18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það voru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 1. þm. Reykv.

Hann kvartaði undan því, að við fyrri umr. hefði ekki verið svarað þeirri spurningu hans, hvernig mér og öðrum gæti dottið í hug, að húsbyggingar ættu sér stað í bænum eftir að slík 1. væru sett. Þótti honum mitt svar ófullnægjandi, þar sem ég sagði, að það myndu verða aðrar ástæður, sem yrðu þess meir valdandi, að menn byggðu ekki ný hús. Ég held líka, að það sé mála sannast, að það verði allmikil tregða á því, að menn byggi ný hús á svona dýrum tíma, alveg án tillits til löggjafar um húsaleigu. Ef sleppt væri nú samt því atriði og menn vildu samt sem áður byggja, þá kemur að því atriði, sem hv. þm. taldi, að riði baggamuninn, en það væri löggjöf eins og þessi, svo að menn myndu samt hætta við að byggja. Ég er á allt annari skoðun en hv. þm. um þetta. Ef menn vilja byggja hús þrátt fyrir mikinn aukinn byggingarkostnað og fá innflutningsleyfi fyrir efni, þá er ekkert það í þessum l., sem ætti að vera hindrun gegn því, að menn reistu hús.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að leigan sé metin í nýjum húsum, og auðvitað er gert ráð fyrir, að húsaleigunefndin meti þá leigu á þá lund, að þeir, sem byggja, geti leigt húsin út sér að skaðlausu.

Þá segir hv. 1. þm. Reykv., að það verði tvennskonar leigumáti, dýrari í nýjum húsum og ódýrari í eldri húsum, sem byggð voru áður en byggingarefni og allur kostnaður hafði aukizt. Þetta er rétt, að það gæti að því leyti myndazt tvennskonar leiga í mjög skyldum húsum. Ég býst nú við, að ef um húsnæðisvandræði væri að ræða, þá myndu þeir, sem húsnæði þurfa, ekki setja fyrir sig að flytja inn í nýjar íbúðir, þótt þær væru lítið eitt dýrari, og það sérstaklega fyrir þá sök, að þessi l. gera það að verkum, að það verður miklu minna um breyt. á leigu en áður var.

Ég skal játa, að það er ekkert skemmtileg hugsun, að þeir, sem þurfa á nýju húsnæði að halda, skuli þurfa að borga fyrir það meira en margir aðrir leigutakar, en við því er ekkert hægt að gera. Það er enginn sælli, þótt hann viti, að meðbræður hans verði líka fyrir miklum útgjöldum, eins og hann sjálfur. Það eru víst fáir, sem hugga sig við það, að allir aðrir þurfi að sæta sömu kostum og þeir sjálfir. Þegar þetta er skoðað út frá sjónarmiði þjóðfélasheildarinnar, þá verður að vernda hinn stóra hóp eins vel og hægt er, en hina er ekki hægt að vernda fyrir hækkaðri húsaleigu, þar sem leigan verður að vera hærri í nýju húsnæði. Ég býst við, að sá húsnæðisskortur, sem hlýtur að koma upp, ef stríðið verður langvinnt, geri það að verkum, að það verði ekkert torvelt fyrir menn að leigja út frá sér.

Þá hefi ég svarað spurningu hv. 1. þm. Reykv., hvort sem hann er ánægður með svarið eða ekki. (MJ: Ég er óánægður með það).

Út af þeirri aths. hv. þm., að það væri ekki allt leyst úr böndunum, ef samþ. væri a-liður 1. brtt. hans, því böndin væru samt sem áður til staðar, þar sem væri vald húsaleigunefndar til þess að ákveða leiguna, þá er því að svara, að húsaleigunefnd er eftir till. hv. þm. gefið undir fótinn með það að hækka gamalt húsnæði til samræmis við hinn aukna kostnað við að lifa í landinu. Það væri m. ö. o. þannig, að húsaleigan hækkaði jafnmikið yfirleitt eins og aðrar nauðsynjavörur manna hækkuðu í verði. En það er einmitt tilgangurinn með frv., að hindra það, að þessi nauðsynjavara, sem húsnæðið er, hækki svo í verði að ástæðulausu, eða eins og þarf að hækka þær vörur, sem eru aðfluttar. Ef slíkar till. væru samþ., þá er þar með kippt öllum stoðunum undan þeim till., sem felast í frv.

Um einhleypingsherbergi og þá till. hv. þm., sem beint er að þeim, þarf ég ekki að segja neitt frekar en áður hefir verið gert. Það kom ekkert fram í ræðu hv. þm., sem hnekkti þeirri röksemd minni, að engin ástæða væri til að sleppa hendinni af einhleypingsherbergjunum og láta þau hækka upp úr öllu valdi. Það er ekkert réttlæti í því í sjálfu sér, auk þess sem aðrar fullgildar ástæður mæla með því, að tillit sé tekið til einhleypinga, en ég læt mér nægja að vísa til þess, sem ég hefi áður sagt um það atriði.