05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

42. mál, húsaleiga

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hv. þm. veit sjálfur, að það, sem talið er upp í 1. gr., er ekki tæmandi. Það getur ýmislegt komið þarna til greina. Skattstjórinn skilgreinir til dæmis öðruvísi viðhald á húsi og eignaaukningu. Það getur komið fyrir ýmislegt, sem ekki er hægt að telja upp í lagagrein tæmandi, og orðin „þess háttar“ vísa til þess, að það, sem þarna er tekið til, á að vera eitthvað af svipuðu tagi og það, sem á undan er talið. Það er til dæmis útilokað, að sú almenna verðhækkun geti komið þarna til greina. Svo er það annað, að þetta er að engu leyti hættulegt, vegna þess að það fer eftir mati húsaleigunefndar, hvort leigan eigi að hækka.