02.04.1940
Neðri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

40. mál, alþýðutryggingar

*Haraldur Guðmundsson:

Ég er ekki alveg viss um, að hv. þm. geri sér fulla grein fyrir því, hvaða þýðingu þessi brtt. hefir. Samkv. 49. gr. alþýðutryggingarl. er gert ráð fyrir því, að tryggingarskylda nái einnig til þessara sjóða. Þar er svo ákveðið, að þeir, sem eru meðlimir í eftirlaunasjóði, eigi að fá endurgreidd iðgjöld, sem greidd eru til sjóðsins. Þetta svarar til þess, sem greitt er vegna trygginganna, sem eftirlaunasjóður veitir. Það, sem er umfram, eru ekki tryggingariðgjöld, heldur skattur, sem lagður er fram til trygginganna. Meðaliðgjald hér í Reykjavík er í kringum 15 kr. Það er því í raun og veru það tryggingargjald, sem hverjum manni ber að greiða. En vegna hinna, sem greiða minna en þetta, greiða þeir, sem meiri tekjur hafa, heldur meira, svo að greiðslan nemur 13 kr. til jafnaðar. Þeir, sem koma undir ákvæði 49. gr., fá endurgreitt allt tryggingargjaldið, 15 kr. fyrir hvern mann hér í Reykjavík. Það, sem borgað er umfram, er ekki tryggingargjald, heldur skattur til tryggingarinnar, til þess að bæta upp iðgjöldin. Það væri óeðlilegt að undanþiggja þessa menn slíkum greiðslum. Ég get því ekki fallizt á þessa till., sem hér er borin fram. En til þess að gefa mönnum nokkra hugmynd um, hverju máli þetta skiptir, skal ég taka til dæmis hjón hér í Reykjavík, sem hafa um 2 þús. kr. skattfrjálsar tekjur, og segjum, að maðurinn starfaði hjá öðrumhvorum bankanum. Hann þyrfti að greiða 20 kr. í tekjuskatt og 14 kr. í persónugjald, samtals 34 kr., frádráttur yrði 15 kr. samkv. ákvæðum 15. gr., þannig að hann borgaði ekki nema 4 kr. umfram skattinn til sjóðsins. Ef margir slíkir sjóðir myndu rísa upp, þá yrði afleiðingin sú, að framlagið til lífeyrissjóðs myndi ekki einu sinni nægja til þess að greiða meðaliðgjöld, því að vitanlega myndu þeir, sem hærri hafa launin, standa að slíkum sjóðum. Af þessu myndi einnig leiða það, að styrkur sá, sem almenningur nýtur, hlyti að minnka að sama skapi. Ég tel það alveg víst, að ef þessi sérstaða bankanna helzt áfram, þá myndu aðrir hliðstæðir sjóðir reyna að hafa áhrif á þingið og reyna að fá sömu meðferð í þessu efni eins og sjóðir starfsmanna bankanna. Ég fæ ekki séð, að það væri neitt réttlæti að synja þessum mönnum um sömu aðstoð, nema síður sé. Ég skal geta þess, að eftirlaunasjóður starfsmanna Reykjavíkurbæjar hefir sótt um slíka viðurkenningu ásamt mörgum fleiri sjóðum, og ég geri ráð fyrir því, að þessir sjóðir geti réttilega bent á það sama, til þess að fá þessi fríðindi, og starfsmenn bankanna. Ég verð því að leggjast á móti þessari brtt. og vænti þess, að hv. d. geti fallizt á að fella hana.