18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

42. mál, húsaleiga

*Magnús Jónsson:

Ég veit ekki, hvort það hefir verið athugað viðvíkjandi þessu stimpilgjaldi, að ef það er hækkað upp í 3 kr., þá myndi stimpilgjaldið aukast á ódýrari íbúðum. Það sýnist vera dálítið einkennilegt, að þegar gjaldið er fært svona mikið niður á stórum íbúðum, þá er það um leið hækkað á þeim minnstu. Ég held þess vegna, að það ætti að standa, að fasta gjaldið sé allt að 3 kr., svo að ef það ætti samkvæmt stimpilgjaldsl. að vera undir 3 kr., þá eigi það að vera svo áfram. Við skulum segja, að leigan sé 50 kr.; þá á stimpilgjaldið samkvæmt l. að vera 2.10 kr., en ekki 3 kr. Ég veit ekki, hvort 40% viðaukinn nær í þetta, en ef svo er, þá er hér um verulega hækkun að ræða á lægstu samningunum, sem eru til eins árs. Ég mun þess vegna afhenda hæstv. forseta skriflega brtt. við brtt. á þskj. 134 þess efnis, að í staðinn fyrir „2 kr.“ komi; allt að 3 kr.

Við hæstv. félmrh. og hv. frsm. n., sem var honum sammála, þýðir ekkert að ræða. Þar er ekkert til annað en ástin á höftunum.

Hæsv. ráðh. sagði, að við værum komnir út á hálan ís, ef 1. till. mín væri samþ. Þessi háli ís og þessi mikla hætta er ekkert annað en það, sem er á valdi n. Það getur vel verið, að hæstv. félmrh. vilji gefa henni þennan vitnisburð fyrirfram, að allt fari í handaskolum, sem hún gerir. Ég get þó sagt honum það, að húsaleigunefndin gamla varð fljótlega svo glögg á þetta, að hver íbúð fékk verð í huga hvers nm. svo að segja um leið og þeir litu á hana. En þá mátti líka n. meta hverja íbúð. Ég þykist vita, hvernig þetta yrði framkvæmt, ef mín till. yrði samþ. Það myndi verða þannig, að leigan stæði föst í gömlu húsunum, en það væru svo að segja öll þau hús, sem nú eru í Rvík. Leigan gæti aðeins farið að hækka, þegar það sýndi sig, að menn skirrðust við að byggja ný hús, af því að menn gætu ekki fengið þá leigu, sem gæti borgað vexti af peningunum, sem í húsin fara, en þá væri leigan líka hækkuð til samræmis í þeim húsum, sem væru svo ný, að þau væru sambærileg við nýju húsin.

Ég vil segja hæstv. félmrh. og öðrum, sem fylgja honum, að þeir eiga alltaf eftir að svara, hvernig þeir geti búizt við, að ný hús komi upp í bæjunum, ef þetta frv. verður að l. eins og það er nú. Hæstv. ráðh. sagði eitthvað á þessa leið við 2. umr.: Ég hygg, að húsum muni verða komið upp. Þó hyggjuvit hans sé mikið, þá er það þó ekki svo mikið, að menn þurfi engin önnur rök. Hann er ekki svo spakur, að ekkert annað geti komið til greina en það, sem hann spáir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvaða möguleika hann hugsar sér á því, að menn muni reisa ný hús undir þessum l. til þess að leigja út. Ég get skilið, að það geti komið fyrir, að menn reisi prívat hús handa sjálfum sér, en að menn byggi eingöngu til að leigja út, það skil ég ekki, að geti komið fyrir. Eða hvað hefir hann í bakvasanum til þess að geta látið menn byggja ný hús? Það á að meta húsaleigu í þeim, en hún hlýtur að verða hærri en í öðrum húsum, svo að aðstaðan til að leigja þau verður miklu verri en í hinum eldri húsum. Hún er þess vegna dálítið einkennileg þessi dæmalausa umhyggja fyrir öllum, en nær þó ekki til þeirra, sem þurfa nýjar íbúðir og eiga eftir að stofna heimili, en það munu vera um 200 á ári hér í Rvík. Engum má segja upp, nema fyrir vanskil, og engum dettur í hug að byggja ný hús. Ef mín brtt. verður samþ., þá setur hún þetta í það horf, sem það var í með gömlu l., sem þóttu þó full stíf. Þau voru þó þannig, að nýbyggingar hófust.

