01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

40. mál, alþýðutryggingar

Helgi Jónasson:

Ég vil aðeins segja örfá orð. Ég bar fram frv. á þinginu í fyrra, sem var að mestu leyti hið sama og nú liggur hér fyrir, en þó hefir verið gerð töluverð breyt. á einni gr. þess, 8. gr.

Í frv. því, sem ég flutti í fyrra, var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. bæri ein allan kostnað af kynsjúkdómum og berklaveiki, eins og henni ber nú samkv. gildandi l. Nú hefir frv. verið hreytt þannig, að gengið er nokkuð til móts við þetta, þannig að jafna sjúkrasamlögum upp hallann, sem þau hafa af þessum sjúkdómi, ef þau verða þar sérstaklega hart úti, en ég hygg, að það kunni í framtíðinni að standa fámennum sjúkrasamlögum fyrir þrifum og jafnvel hindra að þau verði stofnuð, ef þetta ákvæði verður samþ. Það þarf ekki nema einn eða tvo sjúklinga í fámennu sjúkrasamlagi, sem hafa berklaveiki, til þess að koma samlaginu í fjárþröng, jafnvel þótt ríkissjóður greiði það, sem fram yfir er meðaltal legudaga sjúklinga með aðra sjúkdóma, þar sem legudagafjöldi berklasjúklinga er sem svarar 29 dögum á hvern samlagsmeðlim. Fámenn sveitasamlög geta alls ekki staðizt það að greiða 29 legudaga fyrir hvern meðlim sinn, þótt þau fengju endurgreitt það, sem fram yfir er. Í 30. gr. l. er það líka skýrt tekið fram, að ríkissjóður skuli áframhaldandi greiða kostnað af berklasjúklingum og kynsjúkdómasjúklingum. Hvað snertir kynsjúkdómasjúklinga, þá er það stranglega bannað í l. að gefa upp nöfn þeirra, því það þykir heldur lítilsvirðandi að hafa fengið þá sjúkdóma, en ef ekki er hægt að halda nöfnunum leyndum, eins og erfitt yrði innan sjúkrasamlaganna, þá myndi það leiða til þess, að sjúklingarnir leituðu síður læknis, en það er mjög áríðandi. Það er líka þannig með berklasjúklinga og kynsjúkdómasjúklinga, að ríkið hefir greitt fyrir þá fyrst og fremst vegna þess, að þeir eru svo hættulegir öryggi almennings, og þess vegna er líka sanngjarnt, að það geri það áfram.

Ég mun samt ekki koma fram með brtt. um þetta að svo stöddu, þar sem ég býst við, að hún myndi mæta andbyr hér í hv. d., þar sem ég tel þó skárra, að frv. nái fram að ganga í því formi, sem það nú er, heldur en að þessi kostnaður verði allur settur á samlögin.