11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

97. mál, loðdýrarækt og loðdýralánadeild

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta er borið fram af landbn. Nd. að tilhlutun landbrh. Það er um breyt. á l. frá 1937 um loðdýrarækt og loðdýralánadeild. Aðalbreytingin, sem í frv. felst frá gildandi l., er í því fólgin, að meira öryggis verði gætt með vörzlu dýranna, svo að þau sleppi ekki laus og valdi tjóni á peningi manna.

Þá er annað atriði það, að síðan lögin voru sett hefir verið skipaður ráðunautur um loðdýrarækt, og eru breytingar á lögunum einnig í samræmi við þá breyt. frá því, sem var.

Þá er 6. gr. algert nýmæli, þar sem öllum, er loðdýr eiga, er gert skylt að vera annaðhvort meðlimir í Loðdýraræktarfélagi Íslands eða öðru félagi loðdýraeigenda sem hefir lög og reglur staðfestar af landbrh. Eina brtt., sem landbn. hefir lagt til, að gerð verði á frv., er sú, að felld verði niður 1. gr. þess. Að öðru leyti leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Í 1. gr. l. frá 1937 er svo ákveðið, að hreppsnefndir eða bæjarstjórnir veiti leyfi til loðdýraræktar. En í 1. gr. frv. er lagt til, að hreppsnefndaroddvitar eða bæjarstjórar skuli fá heimild til þess að veita leyfi þetta til bráðabirgða, upp á væntanlegt samþykki hlutaðeigandi hreppsnefnda og bæjarstjórna. Hvað mig snertir, þá skal ég játa það, að ég taldi þetta ekki svo mikilsvert atriði, að ástæða væri til þess að láta málið fara að ganga aftur til Nd. vegna þess. Ég legg því ekki mikla áherzlu á þessa brtt., enda þótt ég mæli með því, að hún verði samþ., og frv. eins og það liggur fyrir, að undanteknu þessu atriði, því að ég tel það til bóta.