26.02.1940
Neðri deild: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

8. mál, jarðhiti

Flm. (Bjarni Bjarnason):

Við flm. þessa frv. leyfum okkur að flytja það einu sinni enn. En að þessu sinni er það í nokkuð breyttu formi frá því, sem það hefir verið. Þessi hv. d. breytti frv. um þetta efni, sem flutt var á síðasta þingi, og afgr. það til Ed. í því formi, sem það er nú í.

Þrátt fyrir það, þó að við flm. náum ekki því marki með þessu frv. eins og það er nú, sem við höfðum hugsað okkur, teljum við þó til bóta að fá frv. afgr. í því formi eins og það liggur nú fyrir.

Þau ákvæði, sem snerta meðferð jarðhitasvæða og heimildin til ríkisstj. um að styrkja menn til borana og annara rannsókna á jarðhita, eru bæði nauðsynleg og einnig nokkur hvatning, og geta auk þess haft verulega fjárhagslega þýðingu. Ennfremur, að ekki sé heimilt að undanskilja jarðhita, þegar sala fer fram á jörðum, þar sem um slík hlunnindi er að ræða.

Hitt meginatriði þessa máls er snertandi forkaupsréttinn. Í frv. okkar eins og við flm. lögðum það fram í fyrstu var gert ráð fyrir því, að ríkið eignaðist forkaupsrétt við sölu jarðhita. En hv. allshn. þessarar d. breytti á síðasta þingi þessu atriði frv. í það horf eins og það er í 6. gr. nú. Þar sem ég tel, að svona verðmæti séu hvergi betur komin en í eigu ríkisins, þykir mér að vísu miður að víkja frá hinni upphaflegu stefnu í þessu máli. En þessa breyt. skoða ég þó sem málamiðlun, sem rétt sé að fallast á eins og á stendur.

Þar sem nú eru aðeins örfáar vikur liðnar síðan þessi hv. d. afgr. þetta mál frá sér, þá vil ég vænta þess, að þess sé enn kostur að fá það afgr. í því formi, sem frv. liggur nú fyrir í, og legg ég til, að málinu verði nú að lokinni umr. vísað til hv. allshn., í trausti þess, að sú n. flýti fyrir málinu og afgr. það á þeim grundvelli, sem hér er lagt til.