Hv. 11. landsk. talaði um, að hann hefði getað verið með í því að flytja frv., af því að hér væri ekki að ræða um nema bráðabirgðaráðstöfun. Það mun þó sýna sig, að hér er ekki að ræða um neina bráðabirgðaráðstöfun, heldur mun þetta harðna alltaf meir og meir, því fólkinu fjölgar, en húsunum ekki.

Það er náttúrlega hægt að reyna að stimpla mig sem fulltrúa húseigenda, en ég hefi ekki neitt meiri áhuga fyrir hag húseigenda en leigjenda. Ég vil líta á beggja hag, þannig að ef l. eru sett um þetta, þá sé komið í veg fyrir okur, og það sé sett á vald húsaleigunefndar, hvað sanngjörn leiga sé talin á hverri íbúð.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, þangað til ég fæ svar við því, hvernig þessir góðu menn hugsa sér, að viðbót komi við húsnæði það, sem til er í bænum.

Ég sé, að það er meiningin, að allt sé blýfast, að því er snertir einstök herbergi. Það er m. ö. o. alvara að verja einhleypa fólkið líka. Ég hafði þó talið, að þessi l. ætti aðallega að setja til þess að vernda fjölskyldufólkið, því sannleikurinn er sá, að það er einhleypa fólkið, sem eyðir peningum. Það er óhætt að segja, að mest af því orði, sem fer af Reykjavík fyrir eyðslu, stafar af einhleypa fólkinu. Menn spyrja: Hvernig geta bíóin alltaf verið troðfull og hvernig getur fólk alltaf sótt skemmtanir? Ég hygg, að þessi aðsókn stafi að verulegu leyti frá einhleypa fólkinu.

Ég vil leyfa fjölskyldufólki, sem á erfitt með að komast af, að fá tækifæri til að hækka leigu þeirra herbergja, sem það leigir út frá sér, fyrir utan það að fólk þrengir meira að sér, ef það getur fengið ríflega húsaleigu fyrir einstök herbergi. Þau herbergi, sem verða á boðstólum, verða færri, ef mín brtt. verður ekki samþ. Mér hefir verið bent á, að það væri kannske réttara að orða það þannig, að það væru einstök herbergi, sem leigð væru út frá íbúðum, þar sem sá möguleiki væri fyrir hendi, að menn byggðu hús með einstökum herbergjum, en ég álít ekki nema eðlilegt, að þesskonar húsnæði komi undir l.

Ég skaut því fram hjá hæstv. ráðh., þegar hann var að benda á, hvernig fara mætti kringum 1. með því að taka t. d. 5 herbergja íbúð og láta það heita svo, að krakkarnir tækju 3 herbergin, að það væri óhugsandi, að nokkur maður reyndi að fara kringum 1. til þess að fá að borga meira fyrir íbúðina en annars. En yfirleitt eru litlar líkur til, að l. nái til þeirra, sem koma sér saman um eitthvað. Ef einhver kemur sér saman við einhvern annan, sem er í vandræðum, og hann lofar að borga meira fyrir íbúðina, þá eru hundrað aðferðir til þess að komast í kringum l., ef hinn kærir ekki.

Ég þykist nú sjá, að það eigi að taka einstök herbergi undir l., svo ég læt mér þetta nægja.

Hv. frsm. n. minntist á þá einu ástæðu, sem gæti komið til greina í þessum efnum, að það væri erfitt að skilgreina, hvað væru einstök herbergi, því að maður gæti hugsað sér, að einhver leigði einstakt herbergi, en fengi að elda úti á gangi. Ég skal játa, að þesskonar gæti komið til greina, en ég held satt að segja, að fjölskyldur, sem gera slíkt, en það er yfirleitt ekki gert nema út úr neyð, mættu fá dálítið hærri leigu fyrir. Ég vil, að þessi l. séu yfirleitt sett til þess að vernda fjölskyldur, sem eiga erfitt með að komast af og vilja mikið á sig leggja til þess að lækka sína húsaleigu með því að leigja út frá sér.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta brtt. með tilmælum um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.