02.04.1940
Neðri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

40. mál, alþýðutryggingar

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég ætla ekki að bæta miklu við, en þegar ný l. eru sett, eins og alþýðutryggingarl., þá má gera ráð fyrir, að þau séu að einhverju leyti löguð eftir því ástandi, sem þá ríkir. Það væri ekki hættulaust fordæmi, ef eldri sjóðum væru gefin viss réttindi, eða látnir halda vissum réttindum, sem þeir hafa haft áður. Það mætti benda á mörg dæmi um þetta, þegar skipulaginu hefir verið breytt þannig, að hið eldra hefir orðið að þoka fyrir öðru, en á sumum sviðum hefir eldra skipulagið verið látið halda sér. Eldri ákvæði hafa verið látin halda sér um embættismenn og barnakennara. Hví má þá ekki einnig það sama gilda um starfsmenn bankanna, sérstaklega þar sem svo er ástatt, að þeir eru lögþvingaðir til þess að greiða sérstök iðgjöld, sem eru hærri en venjuleg tryggingargjöld?

Útvegsbankinn fór alveg í kjölfar Landsbankans með sínar tryggingar, og það er bara frekar yfirsjón, að aldrei skuli hafa verið leitað lögfestingar á tryggingaskipulagi Útvegsbankans. En hv. þm. Seyðf. játar, að það sé ekki nema sanngjarnt, að báðir þessir bankar hafi sömu réttindi hvað þetta snertir, eða þá að það séu tekin þessi réttindi af þeim báðum, ef á að taka þau af öðrum. Nú er það svo, að þegar aðrir starfsmenn ríkisins — og í raun og veru er hér um að ræða menn, sem eru starfsmenn ríkisins að verulegu leyti — njóta þessara réttinda og þau eru ekki af þeim tekin, þá má undarlegt heita að þurfa endilega að taka réttindi þessi af þessum bönkum. Ég býst við, að aðrir sérsjóðir beygi sig fyrir því, sem gert er ráð fyrir í tryggingal., þó að þessar stofnanir, bankarnir, njóti slíkra réttinda sem hér um ræðir. Enda hafa ekki hingað til komið fram frá þeim, þ. e. öðrum sjóðum, til Alþ. beiðnir um, að alþýðutryggingalöggjöfinni verði breytt sérstaklega vegna þeirra.