11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

40. mál, alþýðutryggingar

*Magnús Gíslason:

Það var rétt, sem hv. frsm. minntist á áðan, að þegar nefndin lauk störfum, hafði ég ekki látið uppi álit mitt um þetta atriði, en það var sakir þess, að málið var svo fljótt afgr. frá n.

Ástæðan fyrir því, að brtt. er borin fram, er sú, að það þykir ekki sanngjarnt að láta þessa sjóðfélaga greiða þetta gjald, þar sem þeir fá ekkert í móti, en það ætti yfirleitt að vera föst regla, að þegar einhverjar kvaðir eru lagðar á menn, þá eigi þeir jafnhliða að fá einhver réttindi. En hér á ekki um neitt slíkt að vera að ræða. Menn þessir eiga ekki að fá neitt úr alþýðutryggingunum fyrir gjald sitt.

Lögin um alþýðutryggingar standa etlaust til bóta í framtíðinni, enda þurfa þau þess með. Mér er t.d. fullkunnugt um, sem innheimtumanni, að óvinsælli skattur hefir varla nokkurn tíma verið lagður á. Fyrst og fremst sakir þess, hve hann er hár, sem sýnir sig bezt í því, að menn, sem voru þinggjaldslausir ár eftir ár, eiga nú kannske að greiða 50–60 krónur á ári. Það var því ekkert undarlegt, þó að margur yrði hissa og hefði orð um að greiða þetta. Þegar það var svo skýrt fyrir mönnum, að þeir ættu von á að fá úr lífeyrissjóði, þegar þeir væru 65 ára gamlir, var svarið venjulega: Við verðum aldrei svo gamlir, — eða ég verð aldrei svo gamall. Að fara nú að breyta þessu ákvæði, sem sett var inn í lögin fyrir 3 árum, er lítt skiljanlegt, því að það hefir eflaust verið sett þar af því, að það hefir þótt nauðsynlegt og sanngjarnt.