði þeirra, þegar mönnum er samtímis bannað að bjarga sér. Það er ekki þannig, að menn séu sjálfráðir, hvar þeir kaupa mjólk eða kjöt. Menn kvarta, þegar þeim er skipað að kaupa þessar vörur með ákveðnu móti og líka skammtað verð á þær. Sannleikurinn er sá, að við erum hér inni í skipulagningarflækjunni, og það er ákaflega rökrétt hjá hæstv. félmrh., þegar hann segir, að hann vilji alltaf hafa húsaleigul. Hann talar þar eins og sá skefjalausi skipulagningarmaður. Hann vill, að hið opinbera skipti sér af öllu. Ég man eftir, að ég sagði einu sinni í gamni, að það myndi ekki líða langt þangað til, að maður yrði að tilkynna að morgni, hvar maður ætlaði að vera allan daginn. Ég er viss um, að það mætti færa skysamlegar ástæður fyrir því, að slíkt ætti að gera.

Ég skal svo ekki tefja hv. d. með því að karpa lengur um þetta mál. Við höfum skipzt á skoðunum á báða bóga. En það er eitt meginatriði, sem stendur eftir, og hvorki hv. 2. landsk.hæstv. félmrh. hafa gert grein fyrir, en það eru þau áhrif, sem þessi l. hafa á húsbyggingar.

Ég ætla ekki að blanda hér inn í máli, sem liggur þó nærri, en það er flutningur fólks úr sveitum í kaupstaði. Ég get þó sagt hv. þm. það, að þetta er mikið innlegg í því máli. Það er mikið atriði, þegar allt hækkar í verði, að hægt sé að fá húsnæði í bæjunum fyrir lágt verð. Það getur verið, að það eitt ráði ekki úrslitum, þegar ákvörðun er tekin um slíkt, en það er þó verulegt atriði.