15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

8. mál, jarðhiti

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég ætla ekki út í langar deilur um óframkvæmanleik þessa frv. Ég skal játa það, að ég hefi ekki mikið vit á þessum jarðhitamálum. Ég er uppalinn á köldum stað og hefi alltaf búið á köldum stað, og geri ráð fyrir, að svo verði áfram. Hinsvegar er ég ekki í vafa um, að það er rétt, að jarðhitinn felur í sér mikið verðmæti. Það er sýnilega ekki rétt, sem hv. 2. landsk. vildi benda á í sambandi við undirbúning þessa máls, að hann væri lítill og ófullkominn. Ég vil aðeins henda honum á þá þál., sem samþ. var í þinginu, um að vísa málinu til ríkisstj. til rannsóknar á jarðhitasvæðunum, og að ríkisstj. legði svo fram frv. um þetta efni, að þeirri rannsókn lokinni. Þetta ætti hv. þm. að vera kunnugt um, og svo það, að frv., sem fram var borið á þinginu 1938, var flutt að tilhlutun hæstv. atvmrh., og þar segir í grg. frv., að samkv. samþykkt þingsins hafi ráðh. látið rannsaka nokkur jarðhitasvæði og að athuguninni lokinni hafi hann látið athuga frv. frá síðasta þingi. Á því voru svo gerðar nokkrar breyt. og síðan fékk ráðh. flm. til þess að flytja það aftur á ný. Þessi undirbúningur hefir farið fram, og frv. er búið að ganga gegnum hv. Nd. Þessu vildi ég svara við því, að frv. sé illa undirbúið, en ekki held ég hinu fram, að löggjöf sem þessi standi ekki til bóta, þegar reynsla fæst.

Hv. 11. landsk. taldi nauðsynlegt að auðvelda mönnum að kaupa lönd meðeigenda sinna að jarðhita, ella næðu ákvæði 4. gr. ekki tilgangi sínum. Þetta á við mjög lítil rök að styðjast. Ákvæði 4. gr. hljóta að skiljast svo, að með orku, sem keypt er eða leigð, fylgi réttindi til að nota hana og aðstaða til þess, og meira þarf ekki að rýmka til fyrir kaupandanum með lögum. En setjum svo, að brtt. á þskj. 422 kæmist í lög og meðeigandi í jörð með hitaorku vildi eignast hana alla til að braska með. Þá hefir hann miklu rýmri hendur til þess, ef hann hefir forkaupsrétt, ekki bundinn við þá orku, sem hann ætlar að hagnýta, heldur á landareigninni allri. Ýmsir möguleikar myndu þá opnast fyrir brask, þeir sem takmarkast mjög af ákvæðinu í 6. gr. um, að ríkissjóður hafi forkaupsréttinn næst á eftir þeim, sem hann hefir þegar verið veittur með lögum. Ég skal gjarnan taka undir það með hv. 2. landsk., að vandkvæði geta skapazt, þegar 3–5 eru meðeigendur að sama jarðhita og allir með jafnan forkaupsrétt, en yfirleitt mun þá takast að leysa vandann með samkomulagi. Mér finnst það tvímælalaust, að brtt. brjóti í bág við stefnu og heild frv. og sé til spillis, og er undarlegt, að þeir, sem telja frv. illa undirbúið, skuli standa að slíkri brtt.