05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

42. mál, húsaleiga

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti! Á síðasta ári, þegar sú ákvörðun var tekin, að fella gildi íslenzku krónunnar, þá var jafnframt fyrirhugað af ríkisstj. og Alþ. að gera ráðstafanir til þess, að dýrtíðin ykist ekki fyrir allan almenning í sama hlutfalli og krónan félli. Í þessum tilgangi voru sett ákvæði í 7. gr. l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, þar sem svo er fyrir mælt, að leiga eftir húsnæði megi ekki hækka, og jafnframt var bannað að segja upp leigusamningum af hálfu húseigenda, nema þeir þyrftu sjálfir að nota húsnæðið. Þá voru sett ákvæði um skipun 3 manna húsaleigunefndar, þar sem ríkisstj. tilnefndi 2 menn og sá þriðji var útnefndur af hæstarétti, og var hann oddamaður. Þessi lög gilda til 14. maí 1940. Á þessu þingtímabili hefir hinsvegar orðið sú breyting, að styrjöld hefir brotizt út, og af henni hefir leitt aukna dýrtíð, þrátt fyrir það þótt stjórnarvöldin hafi með ýmsum ráðstöfunum reynt að halda dýrtíðinni niðri. Af þessari ástæðu hefir á þessu þingi verið borið fram frv. til laga um húsaleigu, þar sem tekið er upp ákvæðið úr 7. gr. tilgreindra laga frá síðasta ári um húsaleigu, og í þessi lög er það einnig tekið upp, að ómögulegt er að hækka leigu eftir húsnæði eða segja húsnæði upp. Hinsvegar eru í þessu frv. ýms fyllri ákvæði heldur en í 7. gr. laganna frá fyrra ári. Það er sá munur á þessu frv. eins og það er nú og 7. gr. l. frá síðasta Alþingi, að nú er heimilt að hækka húsaleigu eftir mati húsaleigunefndar, ef sýnt er, að viðhaldskostnaður hefir aukizt, og skattar og vaxtabyrðar hafa aukizt, og einnig ef sýnt er fram á, að húsnæðið sé leigt lægra en tilsvarandi húsnæði á sama stað. Þessi ákvæði eru bein afleiðing af þeirri miklu dýrtíð, sem hefir risið upp. Eftir því sem ég hefi fengið upplýsingar um hefir orðið frá því styrjöldin byrjaði 80% hækkun á timbri, 85% á sementi, 82% á málningarvörum og vinnu, veggfóður hefir hækkað um 40% og raflagningarvinna og efni um 46%, þannig að það leiðir af sjálfu sér, að það verður að veita húseigendum heimild til þess að hækka húsaleigu í samræmi við það efni, sem þarf til viðhalds húsnæðinu. Í Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur hafa komið fram tilmæli um, að húsaleigunefndinni væri veitt heimild til þess að leyfa að hækka húsaleiguna að einhverju leyti í samræmi við grunntöluna, sem heimiluð er, þannig að húseigendur gætu hækkað húsaleiguna sjálfir. Allshn. hefir haft þetta atriði sérstaklega til athugunar og hefir ekki treyst sér til þess að setja þetta ákvæði inn í. Hinsvegar leiddi þetta til brtt. um, að hækka megi húsaleigu eftir mati, ef um vaxta- og skattahækkanir eða annað þess háttar er að ræða. M. ö o. húsaleigunefndin hefir þarna frjálsari hendur heldur en gert er ráð fyrir í frv.

Í 6. gr. er húsaleigunefnd gert að skyldu að kynna sér svo vel sem unnt er allt, sem getur haft áhrif á húsaleigu, og taka til athugunar húsaleigu almennt. Með þessu telur allshn., að grundvöllur sé fundinn fyrir því, að húseigandi geti fengið það aftur hjá leigutaka, sem hann þarf að kosta meiru til en áður. Ef allshn. hefði haft það alveg opið fyrir húsaleigunefnd að hækka húsaleigu í réttu hlutfalli við hækkun vísitölunnar, mundi ekki vera neitt það aðhald til þess að halda húsaleigu niðri, sem tilheyrir og verður að réttlætast af því ástandi, sem nú ríkir. Það má jafnvel segja, að ef þetta ákvæði væri sett inn í frv., væru þessi húsaleigulög alveg gagnslaus. M. ö. o. alveg eins og engin lög hefðu verið sett. Allshn. hefir þess vegna reynt að fara þarna bil beggja og taka tillit til hvorstveggja, bæði þess að halda húsaleigu niðri, eftir því sem frekast er hægt, og hinsvegar að taka fullt tillit til þeirrar hækkunar, sem orðið hefir á efni og vinnu, sem húseigendum er skylt að leggja til, og það er í þessu skyni, sem húsaleigunefnd á að hafa óbundnar hendur, þannig að þetta fari eftir mati hennar í hvert einstakt sinn.

