18.03.1940
Efri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

42. mál, húsaleiga

*Ingvar Pálmason:

Ég vil náttúrlega ógjarnan, að málið tefjist öllu lengur, og vil ekki stuðla að því, en gat ekki varizt því að benda á þetta. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að það er óviðkunnanlegt, að húsaleigusamningar, sem breytt er um 4 sinnum á ári, séu borgaðir 4 sinnum með 2 kr. gjaldi, jafnvel af 15 kr. herbergjum. Þetta er ekki af því, að hér sé ekki um lítið atriði að ræða, heldur verður ákvæðið að vera alveg skýrt, og það er í þessari gr. tekið skýrt fram, að ákvæði laga frá 1921 komi ekki til framkvæmda. Þess vegna verður ákvæðið að vera alveg skýrt. (MJ: Það gæti orðið 8 kr. stimpilgjald af 15 kr. herbergi, en 2 kr. af 500 kr. íbúð.) Þetta er rétt, ef maður á að hlynna að því, að þessar íbúðir verði leigðar sem oftast út. En ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. verður samþ., dregur það mikið úr, og ég vildi láta skeika að sköpuðu með það, ef eitthvert ósamræmi kemur inn í, og verðum við þá að treysta því, að það verði lagað í Nd. En það sjá allir, að ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. verður samþ., þá er engin ástæða til að koma með brtt. við þessa till. okkar, enda ákaflega erfitt að synda fyrir öll sker.