18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vildi aðeins minnast nokkrum orðum á þær brtt., sem fram eru komnar. Þeim hefir verið lýst hér í d. og talað fyrir þeim af flm. Brtt. á þskj. 134 eru fluttar af meiri hl. allshn., og mér skildist á ræðu hv. 11. landsk. (MG), að hann væri þeim fylgjandi í meginatriðum, og ég vil segja um þær brtt., sem komu frá allshn., að ég hygg, að þær séu til bóta, og get mælt með því, að þær næðu fram að ganga. Það kann að vera nokkurt málsatriði, hvaða stimpilgjald af húsaleigusamningum sé sanngjarnt, og hefir hv. 11. landsk. (MG) því borið fram brtt. um að hækka það frá því, sem ákveðið er samkv. till. á þskj. 134, úr 2 kr. upp í 3 kr. En í því sambandi vil ég benda á það, að þó að það yrði samþ., mundi það samt verða mikið tap fyrir ríkissjóð frá því, sem verið hefir, án þess að ég vilji mæla móti þessari till., því að í sjálfu sér finnst mér, að segja mætti sitt hvað um báðar till. Um þessar brtt. sé ég að öðru leyti ekki ástæðu til að fjölyrða.

Brtt. á þskj. 134,1 er heimild fyrir ríkisstj. til að setja fullkomnari reglugerð um aðra skipan á húsaleigun. í bæjum og kauptúnum með 300 íbúum og fleiri, fyllri heldur en veitt er í frv. Það má telja sennilegt, að það eigi eftir að koma í ljós, þegar reynsla fæst um framkvæmd þessara l., að kaupstaðir utan Reykjavíkur þurfi að hafa aðra skipun á þessum málum en að láta fasteignamatsmenn eina um það fjalla. Ég álít sjálfsagt að prófa fyrst í stað að láta fasteignamatsmenn sjá um þetta, þó ekki væri af annari ástæðu en að spara með því kostnað, en ef það gæti ekki fallið saman við störf fasteignamatsmanna, er gott, að ríkisstj. sé veitt sú heimild til að breyta því, sem lagt er til á þskj. 134,1.

Út af brtt. á þskj. 125 vil ég taka það fram, að ég er fyrir mitt leyfi algerlega andvígur fyrri liðnum, staflið a. og b. Stafliður a. fjallar um það, að húsaleigun. geti tekið tillit til almennrar verðhækkunar fram yfir það, sem telja má viðhaldskostnað húsanna. Ég tel, að með þessu sé málið leyst úr öllum böndum og orðalaginu hagað þannig, að húsaleigun. séu óglögg takmörk sett. Ef ætti að framkvæma l. þannig, yrði sú framkvæmd næsta hæpin. Mér virðist engin ástæða til þess, að húseigendur, sem hafa komið upp húsum með gamla verðinu, fái að hækka húsaleiguna sérstaklega, þó að verðlag hafi yfirleitt hækkað, annað en það, sem þarf til viðhalds. Það er eðlileg öryggisráðstöfun fyrir fátækasta hluta fólksins að halda niðri dýrtíðinni í landinu, m. a. með því að halda húsaleigunni sem allra mest niðri, án allra beinna útláta og óréttlætis í garð húseigenda. Ég mun telja sjálfsagt að taka tillit til hækkunar viðhaldskostnaðar á húsum og hækka húsaleiguna fyrir þær sakir. En fyrri brtt. á þskj. 125 tel varhugavert að samþ. og mjög hætt við, að framkvæmd hennar yrði hæpin, mismunandi og handahófskennd, ef slík heimild væri í l. sem felst í a.-lið.

