18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

42. mál, húsaleiga

*Magnús Gíslason:

Herra forseti! Þegar þetta frv. var til umr. í allshn., og var það þangað komið frá hæstv. félmrh., sem hafði óskað eftir því. að n. flytti það, var ég í miklum vafa um — það verð ég að játa — hvort ég ætti að gerast flm. þess ásamt meðnm. mínum eða ætti að gera sérálit um málið. Það var sérstaklega út af því, að hér væri a. m. k. í sumum greinum verði að setja í l. það, sem ég tel ekki nauðsynlegt, eins og nú standa sakir, að setja l. um. Eftir þeim upplýsingum, sem allshn. fékk, þá er eins og nú stendur ekki hörgull á húsplássi, og hér í Reykjavík má fólkinu fjölga nokkuð til þess að veruleg húsnæðisvandræði verði. Hitt er annað mál, að fráleitt er, að nokkuð verulegt verði reist af nýjum húsum í náinni framtíð. Það er ekki útlit fyrir, að það ástand, sem nú ríkir í heiminum, sé bráðlega úr sögunni, heldur getur maður búizt við, að það standi enn lengi, og þá rekur sjálfsagt að því, ef fólksfjölgunin heldur áfram, að eftir nokkurn tíma verði þörf á meira húsnæði. Þess vegna geng ég út frá því, að þó að þessi l. yrðu ekki sett nú, þá myndi ekki líða á löngu þar til nauðsynin myndi krefjast þess. Þess vegna var ég með því að flytja þetta frv. ásamt meðnm. mínum.

Aðalhættan við þessi l. mun líka, að því er mér hefir virzt, vera í því fólgin, að þegar því ástandi, sem hefir skapazt, léttir af eða dregur úr því, þá hættir mönnum, eins og síðast þegar húsaleigul. voru sett, við að halda of lengi í þessa lagasetningu. Þegar möguleikarnir verða aftur til að flytja inn byggingarefni og reisa hús, verður það allt af hálfu þess opinbera, sem hægt er að taka upp aftur byggingar. Það var ekki gert síðast, þegar húsaleigul. voru sett, en það getur farið svo, að slík löggjöf yrði beinlínis til að vinna móti því, að gott skiplag komist á þessi mál. Það verður að treysta því, að þeir, sem með völdin fara í þessu landi, þegar að því kemur, að heilbrigt ástand fer að skapast og möguleikar verða fyrir hendi til að byggja, muni líta eftir því, að þessi lagaákvæði verði ekki til þess að hindra það.

Um einstakar brtt. vil ég aðeins minnast á þær, sem eru á þskj. 134. Ég er samþykkur fyrri brtt., sem aðallega er í því fólgin, að í staðinn fyrir fasteignamatsnefndir í bæjum skuli úttektarmenn í hreppum ásamt hreppsnefndaroddvita gegna þeim störfum, sem með l. þessum eru lögð undir húsaleigun. í Reykjavík. Því verður sjálfsagt ekki neitað, að í stórum umdæmum eiga fasteignamatsnefndir erfitt með að ákveða húsaleigu á ýmsum stöðum, nema með því móti að ferðast á milli, og það getur orðið of kostnaðarsamt og of þunglamalegt í framkvæmdinni. En um síðari brtt. er það að segja, að við hana hefi ég borið fram skrifl. brtt. þess efnis, að stimpilgjald af húsaleigusamningum skuli vera 3 kr. fyrir hvern samning, í staðinn fyrir 2 kr., sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 134. Ég vil aðeins geta þess, að það getur orkað nokkurs tvímælis, hvort rétt sé að breyta stimpilgjaldsl. með þessari löggjöf, sem má gera ráð fyrir, að sé tímabundin. Hér er um mjög róttækar breyt. að ræða frá þeim ákvæðum, sem nú gilda, þar sem húsaleigusamningar eru nú stimplaðir með 25 aurum fyrir hverjar 100 kr. og auk þess sérgjald, sem er sett 40% af upphæð stimpilgjaldsins. Ef húsaleigan er ákveðin í samningnum 1200 kr. á ári, verður stimpilgjaldið samkv. gildandi l. 4.20 kr. En vitanlega er þetta gjald miklu hærra, þar sem um dýrara húsnæði er að ræða, t. d. skrifstofur, verzlunarpláss o. s. frv., sem stundum er leigt fyrir mörg hundruð kr. á mánuði, stundum jafnvel yfir 1000 kr., og þar er stimpilgjaldið töluverð fjárhæð. Það er því um verulega tekjurýrnun fyrir ríkissjóð að ræða, ef slíkir samningar eiga að stimplast með svo lágu gjaldi sem gert er ráð fyrir í síðari brtt. á þskj. 134. Auk þess gera l. ráð fyrir því, að ef samningar gilda aðeins óákveðinn tíma, skuli stimpilgjaldið tífaldast. Í mörgum tilfellum eru húsaleigusamningar ekki gerðir um ákveðinn tími, heldur er venjulega samið um óákveðinn tíma með vissum uppragnarfresti, og þá er stimpilgjaldið tífalt hærra en annars, og sé húsaleigan 100 kr. á mánuði, og samið um óákveðinn tíma, er stimpilgjald fyrir slíka samninga nú 30 kr., að viðbættum 40% af þeirri upphæð, sem verður alls 42 kr. En samkv. brtt. á þskj. 134 er gert ráð fyrir, að stimpilgjaldið verði 2 kr., án tillits til þess, hvort samningurinn er tímabundinn eða ekki. Hér er um mjög víðtækar breyt. að ræða frá gildandi ákvæðum stimpilgjaldsl. Hitt skal ég játa, að í þessu tilfelli, eins og um mörg önnur gjöld, þegar Alþ. er að ná tekjum inn í ríkissjóðinn, hefir vafalaust verið skotið yfir markið. Það er mál manna, að hér í þessum bæ komi tiltölulega lítið af leigusamningnum til stimplunar, og eftirlitið með því er lítið, þar sem ekki þarf að þinglýsa þeim, og erfitt að hafa eftirlit með því. Það er þess vegna álitamál, hvort breyta ætti þessum l. þannig, að ákveða fast gjald fyrir stimplun þessara samninga og hve hátt það ætti að vera, en til þess þyrfti að fara fram endurskoðun á stimpilgjaldsl. í heild sinni. Þó að ég sé í sjálfu sér á móti því, að gerðar séu breyt. á skattalöggjöfinni með sérstökum l. eins og hér er gert ráð fyrir, get ég ekki fallizt á það, því að væntanlega stendur þessi löggjöf ekki mjög lengi, að ákveðið sé fast gjald fyrir stimplun leigusamninga, því að það getur líka orðið til þess, að ríkissjóður fái tiltölulega fleiri samninga stimplaða, en áður en það er ákveðið, vil ég leggja til, að gjaldið sé hækkað upp í 3 kr. úr 2 kr., án tillits til gengishækkunar á stimpilgjaldi. Þetta tel ég ekki ósanngjarnt.