Ég vil taka það fram, að það er misskilningur hjá stjórn Fasteignaeigendafélagsins, að það þurfi að taka fram um það í lögunum, að sú lækkun, sem þurfi að gera á leigunni, gildi frá gildistöku l. frá 1939. Stjórn Fasteignaeigendafélagsins fer fram á, að þetta komi til framkvæmda frá 4. apríl 1939. Þetta er byggt á misskilningi. Það, sem kemur til álita fyrir húsaleigunefndina, er það, hvenær húsaleigusamningurinn er gerður. Ef maður hefið komið í húsnæði fyrir 4. apríl 1939 og situr í því enn, og húseigandi hefir orðið að kosta svo og svo miklu upp á þetta húsnæði, á húsaleigunefnd að taka það til greina, hvenær húsnæðið var tekið á leigu og með hvaða leigu. Ef hinsvegar að samningurinn hefir verið gerður t. d. fyrir nokkrum dögum, hefir væntanlega verið tekið tillit til þeirrar verðhækkunar, sem orðin er, þ. e. húsaleigunefnd verður að taka tillit til þeirrar verðhækkunar, sem orðin er, þegar leigutaki kemur í húsnæðið.

Allshn. hefir gert eina breyt. við frv. frá því, sem það var, þegar það kom inn í þingið, og er hún á þá leið, að lögin taki ekki til leigu á einstökum herbergjum, sem húseigandi eða leigutaki leigir út frá sinni eigin íbúð. Einn nm. skrifaði undir þetta atriði með fyrirvara. Mér skilst það vera rétt, að láta ekki þessi ákvæði ná til herbergja, sem leigð eru út frá íbúðum. Ég geri ráð fyrir því, að jafnframt því, sem dýrtíðin vex, muni fjölskyldur reyna að þrengja að sér eins og þær geta, og fólk muni leigja út frá íbúðum sínum eitt og eitt herbergi, sem það annars mundi nota sjálft. Mér finnst ekki nema sanngjarnt, að húsaleiga sé, hvað snertir þessi herbergi, óbundin, og tel enga hættu á því, að leigan fyrir þau hækki svo mjög, þótt leigan nái ekki til þeirra, af því að það hefir sýnt sig, að hér í Reykjavík hefir verið ótakmarkað framboð á einstaklingsherbergjum, og ef fjölskyldur þrengja nú meira að sér, verður framboðið meira en áður, og afleiðingin sú, að leigan hækkar ekki. Ég held líka, að ríkisstj. eða félmrh., sem lét flytja þetta frv., hafi upphaflega ekki ætlað sér að láta lögin ná til einstakra herbergja, og er það vegna þess, að hækkun eða lækkun á samkv. 1. gr. ekki, að koma til framkvæmda nema 14. maí eða 1. október, en flutningsdagar einstakra herbergja eru alls ekki miðaðir við þetta. Það er aðeins fyrir íbúðir, að ekki er hægt að segja upp nema 14. maí eða 1. október, en herbergjum er hægt að segja upp hvenær sem er með ½ mán. fyrirvara. Ég held þess vegna, að það hafi ekki verið meiningin, að þetta næði til þessara herbergja.

Í 2. gr. frv. segir, að húseiganda sé óheimilt að segja upp húsnæði, nema hann þurfi á því að halda fyrir sjálfan sig, eða vegna vanskila og annara samningsrofa, eða ef leigutaki fremur eitthvað það, sem geri húseiganda óþolandi að hafa hann í húsum sínum. Þessu höfum við viljað breyta þannig, að hann geti sagt leigutaka upp, ef það er verulega óþægilegt fyrir húseiganda að hafa leigutaka í húsum sínum, og verður það að vera eftir mati húsaleigunefndar í hvert skipti, hvort það telst verulega óþægilegt.

N. hefir flutt till. um það, að húsaleigunefnd verði skipuð á sama hátt og áður, að ríkisstj. tilnefni 2 menn og hæstiréttur einn, í staðinn fyrir það, sem frv. gerir nú ráð fyrir, að Alþýðusambandið tilnefni einn mann, Fasteignaeigendafélag Reykjavíkur einn og hæstiréttur einn. N. hefir skilizt, að það fyrirkomulag, sem hefir verið á þessu, hafi reynzt vel, og hygg ég, að allshn. hefðu borizt bréf um það, ef óánægja hefði verið með skipun n. eins og nú er, og hefir n. þess vegna ekki séð ástæðu til þess að breyta til. Það er frekar hægt að búast við verulegum ágreiningi, ef n. er skipuð frá Alþýðusambandinu — fulltrúi þess mundi telja sig umboðsmann leigutaka — og manni frá húseigendafélaginu, sem mundi telja sig umboðsmann þeirra, heldur en ef hún er skipuð þrem óvilhöllum mönnum.

Með þessum breyt., sem ég nú hefi lýst, vill allshn. mæla með því, að frv. verði samþ.