Um b.-lið er það að segja, að ég tel líka mjög hæpið að samþ. hann. Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki skilja, að nokkur maður léti einhleypingsherbergi lúta reglum, sem húsaleigun. setur. Hann vill, að þau falli utan við reglugerð húsaleigun. yfirleitt. Ég er samt annarar skoðunar um þetta. Í fyrsta lagi er engin ástæða til þess, frá almennu sjónarmiði séð, að húseigendur fái fremur rétt til að hækka húsaleigu fyrir einhleypingsherbergi en íbúðir. Það þarf eins að vernda hagsmuni einstakra manna sem fjölskyldna fyrir því, að dýrtíðin og aukin eftirspurn á húsnæði verði ekki misnotuð með því að hækka húsaleiguna. Margir einhleypingar, eiga ekki við góð kjör að búa, og margir þeirra eru fyrirvinnur eða styrktarstoðir náinna aðstandenda sinna. Það má því segja um fjöldann allan af einhleypingum, að það sé alveg eins réttlátt og eðlilegt að vernda hagsmuni þeirra fyrir of hárri húsaleigu eins og hagsmuni fjölskyldumanna. Námsmenn sækja mjög mikið til Reykjavíkur, og þegar dýrtíðin hefir vaxið eins mikið sem nú er orðið, er sannarlega ekki of mikið gert fyrir þann flokk námsmanna, sem margir eru fátækir menn, er sækja til náms af litlum efnum utan af landinu til Reykjavíkur og annara kaupstaða, þó að þeir gætu búizt við að hafa einhverja vörn í l. gegn hækkun á húsaleigu yfirleitt.

Það er líka annað í þessu sambandi, sem ég tel vafaatriði. Ef þetta ákvæði yrði samþ., myndi verða alveg tilvalið tækifæri til að brjóta 1. margfaldlega og fara kringum höfuðfyrirmæli þeirra. Það myndi sjálfsagt skapa tilhneigingu að nota það yfirskin, að einhverjum hluta af fjölskyldunni væru leigð einhleypingsherbergi, sem l. um húsnæði næðu ekki til. Þau gætu komið því þannig fyrir, t. d. foreldrar með börn, að hafa sjálf eitt herbergi, en börn þeirra eða aðrir aðstandendur hefðu á sérleigu 2–3 önnur herbergi, er féllu eigi undir þessi fyrirmæli. Ef brtt. hv. 1. þm. Reykv. yrðu samþ., þá væri alveg hægt að hækka húsaleiguna eftir vilja og geðþótta húseigenda, a. m. k. yrði það hæpin leið til þess að koma í veg fyrir það misrétti, sem þessi löggjöf á að fyrirbyggja. (MJ: Ef fjölskyldumenn vilja fara þannig kringum l. til þess að borga meira, þá geta þeir það.) Maður þekkir marga harðsvíraða húseigendur, sem nota sér neyð fólksins, er myndu segja sem svo: Þið gömlu hjónin hafið lítið herbergi og eldhús, en hitt fólkið einhleypingsherbergi, og þið komizt ekki inn í húsið að öðrum kosti. Ef vandræði yrðu fyrir fólkið að fá húsnæði, myndi það e. t. v. sæta þessum afarkostum. (MJ: Ætli þeir geti þá ekki komið sér saman um að finna einhverja aðra aðferð? Það er alveg ástæðulaust að vera að benda mönnum á, hvernig þeir geti farið í kringum l.) Fjöldi einhleypra manna, námsmanna og annara, er mjög illa staddur, og það er engin ástæða til að nota sér neyð þessa fólks með því að hækka húsaleigu á íbúðum einhleypinga.

Hvað það snertir að það myndi verða erfitt í framkvæmdinni að bera oft upp fyrir húsaleigun. nýja leigusamninga, þá er það ekki svo stórt atriði, að það sé svaravert. Mörg herbergi eru leigð yfir alllangan tíma, og þó að menn þurfi að borga 2–3 kr. í stimpilgjald þegar leigjendaskipti verða, álít ég það svo lítinn annmarka á l., að það sé ekki teljandi. Sjónarmiðið, er liggur til grundvallar fyrir þessum l., er að halda niðri dýrtíðinni og hjálpa þeim, sem eiga erfitt með að kosta sig sjálfir með sínum lágu tekjum og standa í skilum með greiðslur. Ég held, að tiltölulega lítil óþægindi geti orðið af þessu fyrir húseigendur.

Um brtt. á þskj: 125,2 get ég tekið undir það, sem hv. frsm. n. sagði, að úr því að till. er komin fram, er rétt að samþ. hana, því að vafasamt er, hvort það atriði felist í frv. eins og það er nú, þótt að vísu muni svo vera, enda í samræmi við ótvíræðan réttar-„praxis“. Margir fógetaréttarúrskurðir eru til fyrir því, að segja megi slarksömu fólki upp húsnæði, ef það hefir mikinn hávaða eða hagar sér á annan hátt ósæmilega, svo að af því stafa óþægindi fyrir aðra íbúa hússins. En það sakar aldei, þó að þetta sé skýrt tekið fram, og tel ég því þennan lið til bóta og að rétt sé að samþ. þessa gr.