05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

42. mál, húsaleiga

Skúli Guðmundsson:

Í lögum um gengisskráningu, sem sett voru fyrir ári síðan, var sett ákvæði um, að óheimilt væri að hækka húsaleigu, en þau ákvæði ganga úr gildi í næsta mánuði, og er þetta frv. nokkurskonar framhald af þeim lögum, til þess að koma í veg fyrir, að húsaleiga hækki í náinni framtíð. Þetta er mjög nauðsynlegt. En í 1. gr. þessa frv. eru ákvæði um það, að í vissum tilfellum megi hækka húsaleigu frá því, sem nú er, og er þar svo fyrir mælt, að hækka megi eftir mati leigu eftir húsnæði sökum aukins viðhaldskostnaðar, eldsneytiskostnaðar, og vaxta og skattahækkunar af fasteignum. Það kann nú að vera svo um þessa liði, að erfitt sé að gera sér grein fyrir því, hve mikið húsaleiga eigi að hækka vegna þeirra. Um viðhaldskostnað er það algild regla, að húseigendur kosta viðhaldið. Ég tel mikið vafamál, að þetta sé heppilegt. Við vitum, að hirðing og umgengni er ákaflega mismunandi góð, og teldi ég rétt, að það væri leigjandinn, sem ætti að kosta viðhaldið og greiða þeim mun lægri húsaleigu, en það þarf ekki að gera ráð fyrir breytingu á þeirri venju, sem gilt hefir í þessu efni. Það getur orðið dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því, hvað á að leyfa mikla hækkun á húsaleigunni vegna aukins viðhaldskostnaðar. Allshn. hefir lagt til, að inn í þessa gr. yrði skotið orðunum „og þess háttar“. Ég vil taka undir þau orð hæstv. félmrh., að varhugavert sé að bæta þessu inn í, þar sem frsm. hefir ekki bent á neitt sérstakt, sem hafi vakað fyrir n. í þessu sambandi. Ég tel varhugavert að opna þarna leið til að hækka leiguna. Það er ekki gott að segja, hvaða afleiðingar það kynni að hafa. Ég held líka, að upptalningin í 1. gr. sé svo tæmandi, að húseigendur tapi ekki á því, þótt hún verði látin standa óbreytt. Eins og frsm. tók fram, hefir orðið verðhækkun á byggingarefni, en ég tel, að það þurfi að fyrirbyggja, að hækkuð verði leiga á íbúðum í eldri húsum með tilliti til verðhækkunar á byggingarefni, sem leiðir til þess, að þau hús, sem kynnu að verða byggð nú, yrðu miklu dýrari en eldri hús. Þetta tel ég, að þurfi að koma í veg fyrir. Ennfremur vil ég leggja á móti því, að b-liður brtt. á þskj. 338 verði samþ., þar sem ég tel hans ekki þörf, og varhugavert getur verið að setja þetta inn í gr., eins og hæstv. ráðh. hefir bent á.