12.03.1940
Efri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

42. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það var bara eitt atriði, sem mig langar til að benda hv. allshn. á, áður en hún tekur málið til athugunar milli 2. og 3. umr. Hér er gert ráð fyrir, að í Reykjavík sé húsaleigunefnd, sem meti húsnæði til verðs eða leigu, en annarstaðar á landinu skuli fasteignamatsnefndir gera þetta og haga sér í þeim efnum eins og lagt er fyrir húsaleigunefndina. Þetta þótti hv. 1. þm. Reykv. (MJ) óeðlilegt, eitt ætti að ganga yfir alla. Það hefir nú samt komið fyrir, að hann hefir viljað hafa ein lög fyrir Reykvíkinga, önnur fyrir landsmenn, sem fjær búa, og mætti minna hann á skattinn á samgöngur til Hafnarfjarðar. Það er ætlazt til, að kostnaður af húsaleigumati greiðist úr ríkissjóði. Að vísu er þetta ekki tekið fram nema um n. í Reykjavík, í 3. gr., en sama hlýtur að gilda um kostnað annarstaðar. Nú vil ég benda á þau vandkvæði í framkvæmd þessara fyrirmæla, að víða verða fasteignamatsmenn að ferðast langar leiðir til þessara starfa, t. d. í Norður-Ísafjarðarsýslu innan úr Djúpi út í Hnífsdal eða Bolungarvík, tvær dagleiðir, eða í Suður-Múlasýslu, þar sem tveir af fasteignamatsnefndarmönnunum verða að fara 1–2 dagleiðir, ef meta skal leigu í húsi á Djúpavogi. Vegna kostnaðar og örðugleika held ég því, að það sé dálítið varhugavert að skylda fasteignamatsnefndir til þessa starfs. Það er athugandi, hvort ekki sé heppilegra að fela bara úttektarmönnum hreppanna að fella úrskurði í þessum málum. Þegar ágreiningur rís, kannske hvað ofan í annað í sama þorpinu, getur það orðið býsna útdráttarsamt að kalla þangað fasteignamatsnefndina í hvert skipti.